Náttúruverndarsamtökum Íslands sendu í dag frá sér eftirfarandi:

Ýmsir klóra sér í hausnum yfir þjóðarsáttartillögu iðnaðarráðherra, Jóns Sigurðssonar. Jónas Kristjánsson ritstjóri lýsir undrun sinni og bendir á að fyrst vilji iðnaðarráðherra stækka álverið í Hafnarfirði og byggja nýtt á Húsavík með tilheyrandi orkuverum. Síðan hefjist friðarferlið ráðherrans. „Það er,” segir Jónas „eins og að semja um frið í stríði með þeim skilmála, að friðurinn byrji eftir fjögur ár. Hugarfar Jóns er rangt. Verra er, að það skilzt ekki og selzt ekki.“ Fyrir kosningar eru stjórnmálamenn gjarnir á að segja kjósendum að þeir geti bæði átt kökuna og étið hana. Dofri Hermannsson bendir á að þannig hafa samgönguáætlanir verið kynntar rétt fyrir kosningar. Að þeim loknum hrökkvi slíkar áætlanir jafnan saman. Við minnumst Rammaáætlunar Finns Ingólfssonar, f.v. iðnaðarráðherra, sem kynnt var skömmu fyrir kosningar 1999 og átti að sögn ráðherrans að skapa þjóðarsátt. Nú liggur Rammaáætlunin í skúffu iðnaðarráðherra. Hún hefur ekki verið formlega afgreidd af Alþingi.

Nú er það þjóðarsátt Jóns Sigurðssonar um náttúruvernd og nýtingu auðlinda en þó ekki fyrr en árið 2010. Fyrst skal nefnilega virkja 13 TWst til viðbótar þeim 16 sem framleiddar verða árlega eftir að Kárahnjúkavirkjun hefur framleiðslu. Eða sem nemujr nær 45% framleiðsluaukningu, tæplega tveimur Kárahnjúkavirkjunum. Ennfremur, frumvarp iðnaðarráðherra gerir ráð fyrir að Alþingi geti bætt lott orkuiðnaðarins enn frekar með sérstakri samþykkt, ef hann telur þörf á. fyrir 2010.

Allar þessar virkjanaframkvæmdir eru hugsanlegar eða bara ófulldregin mynd, sagði iðnaðarráðherra í Spegli RÚV 15. febrúar s.l. og mest enn á rannsóknarstigi og vildi gera sem minnst úr virkjanaáformum nú rétt fyrir kosningar. Hann ítrekaði að hvorki hann né arftaki hans í embætti sem um þessi mál véla reki stóriðjustefnu. Frekar mætti tala um, sagði ráðherra, stefnu til takmörkunar og stöðvunar á framkvæmdum. Ráðherra nefndi þó engin dæmi um slík takmarkandi eða stöðvandi aðgerðir af sinni hálfu í viðtali við fréttamann Spegilsins.

Spurningu fréttamanns um hver yrðu samningsmarkmið Íslands í fyristandandi viðræðum um framhald Kyoto-bókunarinnar eftir 2012, hvort Ísland muni sækjast eftir sams konar undaný águm og sérákvæðum eins og eru í gildi fyrir stóriðju, sagði Jón Sigurðsson: „Ein spurning er sú hvort við þurfum að sækjast eftir því eða hvort aðrir muni sækjast eftir því að við fáum þær til að þess að þeir geti komið sínum vilja fram. Það er það sem ég var að meina hér áðan, að við þurfum að vera á verði og við þurfum að hugsa um okkar hagsmuni. Ég er ekki reiðubúinn að svara út í hörgul einstökum spurningum um þetta efni því þessi ákvörðun er ekki orðin til …

Iðnaðarráðherra virðist telja að hér sé um algert smáatriði að ræða og ekki hafa kynnt sér stefnumarkandi yfirlýsingu f.v. forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, sem sagði í umræðum á Alþingi 6. febrúar 2006: ,,Það liggur fyrir að við höfum heimild til að byggja stóriðju sem samsvarar 1.600 þús. tonnum af CO2. Það ákvæði gildir til 2012. Hvað tekur við eftir 2012 vitum við ekki. Ég hef svarað því mjög skýrt að við hljótum að gera þá kröfu áfram að geta nýtt okkar endurnýjanlegu auðlindir og tekið þátt í því að minnka mengun í heiminum með því að framleiða rafmagn með vistvænum hætti á Íslandi. Það vil ég að sé alveg skýrt.

Spurningin er frekar þessi: Hefur iðnaðarráðherra tekið ákvörðun um að breyta stefnumörkun Halldórs Ásgrímssonar í loftslagsmálum?

 

Birt:
19. febrúar 2007
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Hvað felst í þjóðarsátt iðnaðarráðherra?“, Náttúran.is: 19. febrúar 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/tjodarsatt_idnadarradherra/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 29. apríl 2007

Skilaboð: