Svo kemur að því, einn góðan haustdag, að við stöndum uppi með allt of mikið og okkur langar ekki til að frysta meira, pikla eða sulta. Við því er einfalt ráð sem hefur verið notað frá elstu tíð með góðum árangri við ámóta kringumstæður. Við sláum upp veislu. Eða gefum nágrannanum með okkur. Gnóttina er hollt að upplifa. Þegar við tínum grös og ber er blátt áfram heilsusamlegt að horfa yfir breiðurnar af jurtum og jarðargróðri og vita að við getum aðeins nýtt lítið brot af þeim auði. Við þurfum ekki öll sjávarins söl. Það sem fæst í einni ferð er meira en nóg fyrir allt árið. Hollt er að vagga í bátkænu og horfa á sölin bærast í undiröldunni, og leyfa sjónum að skola græðgina af fingrunum þegar við teygjum þá niður til að slíta upp fjólubrún blöðin og öðlast þann skilning að náttúran ann okkur á sinn hlutlausa hátt og vill að við lifum saman og sinnum hvor annarri.

Á sama tíma og hafnar voru tilraunir með grænmetisrækt í Sauðlauksdal voru farnar að flytjast til landsins ýmsar munaðarvörur, eins og tóbak frá Ameríku, te og postulín og hrísgrjón frá Kína. Myndir segja meira en þúsund orð var haft eftir Maó formanni en hann hefði mátt bæta við að ljóð segja oft langtum meira en texti, nema í löngu máli sé. Steingrímur Gautur Kristjánsson hefur glímt við ljóðaþýðingar frá Austurlöndum og hér kemur ein þeirra eftir Möng Haran.

Gamall vinur eldar kjúkling og hirsi.
Hann hefur boðið mér upp í sveit.
Þorpið er umkringt grænum trjám
og umlukt bláum fjöllum.
Utan við gluggann eru skrúðgarður
og matjurtagarður.
Með krús í hendi ræðum við um
silkirækt og hamp.
Ég hlakka til hausthátíðarinnar.
Þá kem ég aftur til að sjá prestafíflana.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Ljósmynd: Hvítkál undir Ingólfsfjalli, Einar Bergmundur.

Birt:
23. september 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Gnóttin“, Náttúran.is: 23. september 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/12/gnottin/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. nóvember 2007
breytt: 14. mars 2014

Skilaboð: