Atvinnuhópur Framtíðarlandins efndi til fundar í Norræna húsinu í morgun og kynnti þar skýrslu sem að hópurinn tók saman fyrr á þessu ári

Í skýrslunni er reynt að leita svara við þeirri spurningu hvort að bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði hafi verið rétt og skynsamleg miðað við arðsemi, umhverfiskostnað, lýðræði, byggðasjónarmið og hagstjórn.
Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur og einn skýrsluhöfunda kynnti skýrsluna og niðurstöðuna, að framkvæmdirnar hefðu ekki staðist arðsemispróf.

Hafliði Helgason, blaðamaður stjórnaði svo pallborðsumræðum en þar sátu fyrir svörum Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasvið Landsvirkjunar, Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, áður nefndur Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur og Yngvi Örn Kristinsson, framkvæmdarstjóri verðbréfasviðs Landsbankans.
Stefán Pétursson neitaði harðlega að viðurkenna að framkvæmdirnar hefðu ekki verið arðsamar og sagði að annars hefði ekki verið farið út í þær. „Virkjunin stendur ljómandi vel undir sér“ sagði Stefán og bætti við að ekkert hefði verið slegið af arðsemiskröfum í tengslum við virkjunina. 

Sigurður Jóhannesson var þeirrar skoðunnar að einkavæða ætti Landsvirkjun því þá myndi arðsemi framkvæmda alltaf vera höfð að leiðarljósi og benti á að einkafyrirtæki hefði aldrei farið út í slíkar framkvæmdir. Landsvirkjun stækki þá heldur ekki á kostnað skattgreiðenda.

Umhverfisráðherra sagði fyrst og fremst byggingu Kárahnjúkavirkjunar hafi verið pólitísk byggðarstefna, gömul loforð um atvinnubyggingu svo stór að þau átti að efna sama hvað það myndi kosta. Hún sagðist einnig vera þeirrar skoðunnar að við gætum ekki látið eins og land sé einskis virði. Við gætum deilt um hversu mikils virði það er, t.d. með tilliti til eftirspurnar eða huglægs gildis í hugum fólks, eins og gert er í skilyrtu verðmætamati. Það væri einfaldlega markaðsbrestur að taka ekki umhverfiskostnað, eins og þann sem lþtur að verðmæti lands, inn í það reikningsdæmi sem arðsemisreikningsdæmið er.

Sjá skýrsluna í heild sinni hér

 

Ljósmynd:Vala Smáradóttir

Birt:
13. júní 2007
Höfundur:
Vala Smáradóttir
Tilvitnun:
Vala Smáradóttir „Var bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði rétt og skynsamleg?“, Náttúran.is: 13. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/13/var-bygging-krahnjkavirkjunar-og-lvers-reyarfiri-r/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. júlí 2007

Skilaboð: