Landsvirkjun og ríkisstjórn Íslands hljóta að skulda heimamönnum við Þjórsá og þjóðinni allri skýringar á því hvers vegna undirbúningur að virkjunum við Þjórsá á að renna inn í útrásarfyrirtæki sem heitir Landsvirkjun Power.
Hvers vegna ætti landnám ríkisins á kostnað sunnlenskra sveita að verða hluti af orkuútrás og áhætturekstri?

Sveitarstjórnir vissu ekki að síðasta ríkisstjórn hafi afhent Landsvirkjun um vatnsréttindi í Þjórsá, enda fór sá gjörning leynt. Landsvirkjun hélt fram afhentum vatnsréttindum sem eign sinni og yfirráðum í samningum við landeigendur. Það vóg þungt í huga margra. Nú er komið í ljós að samningurinn var marklaus -óleyfilegur gjörningur. Og þrátt fyrir að ráðherrar taki undir niðurstöðu Ríkisendurskoðunar, þá breytir það engu hjá fjármálaráðherra sem Landsvirkun heyrir óneitanlega undir.

Nú lítur út fyrir að hinn umdeildi undirbúningur Landsvirkjunar fyrir virkjanir í Þjórsá sem meirihluti almennings er andvígur, renni inn í hlutafélag sem heitir Power. Sól á Suðurlandi vill vita hvers vegna þetta er gert.

Getur ástæðan verið sú að Landsvirkjun Power verði undaný egið eftirliti almennings eins og Landsvirkjun hefur viljað en ekki komist upp með? Hverjir vissu fyrirfram um stofnun Landsvirkjun Power og að áætlaðar virkjanir í Þjórsá rynnu þar inn? Hvenær vissu þeir það?Er opinberu fyrirtæki heimilt að setja starfsemi sína inn í félagsform sem lþtur
öðrum forsendum?

Getur ríkisvaldið stungið deilunni um Þjórsá, deilu sem varðar náttúru landsins og grundvallarréttindi almennings, í vasann á hlutafélagi með erlendu nafni? Réttur almennings til að standa gegn ásælni orkufyrirtækja verður óljós. Ætlar Alþingi að skýra hann?

Unnendur Þjórsár og Sól á Suðurlandi telja að undirbúningsferlið að þremur virkjunum í Þjórsá hafa verið með miklum ólíkindum hingað til. Hver annmarkinn á fætur öðrum hefur komið í ljós ef grannt er skoðað. Allir gallar og mistök í ferlinu hafa verið á kostnað náttúrunnar og almennings. Þetta síðasta atriði um Landsvirkjun Power skþtu skökku við og er algjörlega óskiljanlegt og boðar ekki gott.

Við skorum á stjórnvöld að útskýra hvert er verið að stefna með Þjórsá. Ef ríkisstjórnin hefur ákveðið að virkja hvað sem það kostar, þá á hún að gangast við þeirri valdbeitingu.

Myndin er frá Þjórsá að vetrarlagi. Ljósmynd: Árdís Jónsdóttir.

Birt:
18. desember 2007
Tilvitnun:
Guðfinnur Jakobsson „Þjórsá í útrás - hvað veldur?“, Náttúran.is: 18. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/18/thjorsa-i-utras-hvao-veldur/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 19. desember 2007

Skilaboð: