Kvikasilfur í fæði er aðallega að finna í fiski. Kvikasilfur er í öllu sjávarfangi og ferskvatnsfiski af náttúrulegum orsökum og hefur ávallt verið þar til staðar. Stærsta náttúrulega uppspretta kvikasilfurs er álitin tilkomin vegna eldgosa og veðrunar bergs. Iðnaður og önnur starfsemi manna veldur einnig losun kvikasilfurs í andrúmsloft, höf og vötn. Í seti ummyndast kvikasilfur í kvikasilfursamband, metþlkvikasilfur, sem er talsvert eitraðra en það sem losað er og þetta form kvikasilfurs safnast að einhverju leyti fyrir í öllum sjávardýrum.

Hæstan styrk kvikasilfurs er jafnan að finna í ránfiskum sem eru efstir í fæðukeðjunni og í því meira magni sem þeir verða eldri og stærri. Kvikasilfur getur einnig safnast fyrir í laxfiskum í vötnum þar sem staðbundið magn kvikasilfurs í umhverfi er hátt.

Umhverfisstofnun tók nýlega þátt í norrænu verkefni þar sem mælt var magn kvikasilfurs í urriða til að kanna áhrif umhverfis á upptöku þess í fiski. Sýni voru tekin af urriða í Elliðavatni, Mývatni, Stóra-Fossvatni og Þingvallavatni.

Magn kvikasilfurs sem mældist í fiski úr þessum vötnum var á bilinu 0,01 – 0,05 mg/kg sem er mjög lágt gildi. Undantekning var þó stórurriði úr Þingvallavatni en í honum mældist kvikasilfur á bilinu 0,2 – 0,9 mg/kg. Um er að ræða 60–90 cm langan fisk og um 4 til 7 kg að þyngd.

Hér á landi gilda reglur um hámarksmagn aðskotaefna í matvælum. Hafi matvæli hærri styrk en þar segir má ekki dreifa eða selja viðkomandi vöru. Samkvæmt reglugerðum nr. 661/2003 og 662/2003, sem fjalla um aðskotaefni í matvælum, er um tvö hámarksgildi fyrir kvikasilfur að ræða, annars vegar lægra hámarksgildi fyrir fisk sem oft er neytt, og hins vegar hærra hámarksgildi fyrir fisktegundir sem sjaldnar er neytt, eins og hákarl og stórlúðu (stórflyðru). Hámarksgildi fyrir laxfiska (sem flokkast undir fisk sem oft er neytt) er 0,5 mg/kg.

Skaðsemi kvikasilfurs er fyrst og fremst fólgin í áhrifum á miðtaugkerfi og þroska barna. Áhrifin eru alvarlegust ef fóstur í móðurkviði eða ungbörn verða fyrir eitrun. Faraldursfræðilegar rannsóknir hafa einnig bent til þess að samband kunni að vera milli hás magns kvikasilfurs í fæði og hjarta- og æðasjúkdóma í fullorðnum. Slíkt samband hefur þó ekki verið staðfest. Kvikasilfur er einnig talið geta haft áhrif á ónæmiskerfi líkamans.

Matvælaöryggisstofnun Sameinuðu þjóðanna, JECFA, hefur gert áhættumat vegna kvikasilfursmengunar í matvælum. Matið er byggt á faraldursfræðilegum rannsóknum sem unnar hafa verið á svæðum þar sem fiskneysla er mikil og magn kvikasilfurs í fæðu hátt. Niðurstöður þessa mats gera ráð fyrir að hámarksmagn kvikasilfurs í fæðu megi vera 1,6μg miðað við hvert kg líkamsþunga á viku fyrir viðkvæmasta hópinn, sem eru fóstur í móðurkviði og smábörn. Því þarf sérstaklega að gæta að fæði fyrir barnshafandi konur og konur með börn á brjósti. Til þessa hóps teljast einnig konur á barneignaraldri sem hyggjast verða barnshafandi. Fyrir aðra hópa er talið óhætt að neyta sem svarar tvisvar sinnum þetta hámarksgildi, eða 3,2 μg/kg pr. líkamsþunga/viku. Þegar tekið er tillit til þessara tilmæla er ráðlagður vikuskammtur af fiski með kvikasilfri 0,9 mg/kg um 250 g fyrir 70 kg einstakling. Það samsvarar um einni til tveimur máltíðum af fiski. Fyrir barnshafandi konur og konur með börn á brjósti væri því mælt með að borða ekki stórurriða oftar en 2-3 ári , þ.e. fisk sem er yfir 60 cm að lengd eða 4 kg að þyngd.

Birt:
20. nóvember 2007
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Kvikasilfur í fiski“, Náttúran.is: 20. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/20/kvikasilfur-i-fiski/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: