Á söguslóðum - Eiríksstaðir í Haukadal
Eiríkur rauði og kona hans Þjóðhildur reistu sér bú að Eiríksstöðum í Haukadal eftir því sem segir í Eiríks sögu rauða. Þar er talið að Leifur heppni og bræður hans séu fæddir. Eiríkur var gerður útlægur af Íslandi fyrir víga sakir og leitaði þá landa í vestri. Fann hann land er hann nefndi Grænland. Þangað flutti hann með fjölskylduna árið 985 eða 986 og fjöldi fólks fylgdi honum. Leifur kannaði Vínland árið 1000, fyrstur Evrópubúa, nær 500 árum á undan Kólumbusi. Leifur heppni er því meðal merkustu landkönnuða sögunnar.
Rústir Eiríksstaða voru kannaðar fyrir miðja síðustu öld og aftur 1997-1999. Kom þá í ljós skáli frá 10. öld og eru rústir hans sýnilegar. Skammt frá rústunum var reist tilgátuhús* sem var vígt árið 2000, á 1000 ára afmæli landafunda Leifs í Ameríku. Við bygginguna var lögð áhersla á að styðjast við rústirnar, rannsóknir og fornt verklag. Í bænum er lifandi starfsemi og fólk klætt að fornum sið fræðir gesti. Þá eru söguskilti á svæðinu og stytta af Leifi eftir Nínu Sæmundsson. Boðið er upp á námskeið fyrir skólahópa. Kaffiveitingar og minjagripasala er í víkingatjaldi skammt frá bænum. Í nágrenninu eru slóðir Laxdæla sögu.
Sjá Eiríksstaði hér á Grænum síðum. Sjá söguslóðir og aðra menningarstaði á landinu hér á Grænu Íslandskorti (Menning: Sagnfræðileg sérkenni, Menningarsetur, Safn, Íslenskir þjóðhættir).
Sjá einnig vef um Söguslóðir á Íslandi sagatrail.is.
Myndin er af aðalinngangi „tilgátuhússins“. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Á söguslóðum - Eiríksstaðir í Haukadal“, Náttúran.is: 29. júní 2010 URL: http://nature.is/d/2009/07/28/soguslooum-eiriksstaoir-i-haukadal/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 28. júlí 2009
breytt: 29. júní 2010