Umhverfisráðherra úrskurðar um Suðvesturlínu gegn áliti Skipulagsstofnunar
Umhverfisráðherra hefur fellt úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna Suðvesturlínu og öðrum tengdum framkvæmdum. Málinu hefur verið vísað aftur til Skipulagsstofnunar til efnilegrar meðferðar og úrlausnar.
Ráðuneytinu bárust þann 24. apríl 2009 tvær kærur, annars vegar frá Landvernd og hins vegar frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 25. mars 2009 um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar Suðvesturlínur, styrking raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi, og öðrum framkvæmdum sem tengjast álveri í Helguvík. Kærurnar byggðu á ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.
Ákvæðið hljóðar svo:
Í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd eru fyrirhugaðar á sama svæði eða framkvæmdirnar eru háðar hver annarri getur Skipulagsstofnun að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega.
Í forsendum Skipulagsstofnunar fyrir ákvörðun sinni kemur m.a. fram að þar sem svo óljóst sé hvaða framkvæmdir muni tengjast raforkuöflun og orkuflutningi vegna álvers í Helguvík og hversu mislangt á veg þær framkvæmdir séu komnar í undirbúningi, myndi það að mati Skipulagsstofnunar stangast á við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að gera Landsneti að bíða eftir því að farið yrði af stað með mat á umhverfisáhrifum nýrra virkjanakosta.
Í gögnum frá Landsneti, framkvæmdaraðila Suðvesturlínu, kemur fram að öðru óbreyttu, sé aðkallandi að flutningskerfi raforku á Reykjanesskaga verði styrkt. Þessu næst er fjallað um orkuöflunarframkvæmdir sem í undirbúningi eru á Hellisheiði og á Reykjanesi og síðan segir að önnur mikilvæg forsenda fyrir styrkingu raforkuflutningskerfisins sé uppbygging iðnaðarsvæða fyrir orkufreka starfsemi. Efling flutningskerfisins sé því almennt nauðsynleg og ekki hægt að eyrnamerkja hana eingöngu byggingu álvers í Helguvík enda kerfið ekki klæðskera saumað að þörfum eins notanda. Þá segir í upplýsingum um framkvæmdina frá framkvæmdaraðila í frummatsskýrslu dags. 6. maí 2009: „Sumar línu- og jarðstrengjaframkvæmdir sem hér er fjallað um tengjast beint fyrirhuguðu álveri í Helguvík, enda um stóran notanda að ræða og tímasetning annarra framkvæmda því háð uppbyggingu álversins. Það er jafnframt sá notandi sem lengst er kominn á leið í sínum undirbúningi. Vert er einnig að ítreka að Landsnet mun ekki fara í umræddar framkvæmdir nema að því marki sem þörf krefur vegna almennrar notkunar, virkjanaframkvæmda á svæðinu og/eða iðnaðar uppbyggingar.“
Samkvæmt framangreindu telur ráðuneytið líklegt að vegna álvers í Helguvík auk annarra orkufrekra verkefna á Suðurnesjum þurfi að virkja frekar á Reykjanesi og jafnvel víðar. Hins vegar liggi ekki fyrir hversu langt áform um mögulegar virkjanir eru komin, m.a. varðandi suma þá virkjunarkosti sem til athugunar voru vegna álversins þegar mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar fór fram. Því er haldið fram af framkvæmdaraðila og fleiri aðilum að af styrkingu flutningslínu þurfi að verða hvort sem þær virkjanir sem enn eru óvissar komi til eða ekki. Engu að síður kemur fram að ekki verði farið í umræddar framkvæmdir nema að því marki sem þörf krefur m.a. vegna virkjanaframkvæmda og iðnaðaruppbyggingar. Að mati umhverfisráðuneytisins liggur því ekki fyrir með nægjanlega skýrum hætti að hvaða marki framkvæmdin Suðvesturlínur er háð því að til frekari virkjunarframkvæmda og iðnaðaruppbyggingar komi.
Þannig voru, að mati ráðuneytisins, nokkur atriði tengd málinu ekki fyllilega skýr, eða nægjanlega upplýst, áður en Skipulagsstofnun tók ákvörðun í málinu. Stofnuninni bar að afla frekari upplýsinga til þess að hún gæti tekið nægjanlega upplýsta afstöðu til þess hvort skilyrðum fyrir sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum væri fullnægt. Að mati ráðuneytisins bar stofnuninni líka að leita samráðs við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur um hvort sameiginlegt mat skyldi fara fram. Það var ekki gert og því vék enginn umsagnaraðila að þessu atriði í umsögnum sínum, utan þess að framkvæmdaraðilinn, Landsnet hf., fjallaði um þetta atriði í athugasemdum.
Vegna þeirra annmarka á ákvörðun Skipulagsstofnunar að upplýsa málið ekki nægjanlega þykir rétt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til stofnunarinnar á ný til efnislegrar meðferðar og úrlausnar. Tekið skal fram að með því hefur ráðuneytið enga efnislega afstöðu tekið til endanlegra lykta málsins.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Umhverfisráðherra úrskurðar um Suðvesturlínu gegn áliti Skipulagsstofnunar“, Náttúran.is: 29. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/29/umhverfisraoherra-urskuroar-um-suovesturlinu-gegn-/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.