Sem betur fer er umræða um erfðabreytta ræktun lífvera farin af stað í fjölmiðlum í kjölfar þingsályktunartillögu um að banna útiræktun erfðabreyttra lífvera og síðan birtingu athugasemdabréfs nokkurra sérfræðinga á vef Háskóla Íslands. Þriðjudaginn 15. febrúar var einn sérfræðinganna Eiríkur Steingrímsson gestur Kastljóssins. Margt kom þar fram og hefur verið kallað eftir meiri upplýsingum í kjölfarið.

Fljótlega í málflutningi Eiríks kom í ljós að bréf sérfræðinganna var skrifað til að vernda hagsmuni Orf líftækni sem hefur fengið leyfi til tilraunaræktunnar á erfðabreyttu lyfjabyggi. Nýju lögin myndu hindra að Orf fengi að rækta lyfjabygg utanhúss til framleiðslu eins og fyrirtækið stefnir að. Í byrjun viðtalsins vísar spyrill í bréf sérfræðinganna sem segir „engin ástæða er til að banna útiræktun erfðabreyttra lífvera þegar engin hætta er talin stafa af slíkri ræktun". Síðan rekur Eiríkur að samkvæmt lögum þurfi að fá leyfi nefndar og í tilviki útiræktunnar þurfi mat umhverfisstofnunnar og náttúruverndaraðila.

Tveir aðilar gáfu umsögn um tilrauna útiræktun Orf á erfðabreyttu lyfjabyggi í Gunnarsholti sem nú stendur yfir, annars vegar Náttúrufræðistofnun Íslands og hins vegar Ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur. Umhverfisstofnun gaf svo út leyfið sjálft sem gildir frá 2009-2013. Hvað Eiríkur á við með að náttúruverndaaðilar komi að matinu er ekki gott að segja en það einkenndi ferlið að ekki var leitað álits náttúruverndarsamtaka.

Eiríkur fullyrðir að allir vísindamenn sem að umsögn Orfs komu hafi metið að það væri engin eða lítil hætta af því að rækta erfðabreyttu lyfjabyggið úti. Það sem Eiríkur sleppti að segja er að tveir af níu nefndarmönnum lögbundinnar ráðgjafanefndar lögðust gegn leyfinu. Að lokum sleppti Eiríkur alveg að minnast á fjölda erinda sem bárust Umhverfisstofnun þ.á.m. opið bréf Kristínar Völu Ragnarsdóttur forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands frá 26. maí 2009 til Umhverfisráðherra og Umhverfisstofnunnar en í lok bréfsins segir: „Ég tel mig sem náttúrufræðing bara ábyrgð á þeirri náttúru sem við skilum til komandi kynslóða og mæli því gegn ræktun genbreytts byggs úti í náttúrunni á Gunnarsholti á meðan umhverfisáhættumat hefur ekki verið unnið á viðunandi máta".

Síðar í viðtalinu segir Eiríkur að það sé leyfð útiræktun erfðabreyttra lífvera í fjölda Evrópulanda. Þessa röksendafærslu hafa Orf menn notað um árabil sem fellst í því að blanda saman upplýsingum um annars vegar tilraunaræktun versus framleiðsu og hins vegar erfðabreytt matvæli versus erfðabreyttar lyfjaplöntur. ALDREI hefur verið veitt framleiðsluleyfi til að rækta erfðabreyttar lyfjaplöntur í Evrópu. Ekki minnist Eiríkur á að ræktun á erfðbreyttum lífverum er alfarið bönnuð í fjölda Evrópulanda (Írlandi, Lúxembúrg, Ungverjalandi, Grikklandi og Noregi) og á stórum svæðum í örðum löndum (Frakklandi, Ítalíu og Þýskalandi).

Örfá leyfi hafa verið veitt til tilraunaræktunnar á erfðabreyttum lyfjaplöntum í Evrópu og þegar Orf hóf sína ræktun 2009 var það 3 íslenska leyfið af 10 leyfum alls í Evrópu. Ræktunarleyfið á Íslandi var 2003-2009 fyrir allt að 20 hekturum en 10 hekturum 2009-2013. Öll önnnur leyfi í Evrópu eru á svæði sem er minna en einn hektari. Orf hefur fengið leyfi til ræktunnar á 20 sinnunm stærri svæði en nokkrum sinnum hefur verið leyft í Evrópu fyrir erfðabreyttar lyfjaplöntur. Virðist Eiríkur blanda saman tilraunaræktun Orf á erfðabreyttum lyfjaplöntum við ræktun á erfðabreyttum matvælum í Evrópu vísvitandi.

Eiríkur segir það rangt að erfðaefnið úr erfðabreyttum lífverum geti borist í menn, dýr eða umhverfið „þótt að það sé ræktað bygg hér á einhverjum stað þá verður umhverfið ekki fyrir skaða" rétt skömmu síðar er hann kominn á allt aðra skoðun og segir að byggið að einhverju litlu leyti víxlfrjóvgast þannig að erfðabreytta byggið gæti fjrjóvgað (blandast) öðrum tegundum og fuglar borið það á milli svo segir Eiríkur „hvort erfðabreyttar lífverur valdi ofnæmi... það er ekkert sem bendir til þess".

Eins og kemur fram hjá Eiríki þá er umræðan oft frekar lituð af pólitík heldur en vísindum og þar eru vísindamenn væntanlega í engu undanskyldir. Flestar rannsóknir sem hafa farið fram á öryggi erfðabreyttra lífvera eru framkvæmdar af eigendum lífveranna en eftir erfðabreytingu þá eru lífverurnar einkaleyfisvæddar sem gerir það að verkum að óháðir rannsakendur þurfa leyfi eigendanna til að afla efniviðar til rannsóknar og líka til að rannsaka lífverurnar. Það leyfi er sjaldan veitt.

Hér á eftir verður fjallað um nokkur þau atriði sem eru í hróplegu ósamræmi við fullyrðingu Eiríks um hættuleysi erfðabreyttra lífvera og að engar vísindalegar rannsóknir sýni fram á annað. Flest tengjast þessi dæmi erfðabreyttum matvælum. • • • Haldið er fram að gen erfðabreyttra lífvera geti ekki borist út í umhverfið. Rangt. Fundist hafa erfðabreytt gen í botnfalli, jarðvegi og vatni áar í allt að 82km fjarlægð frá ræktunarstað.

  • Fyriræki sem framleiða erfðabreyttar lífverur halda því fram að genin geti ekki flust yfir í menn og dýr en eyðist í meltingaveginum. Rannsóknr sýna að fullyrðingin er röng og að gen úr erfðabreyttum lífverum finnist í meltingarlíffærum og tilraunir sýna að erfðabreyttu genin skaði dýr á margvíslegan hátt.

Erfitt er að alhæfa um skaðsemi á dýrum þar sem um margar tegundir af erfðabreyttum lífverum er að ræða sem eru notaðar í tilraunum. En þar sem Eiríkur alhæfir um skaðleysið með því að vitna almennt í rannsóknir og segir engar sýna fram á skaðsemi þá er rétt að telja upp nokkurn þann skaða sem hefur komið fram í rannsóknum. Rottur sem fóðraðar voru á erfðabreyttum tómötum fengu magasár. Afkomendur rottna sem fóðraðar voru á erfðabreyttu soja voru með 4 sinnum hærri dáartíðni. Erfðabreyttar baunir framkölluðu ofnæmisviðbrögð hjá músum. Önnur skaðleg einkenni komu fram í tilraunadýrum í lifur, hjarta, nýrum, í ónæmiskerfi, dánartíðni jókst eftir 2-3 kynslóðir og stóraukin ófrjósemi kom fram. Dýrin voru fóðruð á erfðabreyttu maís, kartöflum og soja

Á Indlandi hefur erfðabreytt bómull (BT cotton) náð mikilli útbreiðslu. Afleiðingarnar hafa verið skelfilegar. Ofnæmi og kláði hefur komið fram á hundruðum bænda og verkamanna sem við akrana vinna. Geitur, kindur og buffalar sem beitt var á akrana eins og tíðkast hefur eftir uppskeru stráféllu og við krufingu komu í ljós göt á meltingafærum. Síðan kom upp faraldur sjálfsmorða hjá bændum vegna uppskerubrests en þeim er lánað fræin til ræktunnar fyrirfram. Allar þessar afleiðingar voru óþekktar áður en erfðabreytt bómull kom til.

Í Filippseyjum kom upp eins konar faraldur í þorpi eftir að ræktun á erfðabreyttum maís hófst. Talið er að frjókorn plöntunnar hafi valdið ástandinu sem hjá þorpsbúum koma fram í asma, hnerra, hósta, blóðnösum, bólgum, háum hita, magakvillum, doða, niðurgangi og uppköstum. Eftir að hafa étið maísin eru skrá dauðsföll 9 hesta, 4 buffala, 37 hæna og 5 mannslát eru enn óútskýrð.

Hér er alls ekki um tæmandi upptalningu á neikvæðum afleiðingum erfðabreyttrar ræktunnar að ræða heldur eru þetta eingöngu nokkur dæmi til að sýna að fullyrðing sú sem sérfræðingarnir heldu fram um almennt skaðleysi erfðabreyttra lífvera er RÖNG. Fullyrðingin er sett fram af sérfræðingunum til að mótmæla frumvarpi um banni gegn erfðabreyttum lífverum utanhúss. Það bann myndi stöðva áform Orf líftækni um stórfellda ræktun á erfðabreyttu lyfjabyggi utanhúss um allt land.

Að sleppa genabreyttri nytjaplöntu sem er búið að breyta í lyfjafabrikku út í náttúruna er ofbeldi gagnvart móður náttúru. Að taka byggplöntu sem hefur fætt menn og dýr í aldaraðir og breyta henni í lyfjaefnaverksmiðju og þar með taka áhættu um að eyðileggja þennan fæðugjafa um ókomna tíð er grafalvarlegt og allt er það gert í nafni vísindanna til að búa til hrukkukrem fyrir aldraða bandaríkjamenn. Vei þeim sem það gera og þeim sem það réttlæta.

 

Hákon Már Oddsson

Áhugamaður um að Ísland sé yfirlýst án erfðabreyttra lífvera (GMO free)

 

Viðital Eiríks í Kastljósinu:

Bréf sérfræðinganna má finna hér

 

Gagnlegar upplýsingar um erfðabreyttar lífverur:

http://www.erfdabreytt.net/

http://www.ucsusa.org/food_and_agriculture/

 

Birt:
19. febrúar 2011
Höfundur:
Hákon Már Oddsson
Tilvitnun:
Hákon Már Oddsson „Um útiræktun erfðabreytts byggs“, Náttúran.is: 19. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/02/19/um-utiraektun-erfdabreytts-byggs/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. febrúar 2011

Skilaboð: