Bætt úr fallundirlagi á opnum leiksvæðum
Köstulum og sandkössum er markvisst fækkað þegar opin leiksvæði eru endurnýjuð og fallundirlag leiktækja bætt. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur eftirlit með opnum leiksvæðum í borginni og gerðu heilbrigðisfulltrúar úttekt á þeim í vor. 144 leiksvæði voru skoðuð eða rúmlega helmingur þeirra með áherslu á öryggismál.
Niðurstaðan var að athugasemdir Heilbrigðiseftirlits vegna opinna leiksvæða í Miðbænum og Vesturbænum reyndust töluvert fleiri en í Austurbænum og Grafarvogi. Jarðvegur undir leiktækjum var eitt af því sem kannað var sérstaklega og í ljós kom að fallundirlag var of oft ófullnægjandi. Eftirlitið gerir ríkar kröfur um að bætt verði úr þessu.
Þar sem fallundirlag var lélegt var oft um að ræða leiksvæði sem þarfnaðist endurnýjunar: timburpallar undir rólum eru til að mynda ekki lengur æskilegir. Við leiktæki þar sem hætta er á falli úr meira en eins metra hæð þarf fallundirlag að vera löglegt, s.s. fallmöl, perlumöl og gúmmímottur sem lagðar er ofan á gras sem vex síðan í gegnum þær. Motturnar veita þá góða höggvörn. Þessi aðferð er iðulega notuð þegar leiksvæði eru endurnýjuð.
Athugasemdum Heilbrigðiseftirlits var komið til Framkvæmda- og eignasviðs í sumar. „Heilbrigðiseftirlitið kemur öllum alvarlegum athugasemdum strax til þeirra sem sjá um viðhald á opnum leiksvæðum,“ segir Magnea Karlsdóttir heilbrigðisfulltrúi.
Framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar hefur þegar brugðist við mörgum af þeim athugasemdum sem gerðar voru. Viðhald stendur yfir á ýmsum stöðum og unnið er að betri fallundirlagi á nokkrum af þeim opnu leiksvæðum þar sem gerðar voru athugasemdir.
Magnea segir að nú sé ennfremur markvisst unnið að fækkun sandkassa á opnum leiksvæðum, meðal annars vegna þess að kettir borgarinnar nota þá sem skítakassa. Þar sem sandkassar eru ekki fjarlægðir eru þeir minnkaðir verulega. Kastalar tilheyra tæplega öðru hverju leiksvæði en slík leiktæki þurfa nokkuð mikið viðhald. Um það bil helmingur þeirra reyndist vera í lagi, sumir voru ekki í nógu góðu standi og var lagt til að þeir yrðu endurnýjaðir eða fjarlægðir.
Grösugar gúmmímottur sem fallundirlag, vel upplýst svæði, opið aðgengi, enginn kastali eða sandkassi heldur önnur skemmtileg lágstemmd leiktæki teljast nú til fyrirmyndar á opnum leiksvæðum.
Mynd: Fyrirmyndarleiksvæði með gúmmímottum sem gras hefur vaxið í gegnum. Ljósmynd: Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkur.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Bætt úr fallundirlagi á opnum leiksvæðum“, Náttúran.is: 2. október 2009 URL: http://nature.is/d/2009/10/02/aett-ur-fallundirlagi-opnum-leiksvaeoum/ [Skoðað:27. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.