Jarðfræðiathuganir úr lofti óskast
Í dag fengu íbúar suðurlands bækling í hendur sem inniheldur upplýsingar frá ábúendum Skálmholtshrauns í Flóa þeim Walter og Danielu Schmitz. Þau hjón slitu ný verið öllum viðræðum við Landsvirkjun þar sem þau álíta að þær jarðfræðirannsóknir sem fyrir hendi eru og liggja að baki ákvörðunum um þrjár nýjar virkjanir við neðri hluta Þjórsár, séu óvandaðar og ófullnægjandi. Að sögn Schmitz hjóna er ábúendum suðurlands stefnt í bráða hættu ef ekki verður hætt við uppistöðulón og virkjanir á svæðinu. Skv. fyrirætlunum Landsvirkjunar ætti stór stíflugarður að rísa á landi Schmitz hjónanna.
Walter Schmitz hefur undanfarin ár gert rannsóknir á jörð sinni og nágrenni og komist að því að hæðarpunktar sem Landsvirkjun hefur gefið út geti ekki staðist. Áætluð lónshæð er 51 meter en Walter segir að mælingar sem hann hafi framkvæmt hafi leitt í ljós að stærð lónsins verði mun meiri að umfangi en Landsvirkjun hafi kynnt. Þar sem Þjórsá liggi hærra í landinu en Hvítá megi búast við því að grunnvatnsstaða hækki og hafi geigvænlegar afleiðingar fyrir jarðirnar mili Þjórsár og Hvítár. Þau hjón buðust til að fjármagna frekari rannsóknir m.a. með því að fá Sikorsky þyrlu frá Jarðfræðistofnuninni í Hannover en hún getur kortlagt jarðlög og vatn langt undir yfirborði. Landsvirkjun þáði ekki boð hjónanna um að kosta rannsóknirnar sem hefðu kostað um 11 millj. króna. Afstaða Landsvirkjunar gekk að lokum algerlega fram af ábúendum Skálmholtshrauns og slitu þau því öllum viðræðum um skaðabætur og munu ekki leyfa neinar framkvæmdir á landi sínu.
Walter og Daniela Schmitz fara fram á að Landsvirkjun þyggi þessa þyrlu og munu þau borga fyrir þyrluna, 125.000 evrur, til þess að bjarga lífi fólks í Flóahreppi, á Skeiðum og á Selfossi.
Jarðeðlisfræði úr lofti
Árið 1986, lét ráðuneyti Þýskalands fyrir efnahagsýróun vísindamönnum í té Sikorsky S-76B þyrslu sem hefur síðan verið í stöðugri notkun við jarðeðlisfræðilegar vísindarannsóknir. Þyrlan er aðallega notuð í tæknilegum og vísinda-tæknilegum samstarfsverkefnum, en einnig er hún notuð fyrir iðnað og í ýmsum hagnýtum tilgangi.
Tæknilegar upplýsingar
Gerð: Sikorsky S-76B (Framleiðandi: Sikorsky USA).
Vél: 2 túrbínuvélar Pratt & Whitney PT6B-36A, 1033 hestöfl hver.
Mesta þyngd ytri búnaðar: 1.500 kg.
Mesti tími fyrir eina flugferð: 2 klst. 45 mínútur.
Loftborin rafsegulfræði
Í þyrlunni er búnaður sem stjórnar loftbornu rafsegulkerfi, DighernCP5 DSP kerfi sem er framleitt af Fugro Airborne Surveys (Mississauga, Canada). Þetta virka rafsegulkerfi starfar á fimm tíðnisviðum: 375 Hz, 1778 Hz, 8510 Hz, 38500 Hz og 128600 Hz og notar fimm lárétta senda og móttökuhvirfla fyrir hverja tíðni. HEM kerfið tekur 10 prufur eða myndir á hverri sekúndu með safntíðni 10 Hz. Tækið er aðallega notað til þess að mæla grunnvatn, grunnvatnsflæði og finna verðmæt jarðlög.
Loftborin segulfræði
Innan loftfarsins sem ber AEM kerfið, er sesíum-segulmælir. Annar sesíum segulmælir er notaður á jörðu niðri sem upphafspunktur til þess að leiðrétta fyrir dagsveiflur í segulsviði og aðrar hugsanlegar breytingar á segulsviði. Segulmælirinn er fyrst og fremst notaður til þess að kortleggja jarðlög og jarðfræði svæðisins sem flogið er yfir. Einnig er hægt að beita honum til þess að ná mjög mikilli nákvæmni í mælingum á jarðlögum nálægt yfirborði.
Loftborin útvarpsfræði
Staðlaður búnaður í þyrlunni er gammageisla spektrómeter sem notar 16 I NaJ (Tl – virkt) mælitæki úr krystal. Sjálfvirk stilling tækisins á sér stað með því að nota Thorium myndatopp. Tímabil tækisins er stillt á 1 sek. Kerfið er aðallega notað fyrir jarðfræði, landnotkun og kortlagningu á grunnvatni og raka í jarðlögum.
Staðsetningarkerfi
Um borð í þyrlunni og í mælitækinu sjálfu eru fullkomið GPS staðsetningarkerfi. Þriðja GPS kerfinu er bætt við til að tryggja öryggi mælinga. Þyrlan er með radar hæðarbúnað og mælitækið með laser fjarlægðarmæli.
Önnur valfrjáls mælitækni
Valfrjáls mælitæki sem hægt er að bæta í þyrluna eru þrepatíðni radar sem er notaður til þess að greina efstu jarðlög í mikilli upplausn og loftborið þyngdaraflskerfi (gravimetry system). Það er einnig á áætlun að setja laserkerfi í þyrluna til þess að kortleggja svæði og hæðarmæla. Önnur valfrjáls mælitæki eru sérstakar stafrænar myndavélar eða myndavélakerfi.
Samvinna
Samvinna innan Þýskalands er á sviði náttúruauðlinda, jarðeðlisfræði og fjarkönnunar.
Samvinna utan Þýskalands er við Fugro: Loftborin könnunarkerfi í Kanada og GBA í Vín, Austurríki.
Aðal verkefni
Vatn er orðið verðmæt auðlind í mörgum löndum heims vegna vatnsskorts. Vatn getur einnig valdið vandamálum vegna flóða og Tsunami. Þess vegna nær stór hluti mælinganna til grunnvatns, og grunnvatnsstreymis og einnig er hægt að sjá hvort að saltvatn blandast fersku vatni. Önnur mikilvæg verkefni þyrlunnar eru leit að verðmætum í jarðvegi og jarðlögum. Hinn loftborni jarðeðlisfræði hópur getur einnig unnið sérhæfð verkefni eins og að meta áhættu vegna jarðfræði og unnið að kortlagningu og verndun auðlinda.
Verkefnalisti
Namibía (1991-1995): Leit að grunnvatni í Namibíu.
Namibía (2003-2004): Leit að grunnvatni og jarðauðlindum í Namibíu.
BURVAL (2004-2006): Rannsakaðir grafnir jökuldalir í Hollandi, Danmörku og Norður-Þýskalandi.
Kolarannsóknir í Kína (2003-2006: Jarðeðlisfræðileg rannsókn á kolaeldum í Innri Mongólíu.
HELP ACEH (2005): Kortlögð áhrif saltvatns á vatnsból eftir Tsunami í Aceh héraði.
Hjálp!
Við þurfum nauðsynlega á hjálp ykkar að halda.
Við þ.e.a.s. íbúar við neðri hluta Þjórsár þar sem áætlað er að reisa þrjár nýjar vatnsaflsvirkjanir þ.e. Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun.
Þetta svæði og reyndar stórir hlutar alls Suðurlands er eitt virkasta jarðskjálftasvæði á Íslandi. Afleiðingar stíflurofs yrðu geigvænlegar fyrir allt svæðið en þó að stíflurof komi ekki til er ekki um öruggar framkvæmdir að ræða.
Stærsta vandamálið liggur í áætluðum lónsbotnum en þeir munu ekki halda tryggilega vatni þar sem sprungur, allt upp í 15 km djúpar, eru í berginu á lónssvæðunum sjálfum. Engin tækni gæti komið í veg fyrir leka og gert lónsbotnana fyllilega vatnshelda. Þetta þýðir í raun að áhrifa mun gæta á grunnvatnsstöðu á bújörðum á svæðinu allt í kring, sem mun aftur leiða til þess að ekki verður hægt að nýta landið til hefðbundins búskapar. Afleiðingar fyrir íbúana yrðu bersýnilega að landið yrði verðlaust og fólk myndi flosna upp af jörðum sínum.
Hingað til hafa uppistöðulón aðeins verið gerð á óbyggðum víðáttumiklum svæðum þar sem framtíð búskapar er ekki stefnt í bráða hættu.
Verði af fyrirhuguðum virkjunum í neðri hluta Þjórsár myndi það brjóta blað í virkjanasögunni. Íbúum svæðisins yrði vísvitandi uppálagt að annað hvort búa við stöðugan ótta, eða hreinlega yfirgefa bújarðir sínar. Á þessu fallega svæði búa margar fjölskyldur með börn. Hver tekur á sig 100% ábyrgð á því, að ekkert við áætlaðar framkvæmdir stefni lífi þeirra og framtíð í voða.
Í viðhengi eru upplýsingar „Faults and Fractures of the South Iceland Seismic Zone near Þjórsá“ sem koma frá prófessor Páli Einarssyni jarðeðlisfræðingi við Háskóla Íslands. Sjá skjalið sem Pdf.
Við biðjum um stuðning ykkar, þar sem við erum hrædd. Hræðsla sem er byggð á fengnum jarðfræðiupplýsingum um svæðið getur ekki talist óþörf. Við erum hrædd við afleiðingar sem geta haft áhrif á líf okkar, eignir og framtíð.
Þó svo að þú búir ekki við Þjórsá gætu heimkynni þín einnig orðið fyrir barðinu á virkjanaframkvæmdum í framtíðinni. Það er svo mikilvægt að samstaða náist um að koma í veg fyrir hamfarir með því að sameinast um hagsmunamál á afmörkuðum stöðum á landinu. Við munum standa með þér líka!
Þþtt af Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur og Guðrúnu Tryggvadóttur.
Myndin er af hjónunum Walter og Danielu Schmitz. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Jarðfræðiathuganir úr lofti óskast“, Náttúran.is: 5. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/05/jarfri-r-lofti-skast/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 6. október 2007