Leiðarljósið er heilnæmt umhverfi
„Ef íbúar húsnæðis telja að þeir búi við heilsuspillandi aðstæður geta þeir snúið sér til Heilbrigðiseftirlitsins og óskað eftir skoðun á húsnæðinu,“ segir Rósa Magnúsdóttir deildarstjóri Hollustuhátta hjá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar.
Leiðarljósið er heilnæmt umhverfi borgarbúa og meginreglan er að fólk beri sjálft ábyrgð á eigin húsnæði og aðstæðum sínum. Fólk má hafa það eins og það vill heima hjá sér svo lengi sem það truflar ekki aðra. Heilbrigðiseftirlitið kemur til sögunnar ef kvörtun berst. Rósa segir það löngu liðna tíð að Heilbrigðiseftirlitið hafi frumkvæði að því að hlutast til um húsnæðisaðstæður hjá fólki.
„Ef í ljós kemur að tiltekið húsnæði er heilsuspillandi og óíbúðarhæft getur Heilbrigðiseftirlitið bannað útleigu á því,“ segir Rósa og að slíku banni sé þá jafnan þinglýst. Hún segir að eftir að endurbætur á húsnæði hafi farið fram sé hægt að fara fram á úttekt heilbrigðisfulltrúa til að aflétta leigubanninu. „Ef húsnæðið þarfnast aftur á móti einungis viðgerðar, en telst ekki heilsuspillandi, skrifum við leigjanda eða húseiganda bréf og bendum á að endurbóta sé þörf.“
Rósa segir óheimilt að leigja út íbúðarhúsnæði sem ekki hefur verið samþykkt sem slíkt hjá byggingarfulltrúa. Heilbrigðisfulltrúar mega ekki fara inn í híbýli fólks nema að ósk íbúa eða að undangengnum dómsúrskurði eða í fylgd og að beiðni lögreglu. Slökkviliðið getur þó kallað til Heilbrigðiseftirlitið en þá eru fulltrúar húseigenda einnig á staðnum. „Við hjá Heilbrigðiseftirlitinu höfum ekki afskipti af fólki sem kþs að búa við lélegar aðstæður, hvort sem viðkomandi býr í gámi eða tjaldi nema það hafi sjálft samband við okkur, “ segir Rósa. „Heilbrigðiseftirlitið hefur heldur engin úrræði til að koma fólki í viðunandi húsnæði en við getum staðfest að fólk búi við lélegar aðstæður ef óskað er eftir og það hjálpar vonandi þegar sótt er um félagslegt húsnæði hjá borginni, “ segir hún.
Heilbrigðiseftirlitið hefur einnig eftirlit með umgengni á lóðum og getur gert kröfur til lóðarhafa að þeir haldi lóðunum snyrtilegum og fari eftir settum reglum um umgengni og förgun úrgangs. Rósa segir að Heilbrigðiseftirlitið sé kallað til ef slæm umgengni veldur ónæði til dæmis vegna ólyktar. „Ef slíkt er til dæmis í fjöleignahúsum þarf húsfélagið að taka á málum en Heilbrigðiseftirlitið kemur þá til sögunnar sem óháður aðili sem getur staðfest ónæðið,“ segir hún.
Frekari upplýsingar veitir: Rósa Magnúsdóttir deildarstjóri Hollustuhátta. s. 411-8500.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Leiðarljósið er heilnæmt umhverfi “, Náttúran.is: 27. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/27/leioarljosio-er-heilnaemt-umhverfi/ [Skoðað:27. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.