Ljósm. Haustuppskera, Guðrún Tryggvadóttir.Ólafs sögu helga segir frá því að Knútur Danakonungur situr í York á Englandi og vill kalla til erfða í Noregi. Þegar Ólafi berast þær fregnir mælir hann þunglega: „Nú kallar hann til ættleifðar minnar í hendur mér. Kunna skyldi hann hóf að um ágirni sína. Eða mun hann einn ætla að ráða fyrir öllum Norðurlöndum? Eða mun hann einn ætla að eta kál allt af Englandi?“ Þegar Knútur fregnir þetta svarar hann: „Eigi getur Ólafur konungur rétt, ef hann ætlar, að eg mynda einn vilja eta kál allt á Englandi. Eg munda vilja heldur, að hann fyndi það, að mér býr fleira innan rifja en kál eitt, því að héðan skulu honum köld ráð koma undan hverju rifi.“

Hafi menn talið á þessum tíma að Rómverjar hafi flutt kálið til Bretlandseyja er þá hugsanlegt að Ólafur sé að vísa til þess og segja við Knút – Rómverjum tókst aldrei að sigra allt Bretland og nú skalt þú vera maður til að gera það, kallinn minn, áður en þú ferð að ybbast upp á mig og heimta Noreg. En það fór þó þannig að Ólafur féll á Stiklastöðum og með honum Þormóður Kolbrúnarskáld. En Knútur eignaði sér Noreg án þess þó að ná yfirráðum yfir nema yfir hluta Englands.

Það er ekki útilokað að Keltar hafi kunnað til ræktunar og innfært hana á Bretlandseyjar. Athyglisverð fornleifarannsókn, sem gerð var á gróðurleifum báðum megin við 550 km langan múr við borgina Limes sem í 500 ár skildi að grannana, Rómverja fyrir sunnan og Germani fyrir norðan, bendir þó til hins gagnstæða. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að Germanir lærðu á þessum fimm öldum nánast ekkert af ræktunarmenningu Rómverja og verslun var svo til engin yfir múrinn. Rómverjamegin voru miklir akrar og jurtalendur og þar fundust í brunnum fræ 15 ávaxta- og 16 krydd- og græðijurta. Norðanmegin fannst aðeins smávegis af emmer, sem er frumstæð korntegund, bygg en ekkert af dinkel, þeirri korntegund sem Rómverjar lögðu mest kapp á að rækta.

Rómverjar komu með járnplóga til Bretlandseyja og rækuðu þar bæði rúg og hafra. Síðan reistu þeir annan múr, sem kenndur var við Hadrian keisara, þvert yfir England, þar sem það er mjóst, til að halda Skotum frá sér.

Á Orkneyjum og Hjaltlandseyjum eru ævafornar mannvistarleifar og æskileg ræktunarskilyrði hafa gert eyjarnar eftirsóttar til búsetu í árþúsundir. Þar hefur steinaldarmenning staðið með miklum blóma og ræktun einnig, sérstaklega á Orkneyjum sem liggja sunnar. Lengst af var þar plægt með einföldum tréarði því þegar járnplógar bárust þangað fyrst mörgum öldum síðar þá var það fyrir tilverknað víkinga. Á Orkneyjum óx frumstætt bygg eða bere, sem þótti afar gott til ölgerðar enda sátu víkingarnir gjarnan veturlangt að drykkju á búum sínum, við margt manna, eins og frægt er af sögum.

Úr „Blálandsdrottningin og fólkið sem ræktaði kartöflurnar“  eftir Hildi Hákonardóttur.

Birt:
13. ágúst 2015
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Brot úr ræktunarsögunni“, Náttúran.is: 13. ágúst 2015 URL: http://nature.is/d/2009/04/11/brot-ur-raektunarsogunni/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2009
breytt: 13. ágúst 2015

Skilaboð: