Umhverfisvænt eldsneyti fyrir flugvélar að verða að veruleika
Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins var í dag fjallað um þann stórmerka atburð að flugvélaeldsneyti sem er bókstaflega umhverfisvænt sé í þróun í Svíþjóð.
Fyrirtæki í Stokkhólmi er komið vel á veg með að þróa aðferð til að búa til flugvélaeldsneyti úr blöndu af koldíoxíði, etanóli og vetni og mynda þannig kolvetnisbasa sem hægt er að umbreyta. Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur skoðað þessa aðferð sænska fyrirtækisins og ákveðið að styrkja hana með rösklega 300 milljón króna fjárveitingu, segir sænska ríkissjónvarpið.
Um 9% af samanlagðri koltvísýringsmengun í heiminum skrifast á flugsamgöngur. Eflist farþegaflugið í sama takti og hingað til verður mengun af þess völdum tvöfalt meiri eftir 25 ár. Rannsóknir á nýju eldsneyti fyrir þotur fer nú fram við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi. Rannsóknarvinnunni stýrir Angelica Hull sem jafnframt rekur lítið fyrirtæki sem vinnur að því að þróa nýja gerð af eldsneyti. Aðferðin telst byltingarkennd og varnarmálaráðuneytið hefur lofað auknum fjárveitingum á næstu árum miði þeim vel. Það er lífrænn efnismassi sem er notaður við framleiðsluna og aðferðin er sögð svipuð og framleiðsla etanóls.
Það sem greinir aðferð sænska fyrirtækisins frá eldri aðferðum mun vera það að notað er alkahól og vetni. Í grófum dráttum má segja að það sem skilji aðferðina frá eldri aðferðum sé það að súrefni er tekið burt úr blöndunni og miklu magni af vetni er aukið í hana auk kolefnis. Það eina sem skilur sig úr efnablöndunni við bruna er vatn, ekkert gas og engar efnaörður eins myndast við bruna olíu eða bensíns.
Angelica Hull segir að það verði á valdi markaðsins í hve miklum mæli tekst að framleiða þetta nýja eldsneyti.
Grafík: Flugvél og heimurinn, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Umhverfisvænt eldsneyti fyrir flugvélar að verða að veruleika“, Náttúran.is: 16. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/16/umhverfisvaent-eldsneyti-fyrir-flugvelar-ao-veroa-/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.