Atvinnuveganefnd Alþingis hefur skilað áliti sínu á frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 30/2008, um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl., með síðari breytingum (innleiðing EES-gerðar).

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneytinu og Eyrúnu Guðjónsdóttur og Ingvar Christiansen frá Landsvirkjun. Umsagnir um málið bárust frá Orkusölunni ehf., Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, Orkustofnun og Landsvirkjun.

Frumvarpið inniheldur fjórar greinar að gildistökugrein meðtalinni. Með frumvarpinu er ætlunin að leiða í íslensk lög tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB frá 23. apríl 2009 um að hvetja til notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og niðurfellingu tilskipana 2001/77/EB og 2003/30/EB eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þannig mun samþykkt frumvarpsins hafa í för með sér að í lögum um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl. verði vísað til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB í stað tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB.

Í almennum athugasemdum frumvarpsins kemur fram að með samþykkt þess verði Landsneti hf. heimilað að gefa út upprunaábyrgðir á raforku sem framleidd er hér á landi með endurnýjanlegum orkugjöfum. Slíkt muni hafa í för með sér að þar sem ný tilskipun 2009/28/EB hefur öðlast gildi á Evrópska efnahagssvæðinu geti erlendir aðilar sem hafa hug á að kaupa slíkar upprunaábyrgðir frá Íslandi gert kröfu um að upprunaábyrgðin sé í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar og gefin út með vísan til hennar. Þá kemur þar fram það mat að samþykkt frumvarpsins muni fyrst og fremst hafa áhrif á starfsemi Landsnets hf. við útgáfu upprunaábyrgða ásamt því að opna leið fyrir íslenska raforkuframleiðendur til að markaðssetja upprunavottorð á Evrópska efnahagssvæðinu með tilvísun til tilskipunarinnar.

Tilskipun 2009/28/EB er ætlað að hvetja til nýtingar endurnýjanlegrar orku. Með henni er skylda felld á aðildarríkin til að hlutast til um að ákveðið hlutfall orkunýtingar verði að fara fram með endurnýjanlegum orkugjöfum. Í tilskipuninni koma fram reglur sem m.a. fela í sér heimildir til að flytja nýtingartölur endurnýjanlegrar orku milli aðildarríkjanna með ákveðnum aðferðum, m.a. með útgáfu upprunavottorða. Þannig er gert ráð fyrir að aðildarríkin nái þeim markmiðum sem tilskipunin byggist á í heild en ekki hvert og eitt.

Umsagnaraðilar eru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins og hvetja til samþykktar þess. Samorka og Landsvirkjun telja innleiðingu ákvæða tilskipunarinnar mikilvæga fyrir íslensk orkufyrirtæki og íslenska ríkið til að nýta tækifæri sem felast í tilskipuninni. Þá telja þeir að með innleiðingu hennar skapist tækifæri fyrir íslensk orkufyrirtæki til að taka þátt í viðskiptum með upprunaábyrgðir á raforku. Benda þeir á að Ísland hafi þegar náð 2020 markmiðum Evrópusambandsins hvað varðar aukningu á hlut endurnýjanlegrar orku á meðan flest lönd sambandsins þurfi að ná markmiðum sínum með ærnum tilkostnaði og með aðstoð annarra landa. Þá bendir Samorka á að mat manna sé að íslensk orkufyrirtæki missi af miklum tekjum verði tilskipunin ekki innleidd.

Í umsögn Orkustofnunar kemur fram athugasemd við frumvarpið. Þar segir að stofnunin fari með eftirlit samkvæmt raforkulögum, m.a. með tekjumörkum Landsnets hf. Þá gagnrýnir stofnunin að ekki komi fram í frumvarpinu hvernig gjaldtöku fyrir vottorð um upprunaábyrgð verði háttað og hvernig skuli fara með tekjur Landsnets af vottorðaútgáfunni með hliðsjón af tekjumarkaákvæðum raforkulaga. Telur stofnunin nauðsynlegt að skýrt komi fram í frumvarpinu að gjaldtaka fyrir vottorðaútgáfu verði í samræmi við raunkostnað og að kostnaði og tekjum verði haldið aðgreindum frá öðrum tekjum þannig að þær falli utan tekjumarka samkvæmt raforkulögum.

Iðnaðarráðuneytið svaraði athugasemd Orkustofnunar í erindi til nefndarinnar. Þar bendir ráðuneytið á innihald 5. gr. laga um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl. og greinargerð frumvarps þess sem síðar varð að þeim lögum.

Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl. er Landsneti hf. heimilt að krefja umsækjanda um greiðslu vegna útgáfu upprunaábyrgðar. Þar segir einnig að fyrirtækið skuli setja gjaldskrá um framangreinda þjónustu. Í sérstökum athugasemdum við 5. gr. frumvarps þess sem síðar varð að framangreindum lögum kemur fram að greiðslu vegna útgáfu upprunaábyrgðar sé ætlað að standa straum af kostnaði sem Landsnet hf. leggur í vegna útgáfu upprunaábyrgðar. Einnig kemur fram að gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku skuli taka mið af því að fjárhæð gjaldtöku fyrir viðkomandi þjónustu verði ekki hærri en sem nemur kostnaði við að veita hana. Ekki sé um að ræða almenna tekjuheimild til handa Landsneti hf. heldur eingöngu greiðslu á sannarlegum kostnaði Landsnets hf. vegna útgáfunnar og/eða staðfestingar á útgefinni upprunaábyrgð.

Í framangreindu erindi iðnaðarráðuneytisins kemur einnig fram það mat ráðuneytisins að í ljósi setningar laga um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl. hafi gagnrýni Orkustofnunar byggst á misskilningi enda hafi verið hugsað fyrir gagnrýnisatriðum stofnunarinnar við setningu framangreindra laga. Telur ráðuneytið það hafið yfir vafa að frumvarpið feli ekki í sér almenna tekjuheimild og að gjaldtakan geti aldrei numið meira en sem nemur raunkostnaði við að veita þá þjónustu sem frumvarpinu er ætlað að heimila.

Skilningur nefndarinnar er sá að heimild 3. mgr. 5. gr. laga um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl. feli í sér almenna heimild til töku þjónustugjalds. Um slíka gjaldtöku gilda lagasjónarmið sem hafa fengið viðurkenningu m.a. í framkvæmd dómstóla og umboðsmanns Alþingis. Af þeim sökum telur nefndin ekki tilefni til að taka undir áhyggjur sem koma fram í umsögn Orkustofnunar.

Eins og fram hefur komið fagna umsagnaraðilar framkomu frumvarpsins og hvetja til samþykktar þess. Í ljósi alls framangreinds tekur nefndin undir með umsagnaraðilum og leggur til að frumvarpið verði samþykkt án breytinga.

Kristján L. Möller, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. júní 2012.

Birt:
June 16, 2012
Höfundur:
Alþingi
Uppruni:
Alþingi
Tilvitnun:
Alþingi „Jákvæð umsögn Atvinnuveganefndar við frumvarp um upprunaábyrgð raforku“, Náttúran.is: June 16, 2012 URL: http://nature.is/d/2012/06/16/jakvaed-umsogn-atvinnuveganefndar-vid-frumvarp-um-/ [Skoðað:June 21, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: