Því er ekki að neita að það að fylgjast með tilfæringunum við pökkun Geirfuglsins okkar í pappakassa af billegustu gerð eftir heitavatnsleka í Náttúrugripasafninu við Hlemm, nú á dögunum, gerði endanlega deginum ljósara að ekki væri allt með felldu. Þegar að náttúrugersemar heillar þjóðar þurfa að búa við slíkt getuleysi yfirvalda til að hlúa að þeim ber það beinlínis vott um blöndu af virðingar- og ábyrgðarleysi. Peningar flæða upp úr öllum vösum ríkisins þegar standa þarf að náttúruspillingu undir formerkjum „orkuöflunar“ eða breiða þarf einhverjar hundruðir milljóna króna yfir feilútreikninga af virkjanaframkvæmdum. Óvirðingin á sér nú stað víðar um land en við Hlemm.
Í viðtali við Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra nú í kvöldfréttum Sjónvarpsins kom fram að henni blöskrar ástandið og mun í framhaldinu vonandi hafa næg áhrif til þess að eitthvað fari að gerast í málinu.

Þó verður að hafa í huga að eftir lestur Fjárlaga 2007, sem voru gerð aðgengileg á netinu í dag, sá greinarhöfundur ekki stafkrók um fjárframlög til að lina vanda Náttúrugripasafnsins. Aftur á móti tók hún eftir að gamla Sláturfélagshúsið, núverandi húsnæði Listaháskóla Íslands í Laugarnesi verður selt á árinu (gefið leyfi fyrir sölunni) sem gæti hugsanlega verið hentugt húsnæði fyrir Náttúrugripasafnið. Ekki það að húsnæðisvandi Listaháskólans verði leystur með því þó brýnn sé, enda ekkert í fjárlögum sem benti til þess að lausn á þeim vanda væri á dagskrá heldur. Kannski verður töfralausnin sú að allt verður keyrt upp á Keflavíkurvöll og látið gott heita.

Myndin er skjámynd af myndefni fréttaumfjöllunar Sjónvarpsins um skömmina í kringum Náttúrugripastofnun, í kvöldfréttum þ. 19.12.2006.

Birt:
20. desember 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Neyðin um Náttúrugripastofnun orðin neyðarleg“, Náttúran.is: 20. desember 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/natturugripastofnun/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 5. maí 2007

Skilaboð: