Á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í gær kom eftirfarandi m.a. fram í ræðu iðnaðarráðherra Jóns Sigurðssonar.....Þá skipti það meginmáli á næstu mánuðum og í kosningunum að framsóknarmenn „nái þeim mikilvæga árangri að mynda þjóðarsátt um umhverfisstefnuna þannig að allir nái samstöðu nema þá hörðustu ofstækismenn“

Þar sem mjög sérstakt má teljast að ráðherra hafi fyrir því að taka fram að þjóðarsátt þurfi ekki að innihalda að öll þjóðin verði sátt, allavega ekki sá hluti þjóðarinnar sem að hann álítur „hörðustu ofstækismenn“, þá er það mikilvægt, til að hægt sé að meta vilja ráðherra til sáttar, að Jón svari því, hvernig hann skilgreinir, nákvæmlega, „hörðustu ofstækismenn“ í þessu sambandi. Eru það hinir tólf þúsund þátttakendur í Jökulsárgöngunni (mótmælagöngunni miklu), þúsundir félaga hinna fjölmörgu náttúru- og umhverfisverndarsamtaka landsins, þeir tugir þúsunda sem skrifað hafa undir mótmælalista gegn Kárahnjúkavirkjun og öðrum sóriðjuáformum ríkisstjórnarinnar, þeim kappsfullu baráttumönnum sem staðið hafa vaktina gegn stóriðjustefnuninni árum saman, þeim almennu borgurum, sérfræðingum og listamönnum sem skrifað hafa bækur og greinar, byggt upp vefsíður, unnið myndverk, kvikmyndir, tónlist og grafík til að upplýsa þjóðina um hver áhrifin gætu orðið, haldi svo áfram sem horfir. Eða á hann við þá sem kjósa VG eða kannski þá sjálfstæðismenn, frjálslynda, samfylkingar- og jafnvel framsóknarmenn sem nú eru umvörpum að snúast gegn stóriðjustefnunni og þora að lýsa því yfir opinberlega?
-
Það er því mikilvægt að formaður Framsóknarflokksins gefi skýr svör við því hvernig hann hyggst flokka mótbáruna og hvaða bárur falla þá í hólf hinna „hörðustu ofstækismanna“. Jón verður að vara sig á að hann falli ekki í sömu gryfju og Bandaríkjamenn sem skilgreindu alla þá sem ekki studdu innrásina í Írak á sínum tíma sem stuðningsaðila við hryðjuverkamenn og leyfðu hugtakinu „hryðjuverkamenn“ að eyðileggja réttindi borgara áður nefndra lýðræðisríkja. En iðnaðarráðherra var einmitt í ræðu sinni á miðstjórnarfundinum að viðurkenna að rangar ákvarðanir hafi verið teknar og mistök gerð, þegar að Ísland, eða í raun Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson studdu innrás Bandaríkjanna í Írak og komu Íslandi þannig á „lista hinna staðföstu þjóða“. Bandaríkjamenn eru sjálfir löngu búnir að viðurkenna mistökin, en Framsóknarflokkurinn fylgir sem sagt fast á eftir.

Mynd t.v. er af Jóni Sigurðssyni iðnaðarráðherra, sú t.h. frá Jökulsárgöngunn þ. 26. 09. 2006.
-
Til marks um vakningu annarra ráðherra Framsóknarflokksins á sviði umhverfismála þá lýstu þau Jónína Bjartmarz og Guðni Ágústsson yfir nýjum áherslum í umhverfismálum þ. 28. 06. 2006.

Birt:
26. nóvember 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hvernig skilgreinir þú „hörðustu ofstækismenn“ Jón?“, Náttúran.is: 26. nóvember 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/hordustu_ofstaekismenn/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 1. maí 2007

Skilaboð: