Dagblöð eru ekki lengur stærsti úrgangsflokkurinn í heimilissorpi
Blandað heimilissorp var um 6,2% minna fyrstu tíu mánuði þessa árs í samanburði við árið í fyrra. Þetta kemur fram á vef Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar.
Þá kemur fram að heildarmagn heimilissorps stefnir í 25.760 tonn fyrir árið 2008 en var 27.136 tonn árið 2007.
„Búast má við að magn heimilissorps verði á þessu ári um 216 kg á hvern íbúa en var það var 237 kg árið 2007. Sorpmagn á hvern íbúa minnkar því annað árið í röð,“ segir á vef borgarinnar.
Minnkun á blönduðu heimilissorpi má rekja til aukinnar flokkunar en einnig til minni neyslu.
„Við sjáum fram á að sorpmagn minnkar enn frekar vegna kreppunnar,“ segir Guðmundur B. Friðriksson á vef borgarinnar og nefnir að verulega muni draga úr magni dagblaða þar sem prentun á dagblaðinu 24 stundum var hætt í október.
Mælingar Sorpu á samsetningu heimilissorpsins sýna að dagblöð eru ekki lengur stærsti úrgangsflokkurinn í sorpinu og má rekja það til flokkunar dagblaða til endurvinnslu.
Fram kemur að magn dagblaða sem borgin safnar með grenndarstöðvum og bláu tunnunni hefur aukist um tæp 17% á þessu ári. Bláar tunnur undir dagblöð eru eitt af Grænu skrefunum í Reykjavík sem boðið var upp á gagngert til að fólk hætti að setja dagblöð í tunnur undir almennt sorp. Dagblöð eru einnig flokkuð í endurvinnslutunnu Gámaþjónustunnar.
„Fleiri íbúar en áður nota tunnu fyrir flokkað sorp eða skila því á grenndar- og endurvinnslustöðvar,“ segir Guðmundur og að íbúar geti skilað flokkuðu heimilissorpi endurgjaldslaust á grenndar- og endurvinnslustöðvar. Íbúar sem flokka sorpið geta fækkað tunnum fyrir blandað sorp við hús sín og lækkað með því sorphirðugjaldið.
Birt:
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „Dagblöð eru ekki lengur stærsti úrgangsflokkurinn í heimilissorpi“, Náttúran.is: Nov. 10, 2008 URL: http://nature.is/d/2008/11/23/dagbloo-eru-ekki-lengur-staersti-urgangsflokkurinn/ [Skoðað:Sept. 12, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 23, 2008