Í dag var lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaa um að skipa nefnd sem móti stefnu um hvernig leggja megi á næstu árum og áratugum raflínur í jörð sem nú eru ofan jarðar. Nefndina skipi einn fulltrúi frá hverjum eftirtalinna aðila: fjármálaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, umhverfisráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, náttúruverndarsamtökum, Landsneti, iðnaðarnefnd Alþingis og umhverfisnefnd Alþingis og skili hún Alþingi skýrslu um störf sín.

Framberendur frumvarpsins eru: Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal, Kolbrún Halldórsdóttir, Kjartan Ólafsson, Katrín Júlíusdóttir, Illugi Gunnarsson, Gunnar Svavarsson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Höskuldur Þórhallsson og Kristinn H. Gunnarsson.

Greinargerð:

Á undanförnum árum hefur orkuframleiðsla á Íslandi aukist mjög og jafnframt gagnrýni á neikvæð umhverfisáhrif hennar. Umtalsverður hluti þeirra áhrifa er sjónmengun af völdum háspennulína og hefur sú krafa orðið háværari að jarðstrengir séu nýttir í stað loftlína. Þannig hafa viðhorf breyst og raflínur sem eitt sinn þóttu merki um framfarir og velsæld þykja nú lýta umhverfið og spilla ósnortnu landslagi. Svipaðar deilur spruttu strax í árdaga Símans á Íslandi þegar bændur héldu til Reykjavíkur til að mótmæla línulögnum og kalla eftir þráðlausum fjarskiptum. Nú, einni öld síðar, eru nær allar fjarskiptalagnir á Íslandi komnar í jörð. Svipuð þróun verður augljóslega í dreifikerfi raforku en til að styðja þá þróun og flýta henni er mikilvægt að fyrir liggi pólitísk stefnumörkun um að stefnt skuli að lagningu allra raflína í jörð.

Jarðstrengir hafa einnig þann kost umfram háspennulínur að vera óháðir veðurþáttum, svo sem ísingu, saltmengun og vindi. Slíkir þættir eru algengustu orsakir rafmagnsleysis og rafmagnstruflana. Því er lagning jarðstrengja mikilvægt hagsmunamál dreifbýlisins. Þó verður að hafa í huga að viðgerðir jarðstrengja eru bæði dýrari og tímafrekari en á loftlínum.

Miklar breytingar hafa orðið á síðustu árum á kostnaði við að leggja jarðstrengi. Gott dæmi um þetta er raforkuverið á Nesjavöllum. Þegar það var reist fyrir áratug var talið útilokað að hafa meira en helming af raflínum þaðan til Reykjavíkur í jörð. Nú, tíu árum síðar, þegar leggja þarf aðra línu sömu leið er ekkert annað talið koma til greina en að leggja í jörð, en það er einnig hluti af mótvægisaðgerðum. Kostnaður við jarðstreng í fyrra tilvikinu reyndist umtalsvert minni en áætlað var, eða 19,8 millj. kr. á hvern km miðað við 13,9 millj. kr. fyrir loftlínuna. Þetta er 44% munur en áætlanir höfðu gert ráð fyrir allt að 100% mun. Spenna Nesjavallalínu er 132 kV og síðan hún var lögð hefur hagkvæmni jarðstrengja á þeirri spennu aukist enn frekar. Við hæstu flutningsspennu er kostnaðarmunur milli jarðstrengja og loftlína hins vegar allt að tífaldur. Nú er um þriðjungur raflína í landinu undir 132 kV eða liðlega 1.000 km (sjá meðfylgjandi töflu).

Lengd 220 kV háspennulína 749 km
Lengd 132 kV háspennulína/strengja 1.167 km
Lengd 33 og 66 kV háspennulína/strengja 1.000 km
Lengd háspennulína samtals 2.916 km

Nýjar raflínulagnir munu á næstu árum og áratugum fyrst og fremst tengjast iðnaðar- og atvinnustarfsemi en ekki þörfum heimilanna. Vaxandi kröfur eru um að iðnaðar- og atvinnustarfsemi verði að vera nægilega ábatasöm til að geta sjálf greitt kostnað við bestu umhverfislausnir á hverjum tíma. Því er eðlilegt að gerð verði krafa um að gjaldtaka Landsnets á nýjum línulögnum fyrir iðnaðarstarfsemi nægi til að standa straum af kostnaði við jarðstrengi. Þó mun endurnýjun lína sem byggðar hafa verið til að mæta þörfum almennings hefjast á næsta áratug og er þar einkum um að ræða línur sem nú eru á 132 kV og 66 kV spennu. Eðlilegt er að gera þar einnig kröfu um bestu umhverfislausnir, en kostnaður mun væntanlega verða viðunandi í ljósi hagstæðrar verðþróunar fyrir jarðstrengi með 132 kV og 66 kV spennu. Um langa framtíð, eða fram á miðja öldina, munu loftlínur þó verða í raforkukerfi landsins, enda hafa þær margar verið reistar nýlega og marga áratugi tekur að afskrifa þær fjárfestingar. Uppbygging og þróun raforkudreifikerfisins er líka langtímaverkefni og því þýðingarmikið að fyrir liggi hvaða framtíðarkröfur gera á til þess. Í því sambandi er mikilvægt að forgangsraða verkefnum í lagningu jarðstrengja, enda ljóst að sum þeirra eru nærtækari en önnur. Þá getur á sumum stöðum verið meira rask af jarðstreng en loftlínu og því mikilvægt að huga tímanlega að lagnaleiðum og tæknibreytingum við lagningu. Með slíkri stefnumörkun gefst kostur á að þróa kerfið á sem hagkvæmastan hátt þannig að það verði að mestu leyti neðan jarðar fyrir miðja þessa öld.

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. 



Birt:
11. desember 2007
Höfundur:
Alþingi
Uppruni:
Alþingi
Tilvitnun:
Alþingi „Tillaga til þingsályktunar um lagningar raflína í jörð“, Náttúran.is: 11. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/11/tillaga-til-thingsalyktunar-um-lagningar-raflina-i/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: