Umhverfisáhrif fótboltaleikja
Síðasta laugardag var spilaður úrslitaleikur í ensku bikarkeppninni á nýjum Wembley leikvangi í London. Umhverfisáhrif eins slíks úrslitaleikjar eru talin vera gríðarleg meðal annars vegna neyslu hins almenna fótboltaaðdáenda á bjór og skyndibita. „Þetta eru einkum mikið unnar matar og drykkjar vörur sem eru mjög orkufrekar í framleiðslu“ segir Dr. Andrea Collins frá Háskólanum í Cardiff, en hún leiddi hóp í rannsókn á umhverfisáhrifum úrslitaleiks enska bikarsins 2004 á Árþúsunda-leikvanginum í Cardiff.
Aðdáendur liðanna Manchester United og Millwall sporðrenndu alls 37.624 pylsurúllum, 26.965 samlokum, 17.998 pylsum, 12.780 hamborgurum, 11.502 pokum af kartöfluflögum og 23.909 skömmtum af frönskum.
Þessu var skolað niður með 203.494 lítrum af bjór 21.422 af cider, 12.452 flöskum af víni, 90.481 staupum og 63.141 flöskum af áfengum gosdrykkjum. Eftir að fagnaðarlátunum í Cardiff lauk lágu á götum Cardiff borgar 37.000 tonn af gleri, 8 tonn af pappa og 11 tonn af matarafgöngum. Ekkert af þessu var endurunnið.
Stærstu umhverfisáhrifin voru þó ferðalögin. Aðdáendurnir ferðuðust að meðaltali 590.5 km hver – 47% með bíl, 34% með lest og afgangurinn með rútum eða stórum fólksbílum. Dr. Collins og hennar hópur unnu niðurstöðurnar eftir að hafa talað við fyrirtæki, borgarráðið, einhverja af þeim 73.000 aðdáendum á leiknum og samgöngufyrirtæki. „Skipuleggjendur íþróttaviðburða eru farnir að grípa til ráðstafana til að minnka umhverfisáhrif slíkra viðburða“ segir Dr. Collins.
Talsmaður Wembley leikvangsins segir að aðdáendur séu hvattir til að koma ekki á einkabílum á leikvanginn. Hann segir að almenningssamgöngur að vellinum séu góðar og oft sé lítið um bílastæði. Leikvangurinn notast einnig við sérstakan búnað til að draga úr vatnsnotkun til hreinsunar á áhorfendastæðunum og vökvunar á vellinum. Wembley leikvangurinn notast við rafmagn framleitt úr endurnýjanlegum orkugjöfum og stefnir einnig á að endurvinna um 50% úrgangs eftir leiki.
Dr. Collins segir að einnig þurfi að athuga að úrgangur utan leikvanga sé heilmikill og það vandamál þurfi líka að leysa. Hægt væri að minnka umhverfisáhrifin um 11% ef að nálæg fyrirtæki væru hvött til að endurvinna helming alls pappa og gler úrgangs. Hún stakk einnig upp á að far í almenningssamgöngur væri innifalið í miðanum á leikinn.
Sjá greinina á heimasíðu The Guardian hér
Birt:
Tilvitnun:
Vala Smáradóttir „Umhverfisáhrif fótboltaleikja“, Náttúran.is: 21. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/21/umhverfishrif-ftboltaleikja/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. maí 2007