Orkusetur hefur veitt bílaleigunni Hertz viðurkenningu fyrir að bjóða upp á visthæfa bíla í flota sínum. Mörg þúsund bifreiðar í eigu bílaleiga eru á vegum landsins og vega þungt í eldsneytis- og útblástursbókhaldi þjóðarinnar. Að auki keyra ófáir ökumenn á fyrrverandi bílaleigubifreiðum. Það er því býsna mikilvægt að reyna hliðra innkaupum hjá bílaleigum í átt til meiri eldsneytisnýtni.

Orkusetur setti fram samgöngustefnu á dögunum þar sem m.a. var komið inn á bílaleigubíla. Þar segir:

"Þegar leigðar eru bifreiðar, bílaleigu- eða leigubifreiðar, skal ávallt leitað þjónustu fyrirtækja sem bjóða upp á bifreiðar knúnar vistvænum orkugjöfum og/eða visthæfum bifreiðum með útblástursgildi undir 120 CO2g/km. Ávallt skal óskað eftir slíkum bifreiðum nema sérstakar aðstæður kalli á stærri bifreiðar."

Það var því kærkomið að frétta að til væri bílaleiga sem mætti þessum kröfum. Hertz býður upp mjög frambærilegar bifreiðar í tveimur flokkum sem standast kröfur um útblástursgildi og að auki geta menn prófað vetnisbifreiðar sem gefur fólki einstakt tækifæri til að prófa akstur án jarðefnaeldsneytis og útblásturs.

Á myndinni er Sigurður Ingi Þorleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs að afhenda Björgvini Njáli Ingólfssyni viðurkenninguna.

Birt:
5. mars 2008
Uppruni:
Orkusetur
Tilvitnun:
Sigurður Ingi Friðleifsson „Orkusetur veitir bílaleigunni Hertz viðurkenningu“, Náttúran.is: 5. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/04/orkusetur-veitir-bilaleigunni-hertz-viourkenningu/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 4. mars 2008
breytt: 8. september 2010

Skilaboð: