Húsgögn og innréttingar - Svanurinn
Umhverfismerking Svansins nær yfir ýmsar gerðir húsgagna og innréttinga, t.d. skápa, hillur, borð, kommóður og stóla, svo fátt eitt sé nefnt.
Umhverfismerking
Norræna umhverfismerkið Svanurinn var stofnað í þeim tilgangi að að auðvelda þér og öðrum neytendum að finna vörur er hafa sem minnst skaðleg áhrif umhverfið. Kröfur Svansins miðast við allan lífsferil vörunnar/ þjónustu, frá vöggu til grafar. Það þýðir að áhrif vörunnar eru metin allt frá hráefni til úrgangs, og miðastkröfur Svansins við að lágmarka umhverfisálag vegna vörunnar. Það getur verið flókið mál að meta umhverfisáhrif vara og finna þá umhverfisvænstu.
Svanurinn einfaldar málið og auðveldar þér að skapa betri framtíð!
Húsgögn og umhverfið
Margvísleg hráefni eru notuð í húsgögn og innréttingar, svo sem viður, plast, málmar, bólstrunarefni, vefnaðarvara, lím og margt fleira. Það er til framleiðslu þessara hráefna, sem rekja má meirihluta þess álags, sem húsgögn og innréttingar valda umhverfinu. Aðrir þættir hafa þó einnig sitt að segja í þessu sambandi, og jafnvel yfirborðsmeðhöndlun á borð við málningu og lökkun veldur því að mengandi efni losna úr læðingi og hafa áhrif á umhverfið. Þar sem svo mörg og ólík efni eru notuð í húsgögn og innréttingar er nær ómögulegt að ákvarða umhverfisáhrif hvers og eins þeirra. Því er gengið út frá því að notuð séu nokkur algeng efni og reglur settar um meðhöndlun sumra og takmörk á notkun annarra svo að útkoman verði umhverfisvænni en ella. Sem dæmi um þetta má nefna ákvæði um notkun endurunnins plasts og málma þar sem þess er kostur, í stað þess að þessi hráefni séu unnin frá grunni. Annað dæmi er vefnaðarvaran. Framleiðsla áklæðisins getur vegið
hlutfallslega talsvert þungt þegar heildarumhverfisáhrif húsgagnsins eru metin, þótt áklæðið sjálft sé aðeins lítill hluti hvers húsgagns.
Svansmerkt húsgögn = gæðavara=sem veldur lámarks umhverfisálagi
Svansmerkt húsgögn og innréttingar þurfa að vera mjög endingargóð og uppfylla öryggiskröfur.
Til að tryggja gæði Svansmerktrar framleiðslu m.t.t. endingar og öryggis eru gerðar kröfur um að hún skuli prófuð af traustum, óháðum rannsóknaraðila. Notkunarleiðbeiningar eiga að fylgja, þar sem m.a. eru leiðbeiningar um hvernig best er að þrífa og haga viðhaldi á húsgagninu/innréttingunni. Einnig eiga að fylgja upplýsingar um hráefni og hvernig hægt er að endurvinna þau.
Hverslags kröfur gerir Svanurinn?
Hér að neðan eru nokkur dæmi:
Viður og plötuefni
Gefa skal upp hverslags viður er notaður í hlutinn og uppruna hans (landsvæði), sem og úr hvernig skógi hann kemur (frumskógi/skógrækt o.s.frv.). Ekki er leyfilegt að nota við sem
meðhöndlaður hefur verið með eitri, en nokkuð er um að eitri sé úðað við sögun timburs til að koma í veg fyrir mygluvöxt. Ætlast er til þess að húsgagnaframleiðendur sem vilja Svansmerkja framleiðslu sína noti fyrst og fremst við úr skógi sem hefur fengið vottun um sjálfbæra nýtingu.
Plötuefni, sem aðallega samanstendur af viði og pressuðu viðarkurli, er líka mikið notað í húsgögn. Gerðar eru kröfur um notkun endurunnins hráefnis í þessar plötur, og lágmarks orkunotkun við framleiðslu. Þá er þess krafist að losun á brennisteini út í andrúmsloftið
og lífrænum úrgangsefnum í skólpkerfi við framleiðslu plötuefnis skuli takmörkuð svo sem kostur er.
Málmar
Hámarkshlutfall málma í Svansmerktu húsgagni er 80% af heildarþyngd.Gerð er krafa um að auðvelt sé að skilja málmhlutana frá öðrum hlutum húsgagnsins/innréttingarinnar, til að auðvelda endurvinnslu. Ef húsgagnið er að stórum hluta úr málmi (þyngdarhlutfall > 50%), eiga minnst 30% af málminum að vera endurunnin.
Málmhlutir mega ekki innihalda kadmíum, kvikasilfur, halógeneruð lífræn efnasambönd eða þalöt.
Plast
Hámarkshlutfall plasts í Svansmerktu húsgagni er 40% af heildarþyngd. Gerð er krafa um að plastefni beri innihaldsmerkingu og að þau séu léttilega aðskiljanleg frá öðrum hlutum húsgagnsins. Ef húsgagnið er að stórum hluta úr plasti (þyngdarhlutfall > 30%) eiga minnst 30 % af plastinu að vera úr endurunnu plasti. Ekki er leyfilegt að nota plastefni sem innihalda blý, kadmíum, kvikasilfur, halógeneruð lífræn efnasambönd eða þalöt.
Bólstrunarefni og vefnaðarvara
Mikið er notað af kemískum efnum við framleiðslu á bólstrunarefnum (tróði, fyllingu) og vefnaðarvöru (áklæði). Svanurinn gerir því strangar kröfur til vefnaðarvöru og bólstrunarefna og taka þær jafnt til framleiðslunnar sjálfrar (tilbúinnar vefnaðarvöru og bólstrunarefna) og framleiðsluferilsins í heild t.d gilda ströng viðmiðunargildi fyrir innihald þungmálma í vefnaðarvöru og bólstrunarefnum og halogeneruð eldvarnarefni eru bönnuð.
Lím, lakk og önnur efni
Gerðar eru ýmsar kröfur til líms og efna sem notuð eru í yfirborðsmeðhöndlun, svo sem lita og lakks. Ekki má nota nein efni sem flokkast sem ofnæmis- eða krabbameinsvaldandi,
teljast eitruð eða skaðleg fyrir frjósemi, svo eitthvað sé nefnt.
Úr prentuðum bæklingi Umhverfisstofnunar um umhverfismerkið Svaninn á húsgögnum og innréttingum.
Norræn umhverfismerking starfar á öllum norðurlöndunum. Umhverfisstofnun hefur umsjón
með Norrænni umhverfismerkingu á Íslandi í umboði íslenskra stjórnvalda. Umhverfisstofnun
hefur einnig umsjón með umhverfismerki Evrópu, Blóminu.
Sjá Svansmerkt fyrirtæki á Íslandi, fyrirtæki sem selja Svansmerktar vörur og lesefni um Svaninn hér á Grænum siðum.
Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að fá Svansvottun veitir umboðsaðili Svansins hér á landi Umhverfisstofnun.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Húsgögn og innréttingar - Svanurinn“, Náttúran.is: 7. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2007/11/19/husgogn-og-innrettingar-svanurinn/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. nóvember 2007
breytt: 7. janúar 2008