10. kafli - Þjónustuhlutverk garðsins
Ég segi ekki að “villigarðurinn” þinn jafnist á við ómengaða náttúruna. Ég held því blákalt fram að með örlítilli vinnu í byrjun og réttu skipulagi verði hann betri en villt náttúran. Þér er nefnilega í lófa lagið að skapa náttúruleg skilyrði fyrir dýra- og plöntulíf sem jafnvel í nepjunni hér norður undir heimskautsbaug eru betri en þau sem eru á heiðum og fjöllum. Þú getur svo auðveldlega aukið plöntuvalið og haft blómstrandi jurtir frá því snemma vors og nokkuð fram eftir hausti. Haustlaukar ýmsir geta verið bjargvættir býflugna sem vakna óvart snemma úr vetrardvalanum. Þú getur skipulagt garðinn þinn þannig að þú sért alltaf með eitthvað blómstrandi eða frægefandi, því það sem þú í raun og veru ert að gera er að gefa lífverum, stórum og smáum, að éta. Með öðrum orðum ertu kannski ekki að rækta garð heldur búa til matarbúr fyrir fánuna. Íslenskar jurtir eru aðvitað mest áríðandi því fánan hefur aðlagast þeim um þúsundir ára. Þá er ég að tala um fiðrildi og fugla aðallega, en einnig býflugur. Þessi dýr nærast mest á blómsafa, frjódufti og fræjum. Lirfurnar éta þó lauf margar hverjar og stöku sinnum verður að grípa til ráðstafana vegna óvenjulegra skilyrða sem skapast í náttúrunni. Þá koma lífrænar varnir til sögunnar. Þær felast í því að nota til dæmis fugla til þess að fækka lirfunum. Ef þér hefur heppnast að laða til þín fugla þá eru þeir einhver besta vörn sem þú getur fengið því það er ekki lítið af lirfum sem til dæmis þrastarhjón með unga þurfa til þess aðkoma ungunum á væng! Einnig geturðu fengið ránmaura og/eða pínu oggulitlar vespur til þess að leggjast á lirfustofninn. Það er þó vafasamt að þessar tegundir lifi hér úti en í gróðurskálum er sjálfsagt að nota þær. Á móti kemur að lirfurnar verða að fiðrildum sem eru ekki lítið augnayndi. Eitt sem þú getur reitt þig á er að ef garðurinn þinn er í jafnvægi þá verður þetta ekki vandamál því jafnvægi er jafnvægi og ekkert meira um það að segja.
En aftur að matnum. Þú skalt reyna að búa til matarbúr og hafa það eins nálægt húsinu og þú getur. Helst þannig að þú getir virt það fyrir þér út um gluggann. Það er oft hráslagalegt snemma vors og síðla sumars og þá er gott að geta setið við gluggann og fylgst með því sem er að gerast úti.
Best er að gera einskonar “búr” úr blöndu af blómstrandi runnum, fjölærum blómplöntum og sumarblómum. Þú stefnir að því að hvert taki við af öðru. Haustlaukarnir fyrst og svo hvert við af öðru. Haustlaukarnir fyrst og svo hvert af öðrum fram á haust. Þú lætur sumar jurtirnar (þær sem ekki vaða yfir allt) mynda fræ og skilur ber og aldin eftir á runnum fyrir fuglana. Það eru ýmsar tegundir plantna sem eru kjörnar í þetta hlutverk. Mín uppáhaldsplanta er hvönn (Angelica arcahangelica) því hún er auðveld í ræktun. Laufið er fallega grænt, fiðrildi og flugur sækja í blómin og fuglar slá ekki væng á móti fræjunum. Geithvönn (A. Sylvestris) er jafnvel enn fallegri,fíngerðari og með flatari og hvítari blómsveip. Báðum þessum tegundum er auðvelt að koma til í garðinum. Það eina sem þú þarft að gera er að tín af þeim fræ eftir fyrstu haustfrost og hendu þeim í beðið þar sem þú vilt hafa þær. Hafðu þó í huga að hvönnin er fljót að verða frek til fjörsins og breiðist út ef þú gerir engar ráðstafanir til þess að halda henni þar sem þú vilt hafa hana. Eitt er það ráð sem benda má á til að halda hvönninni í skefjum en það er að klæða jarðveginn undir og kringum hana með jarðvegsdúk.
Ýmsar blómstrandi runanr eur líka kjörnir. Töfratré (Daphne mezereum) blómgast snemma á vorin fínlegum og fallegum fjólubláum blómum áður en það laufgast. Það má skjóta því hér að, að nú nýlega sá ég á prenti grein um eplatré, Malus. Það virðist eitthvað verulega skemmtilegt að vera a gerast í kynbótum eplatrjáa svo ef til vill er möguleiki á að finna tegund eða afbrigði sem gæti lifað hér á skjólgóðum stöðum. Eplatré eru þeirrar náttúru að blómstra snemma.
Hugsanlega væri hægt að fá upplýsingar um þetta hjá Garðyrkjufélagi Íslands, gróðrarstöðvum eða innflytjendum blóma. Reydnar hef ég heyrt af eplatrjám í görðum hér sem hafa blómstrað og jafnvel borið ávöxt í bestu árum. Það á einnig við um fuglakirsiber (Prunus avium) sem er náskylt hegnum (Prunus padus) en hann er fyllilega harðgerður hér og blómstrar árvisst.
Margar víðitegundir (Salix) eru snemmblómstrandi og oft má sjá um miðjan maí karlrekla víðis umkringda býflugum og öðrum flugum sem sækja í reklana. Heggurinn er miðlungstré sem er náskylt kirsiberinu og blómstrar hvítum ilmandi blómklösum, ekki óáþekkum blómklösum ilmreynis (Sorbus acuparia) sem einnig er vinsæll hjá hinum vængjuðu vinum vorum. Rifstegundir (Ribes) eru góður fæðugjafi fyrir ýmis skordýr og þegar berin eru þroskuð má gera ráð fyrir kapphlaupi milli þín og fuglanna um þau. Ef þú ert ekki þeim mun fljótari vinna fuglarnir.
Smá saga til skemmtunar. Þegar ég flutti í Mosgerðið var stórt og úr sér vaxinn rifsberjarunni í suðvesturhorni garðsins. Um vorið var hann þakinn blómum og býflugurnar voru iðnar við að heimsækja hann. Við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að fá þessa rosalegu uppskeru af rifsi í sultu og hlaup um haustið. Við sáum fram á það að geta næstum borðað rifsberjahlaup í öll mál fram eftir vetri. Svo leið sumarið og berin byrjuðu að þroskast. Með hverjum deginum sem leið urðu þau rauðari og bústnari. Það leið að uppskeru og við vorum búin að áætla að við fengjum svona tíu til fimmtán lítra af berjum. Einn morguninn þegar kom út var runninn gjörsamlega berjalaus. Hvað hafði eiginlega gerst? Hafði einhver laumast inn í garðinn í skjóli nætur og hirt berin? Skþringin var eðlilegri. Það var búið að hreinsa berin af öllum runnum í götunni. Blaðbeinn, sem alltaf er á ferðinni eldsnemma á morgnana, hafði orðið vitni að aðförunum. Fuglahópur hafði gengið skipulega til verks og farið garð úr garði og haldið berjaveislu! Sagan minnti mig á þjófagengi sem fer um rænandi og ruplandi í erlendum stórborgum. Ef þú tímir ekki að borga fuglunum söngvalaunin gæti verið ráð fyrir þig að setja net yfir berjarunnana þegar líður að uppskerutíma. Annars máttu búast við “Fuglagenginu” í heimsókn og strípuðum runnum.
Kvistir (Spirea) eru blómstrandi runnar af ýmsum stærðum sem skordýr sækja mikið í. Runnamura (Potentilla fruticosa) blómstrar fremur seint en er vinsæl. Þegar ég tala um vinsældir er ég að meina hjá skordýrum. Annars vísa ég í bókina Tré og runnar á Íslandi að öðru leyti varðandi runna. Það eru þó engar trjákenndar plöntur íslenskar sem eru eins vinsælar hjá íslenskum skordýrum og víðirinn og birkið. Af hverju skyldi það nú vera? Jú, vegna þess að þessi tré og fánan hafa verið í sambýli í þúsundir ára og hafa aðlagast hvort öðru. Þess vegna er það að þessar jurtir eru sárasjaldan verulega skaðaðar af skordýrum. Það er lélegt sníkjudýr sem drepur hþsil sinn. Vissulega nærast lirfurnar á hþslinum, sem hefur í tímans rás komið sér upp vissum vörnum, en sjaldnasst er átið til stórra skaða ef plantan vex við þokkaleg skilyrði. Maður þarf ekki annað en að fara út í skóg til þess að sjá jafnvægið. Hverjum hefur til dæmis dottið í hug að úða Vaglaskóg eð Heiðmörkina með skor-dýraeitri? Engum!
Lífkeðjan í jarðveginum er lagskipt. Neðstar eru veirur og á þeim lifa gerlar og þðrungar. Þegar þeir svo deyja og leysast upp verða þeir plöntufæða. Á þeim lifa líka sveppir og ýmsar örpöddur og einfrumungar. Á þeim lifa svo aftur ýmis smádýr sem eru varla sýnileg berum augum og á þeim lifa minni skordýr. Svo koma stærri skordýrin sem breyta þeim minni í meltingarvegi sínum í næringarefni fyrir plönturnar, bakteríur og gerl fyrir utan það að vera sjálf mikilvæg fæða fyrir stærri dýr, eins og fugla. Margir fuglar leggja sér eitt og annað til munns en ungana sínba ala þeir alltaf á skordýrum.
Skordýr eru líka einn aðalþátturinn í flutningi plöntuhvítu og sykra til annara dýra. Þegar þessi lagskipting er skoðuð fær maður það sterkt á tilfinninguna að hlutverk skordýra sé það eit að vera fæða næsta lags fyrir ofan. En það er náttúrulega ekki allskostar rétt. Skordýr hafa fleiri hlutverk. Þau frjóvga plöntur, breyta þéttleika jarðvegs og búta niður lífræn efni svo að smærri lífverur ráða auðveldlegar við þau.
Nú kann einhver að segja: “Hvaða skordýrakjaftæði er þetta, á þetta ekki að vera bók um garðrækt?” Það er nú einmitt mergur málsins. Maður er ekki einn í garðræktinni. Milljónir lífvera eru hjálparkokkar sem aðstoða við vinnuna svo að kúnstin er að koma sem mestu af vinnunni yfir á þá svo þú þurfir sem minnst að gera sjálfur. Til þess að geta það verðurðu að vita og skilja hlutverk lífveranna. Það er nú einu sinni þannig að vitneskja okkar, hversu mikil sem hún kann að virðast, er lítilfjörleg í samanburði við samansafnaða vitneskkju þeirra milljarða lífvera sem byggja lífhvolf jarðar. Þar sem hver planta, hvert dýr og hver örvera hefur örlítið brot af vitneskjunni sem þarf til að jörðin virki þá hefur “tap” hverrar tegundar það í för með sér að lífræn vitneskja glatast og landið verður “heimskara” á eftir.
Þar sem þetta er allt tengt má líkja svona tapi við það að tenging í tölvu fari úr sambandi. Ef nógu margar tegundir tapast verður landið svo “vangefið” að það getur ekki séð um sig sjálft, deyr, og við með því.
Með öðrum orðum, við erum ekki einsömul. Við erum jafntengd lífinu í kringum okkur og örverurnar. Þess vegna getum við ekki bara valið þær lífverur sem við viljum hafa í kringum okkur. Þar af leiðir að við getum ekki þröngvað okkar gildum upp á náttúruna. Við getum ekki einu sinni notað okkar egigin tíma því hann er mjög frábrugðinn plöntutíma og jafnvel rauntíma.
Þegar þú nú ferð að huga að því að raða niður plöntum er eitt ráð sem ég get gefið þér. Fáðu þér göngutúra um næsta nágrenni og athugaðu hvaða plöntur nágrannanna eru vinsælastar hjá fuglum og flugum. Að koma auga á þessar plöntur er fljótlegt. Og þú kemst í leiðinni að því að ofkrýndar og mikið kryddbættar plöntur eiga yfirleitt ekki upp á pallborðið hjá vængjuðu vinunum okkar. Það er vegna þess að þær eru svo ofræktaðar að þær framleiða ekki lengur frjóduft, safa eða fræ og gætu þess vegna eins verið úr plasti eða silki, greyin, hvað notagildi fyrir dýrin varðar.
Rauðlilla eða fjólublár litur virðist vera hvað vinsælastur hjá skordýrum en gulur og blár og auðvitað rauður fylgja þeim fast á eftir. Reyndar hafa rannsóknir leitt það í ljós að þar sem skordýr virðast sjá bæði útfjólublátt og innrautt ljós er ekki alveg að marka þá liti sem við sjáum á blómunum. Blómin breyta sem sé um lit ef þau eru skoðuð í áðurnefndu ljósi og það sem meira er þá birtast vegvísar fyrir skordýrin sem segja þeim hvort þau eiga að fara til að komast að góðgætinu sem plönturnar hafa upp á að bjóða og frjóvga í leiðinni.
Reyndu að velja plöntur sem mynda mörg og góð fræ og hafðu í huga að þú vinnur þér inn mörg prik hjá dýravininum mikla á himnum ef þú býður upp á safa/hunang/frjóduft frá því snemma vors og langt fram á haust. Krókusar, vetrargosi, vorboði og perluhþasinta geta bjargað býflugum sem vakna óvart of snemma af vetrardvala vegna þess að þeim hlýnaði um of á degi sem var heitur fyrir þennan árstíma í mars eða byrjun apríl. Ef þú kemur þér upp matjurtagarði í einu horni garðsins, og jafnvel þótt þú gerir það ekki, eru ýmsar matjurtir mjög vinsælar hjá býflugum. Því er vel athugandi fyrir þig að skjóta þeim inn á milli annarra plantna í blómabeðum.
Graslauk skal fyrstan nefna en á góðum dögum má sjá býflugur veltandi um sterkblá blómin frá morgni til kvölds í ætisleit. Tröllatryggð eða skessujurt (Levisticum officinale) er fremur hávaxin jurt, ekki ósvipuð hvönn sem vinsæl er hjá þeim röndóttu og góð til að krydda með kjúkling, læri og kjötsúpu en plantan er líka gömul lækningajurt. Hún er ekki plásfrek þótt hávaxin sé og það sama gildir um fennel (Foeniculum vulgare) en hún er viðkvæmari og henni þarf því að velja skjólgóðan stað. Hún er góð með fiski auk þess að vera frábær bþplanta. Rósmarín (Rosmarinus officinalis) og lavender (lavendula angustifolia) eru líka góðar fyrir býflugur sem og blóðberg (Thymus arcticus). Fennel, rósmarín og lavender eru fremur viðkvæmar og þurfa vetrarskþli. En ein besta bþplanta er samt hjólkróna (Borago officinalis) sem er auðræktuð af fræi sem sáð er beint í garðinn eða sáð fyrir inni og svo flutt út eftir að frosthætta er liðin hjá. Þetta er falleg planta með sterkbláum blómklösum og býflugurnar mynda biðraðir til að komast í blómsafann. Það þarf að sá fyrir henni árlega.
Mynta er vinsæl hjá fiðrildum ef hún fær að blómstra og gæti varla verið auðveldari í ræktun. Spurðu bara krakkana í skólagörðunum.
Fiðrildarunni (Buddleia) þrífst varla hér nema sem fjölær planta á sólríkasta stað við vegg og hann verður að klippa niður árlega. Hægt er að rækta hann í stórum potti eða keri sem kippt er inn í kaldan skála fyrir veturinn og svo getur maður dundað sér við að telja hversu mörg fiðrildi og býflugur ná að hanga á hverjum blómsprota.
Berjarunna var ég búinn að minnast á en þeir eru ekki bara góðir vegna berjanna heldur sækja skordýr mikið í frjóduftið og safann. Úlfaber (Viburnum opulus) og lambaber (V. Lantana) eru fremur viðkvæmir og þeim þarf því að velja góðan stað en þeir eru snemmblómstrandi og góðir fyrir bæði flugur og fiðrildi.
Sópar (Cytisus) verða ekki mjög gamlir svo þá þarf að endurnýja með reglulegu millibili. Þeir blómstra alveg rosalega þegar þeir þroskast ef vel er gert við þá og þeim valinn góður og sólríkur staður. Runnarósir skyldi velja einfaldar eða fákrýndar og forðast ofkrýndar og mikið kynbættar rósir enda eru þær flestar ilmlausir, ef verið er að hugsa um fánuna.
Roðaber (Berberis) sem sumir segja að þrífist illa hér á landi hefur þrifist ágætlega hjá mér og blómstrað ríkulega. Hann væri reynandi í keri eða stórum pottum inni yfir vetramánuðina þar sem hann gengur illa. Þessir runnar blómstra fagurlega og eru vinsælir af skordýrum.
Misplar (Cotonaester) blómgast margir snemma og mynda aldin sem fuglar sækja í. Þeir þrífast margir frábærlegam jafnvel mót norðri. Þær plöntur sem bestar eru sem “villiplöntur”, þ.e. plöntur sem koma villtri fánunni að sem mestum notum, eru samt sem áður einæra sumarblómin. Mörgum þeirra er hægt að sjá fyrir að vori og svo má sjá þau vaxa, blómstra og mynda fræ sama sumarið. Auk þess virka mörg þeirra eins og fjölæringar vegna þess að þau sá sér sjálf og viðhalda sér þannig. Þetta á við um t.d. valmúa, gleym-mér-ei og fleiri blóm. Nál (alyssum) er góð þekjuplanta en henni þarf helst að koma af stað inni. Hún er kjörin í steiðnhæðir og hleðslur og þroskar fræ hér árlega. Af nálinni eru nokkrar tegundir og er bergnál (A. Saxatile) sennilega harðgerðust. Þá er morgunfrú (Calendula officinalis) ekki dónaleg, hvorki sem matarkista fyrir skordýrin eða augnakonfekt fyrir Homo sapiens.
Eins og ég sagði áður er ekkert sem jafnast á við að fara í smá gönguferð og kíkja í garða nágrannanna en það er annað sem hægt er að gera og það er að fara á ósnortin svæði í nágrenninu ef þau finnast einhver og skoða flóruna. Í Reykjavík er þetta tiltölulega auðvelt enný á. Það er hægt að fara í Elliðaárdalinn, Öskjuhlíðina, Vatnsmýrina, Rjúpnahæð, Grafarholt og fleiri staði.
Þetta þarf að gera oft á hverju sumri vegna þess að plönturnar blómgast á mismunandi tímum. Þa er gott að taka með sér góða greiningarbók eins og Plöntuhandbókina eftir Hörð Kristinsson svo að maður viti hvað verið er að horfa á í það og það skiptið. Svo er hægt að heimsækja grasagarða og/eða ræktunarstöðvar og spyrja starfsfólk ráða. Einnig má hringja í Garðyrkjufélag Íslands og fá góð ráð og ganga í félagið. Það hefur þann kost að þá fær maður að velja sér fræ til sáningar, fær Garðyrkjuritið sem er sneisafullt af fróðleik, getur keypt haustlauka á spottprís sem og vorlauka og kemst á fræðslufundi félagsins þar sem kunnáttumenn segja frá, sýna myndir og svara spurningum.
Friðlýstar plöntutegundir á Íslandi. Ekki má hrófla við þeim á nokkurn hátt þar sem þær vaxa villtar:
Blóðmura (Potentilla erecta)
Burstajafni (Lycopodium clavatum)
Davíðslykill (Primula egalikensis)
Dvergtungljurt (Botricyum simplex)
Eggtvíblaðka (Listera ovata)
Ferlaufungur / Ferlaufasmári (Paris quadrifolia)
Fitjarsef (Juncus gerardi)
Flæðarbúi (Spergularia salina)
Glitrós (Rosa dumalis)
Heiðarstör (Carex heleonastes)
Hlíðaburkni (Cryptogramma crispa)
Hreistursteinsbrjótur (Saxifraga foliolosa)
Hveraaugnfró (Euphrasia calida)
Klettaburkni (Asplenium viride)
Knjápuntur (Sieglingia decumbens)
Línarfi (Stellaria calicantha)
Lyngbúi (Ajuga pyramidalis)
Mosaburkni (Hymeophyllum wilsonii)
Mþramaðra (Galium palustre)
Skeggburkni (Asplenium septentrionale)
Skógfjóla (Viola riviniana)
Súrsmæra (Oxalis acetosella)
Svartburkni (Aspleniumtrichomanes)
Tjarnarblaðka (Persicaria amphibia)
Tjarnarbrúða (Callitriche brutia)
Trjónustör (Carex flava)
Vatnsögn (Crassula aquatica)
Villilaukur (Allium oleraceaum)
Þyrnirós (Rosa pimpinellifolia)
Melasól, bleik og hvít Papaver radicatum ssp. Stefanssonii Skollalambur, jarðhitaafbr. Blechnum spicant var. Fallax
Birt:
Tilvitnun:
Þorsteinn Úlfar Björnsson „10. kafli - Þjónustuhlutverk garðsins“, Náttúran.is: 10. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/10-kafli-jnustuhlutverk-garsins/ [Skoðað:23. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. mars 2014