Í bréfi frá Neytendasamtökunum til Umhverfisstofnunar frá 26. maí segir:

iNeytendasamtökin beina þeim eindregnu tilmælum til Umhverfisstofnunar að ORF Líftækni hf. verði ekki veitt leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi í Gunnarsholti eins og fyrirtækið hefur óskað eftir.

Á þingi Neytendasamtakanna sem haldið var seinni hluta septembermánaðar sl. var fjallað um erfðabreyttar afurðir. Ályktun sem þingið samþykkti var svohljóðandi:
„Þing Neytendasamtakanna hvetur til aukinnar umræðu og vitundarvakningar um erfðabreyttar lífverur og áhrif þeirra á umhverfi og heilsufar. Þingið leggur megináherslu á varúð, valfrelsi og öryggi neytenda við stefnumörkun á þessu sviði.

Þingið bendir á að erfðatækni er mjög umdeild og kann að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir erfðamengi lífveranna og getur þess vegna verið áhættusöm. Jafnframt vekur þingið athygli á niðurstöðum óháðra rannsókna á umhverfi, dýrum og mönnum sem nýlega hafa verið kynntar hér á landi og benda til skaðvænlegra áhrifa erfðabreyttra afurða á lífríki og heilsufar.

Þingið lýsir þungum áhyggjum af andvaraleysi stjórnvalda á þessu sviði, skorti á lagareglum um erfðabreyttar lífverur og merkingar erfðabreyttra afurða, innflutningi ómerktra erfðabreyttra matvæla og fóðurs, framleiðslu búfjárafurða með notkun erfðabreytts fóðurs og veitingu heimilda til útiræktunar á erfðabreyttu lyfjabyggi í íslenskri náttúru. Einnig skortir á aðkomu almannasamtaka að stefnumótun.
 
Þingið krefst eftirfarandi aðgerða:
  1. Að þegar verði settar reglur um merkingar og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og fóðurs. Merkingarskylda nái til afurða sem innihalda 0,1% eða meira af erfðabreyttum efnum, svo og til búfjárafurða sem framleiddar eru með erfðabreyttu fóðri. 
  2. Að útiræktun erfðabreyttra plantna verði ekki heimiluð og að hvers konar tilraunir og framleiðsla erfðabreyttra lífvera fari fram í lokuðum kerfum undir ströngu eftirliti þriðja aðila. Tryggt verði að viðkomandi tegundir séu ekki notaðar til manneldis eða í dýrafóður.
  3. Að ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur verði endurskipulögð og Neytendasamtökunum tryggð aðild að henni.
  4. Að yfirvöld heilbrigðis-, matvæla- og lþðheilsumála upplýsi almenning um niðurstöður óháðra rannsókna á erfðabreyttum afurðum og þá áhættu sem neysla þeirra kann að hafa í för með sér.”
Neytendasamtökin gagnrýna einkum eftirfarandi varðandi afgreiðslu á umsókn ORF Líftækni hf.:
  1. Keyra á málið með miklum hraða af hálfu Umhverfisstofnunar og án eðlilegar kynningar gagnvart almenningi og hagsmunasamtökum. Þetta er í ósamræmi við þær kröfur sem gera verður um jafn umdeilda framleiðslu og hér um ræðir. Minnt er á að í umsögn meirihluta Ráðgjafarnefndar um erfðabreyttar lífverur segir: „Hins vegar telur nefndin rétt, í ljósi þess að um umdeilda ræktun sé að ræða, að fram fari víðtæk kynning á þessum áformum ORF Líftækni hf.”.
  2. Ef umsókn ORF Líftækni hf. verður tekin til afgreiðslu nú, verður sú afgreiðsla á grundvelli laga sem byggir á tilskipun ESB sem felld hefur verið úr gildi. Samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hefði átt að taka nýja tilskipun ESB upp í íslenska löggjöf í síðasta lagi 28. mars 2008. Þetta hefur ekki enn verið gert og efast Neytendasamtökin um að það standist lagalega að afgreiða umsóknina á grundvelli gildandi laga.
  3. Ekki verður séð af þeim gögnum sem fyrir liggja í þessu máli hvort eingöngu sé um tilraunaframleiðslu að ræða. Ætla má, miðað við stærð þess svæðis sem sótt er um til ræktunar, að hér sé ekki aðeins um tilraunaframleiðslu að ræða heldur sé einnig miðað við framleiðslu til markaðssetningar. Að mati Neytendasamtakanna er ekki hægt að afgreiða umsókn sem er jafn óskýr hvað þetta varðar.
  4. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar um þessa umsókn segir m.a. að það sé afar ólíklegt að græði próteinin sem framleiða á berist í nokkru teljandi magni í villtar lífverur. Einnig „að litlar líkur séu á að græði próteinin sem framleiða á skaði villt dýr og menn”. Neytendasamtökin leggja á það þunga áherslu á að varúðarreglan sé virt í þessu mikilvæga máli. Miðað við þessa fyrirvara Náttúrufræðistofnunar verður það ekki gert nema með því að hafna umsókn ORF Líftækni hf. um heimild til útiræktunar.
  5. Mikil áhersla hefur verið lögð á hreina náttúru landsins. Ljóst er að ef heimiluð verður útiræktun á erfðabreyttu lyfjabyggi mun þessi ímynd skaðast verulega. Þetta mun án nokkurs vafa draga úr möguleikum okkar að selja landbúnaðarvörur til annarra landa. Því væri hér verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.
Að öðru leyti taka Neytendasamtökin undir minnihlutaálit tveggja fulltrúa í Ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur, en þar um að ræða minnihlutaálit Gunnars Á. Gunnarssonar og Jóns Á. Kalmanssonar.
Birt:
9. júní 2009
Höfundur:
Neytendasamtökin
Tilvitnun:
Neytendasamtökin „Athugasemdir Neytendasamtakanna um umsókn Orf Líftækni hf. um leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi“, Náttúran.is: 9. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/06/09/athugasemdir-neytendasamtakanna-um-umsokn-orf-lift/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: