Prentverk - prentað efni

Prentverk
Umhverfismerking Svansins á prentverki nær yfir dagblöð, tímarit, vörulista, símaskrár, auglýsingabæklinga og bækur, einnig minnis-, stíla- og reikningsbækur af ýmsu tagi. Merkingin fæst eingöngu á hverja vörutegund fyrir sig, ekki á prentsmiðjuna sem slíka.

Prentverk og umhverfið
Umhverfisáhrif hvers kyns prentverks má að stærstum hluta rekja til framleiðslunnar á uppistöðuhráefni þess, þ.e.a.s. pappírsmassa og pappírsins sem prentað er á. Það er því grundvallarforsenda Svansmerkingar á prentgripum að pappírinn sem prentað er á uppfylli einnig kröfur Svansins. Þær taka meðal annars til orkunotkunar, eðlis og nýtingar skóga og losunar mengandi efna út í umhverfið við framleiðslu pappírsins og pappírsmassans. Þetta er nánar útfært á upplýsingablaði um Svansmerktan pappír.
Við framleiðslu prentgripanna sjálfra eru einnig notuð fjölmörg kemísk efni, sem geta haft skaðleg áhrif á umhverfið, sérstaklega lífríki votlendis og vatnakerfa, ef þau komast í tæri við það. Þar sem endingartími stórs hluta prentgripa (svo sem dagblaða og tímarita) er afar stuttur er gerð krafa um að auðvelt sé að endurvinna þá.

Umhverfismerking
Markmiðið með Svaninum, Norræna umhverfismerkinu, er að auðvelda þér og öðrum neytendum að velja vörur er hafa sem minnst skaðleg áhrif á umhverfið. Kröfur Svansins miðast við allan lífsferil vörunnar/þjónustunnar, frá vöggu til grafar. Það þýðir að áhrif vörunnar eru metin allt frá hráefni til úrgangs, og miðast kröfur Svansins við að lágmarka umhverfisálag vegna vörunnar. Það getur verið flókið mál að meta umhverfisáhrif vara og finna þá umhverfisvænstu. Svanurinn einfaldar málið og auðveldar þér að skapa betri framtíð!

Umhverfiskröfur Svansins
Svansmerkingin fæst eingöngu á prentgripi, prentsmiðjur sem slíkar eru ekki Svansmerktar. Birgjar og heildsalar verða því að panta Svansmerkta prentgripi sérstaklega, það nægir ekki að snúa sér bara til prentsmiðju sem hefur leyfi til að prenta Svansmerkta vöru, því flestar þeirra framleiða einnig annað, ómerkt prentverk.
Til að fá umhverfismerkið Svaninn á prentgripi þarf að uppfylla strangar kröfur sem taka til alls líftíma þeirra - allt frá skógi til endurvinnslu. Ákveðin skilyrði eru sett um pappírsframleiðsluna, forvinnuna í prentsmiðjunni - svo sem plötuvinnslu - og prentunina sjálfa. Eftirvinnsla prentgripanna, svo sem skurður, plöstun og bókband, er einnig háð ákveðnum skilyrðum, og gerð er krafa um flokkun alls sorps frá prentsmiðjunni. Kröfurnar ná yfir öll hráefni, kemísk efni, losun mengandi efna við framleiðsluna og förgunarmöguleika ónýtra prentgripa, en Svansmerktir prentgripir verða að vera endurvinnanlegir. Ekki má nota plast sem byggir á klórsamböndum, svo sem PVC, í prentgripinn sjálfan eða umbúðir utan um hann. Viðmiðunarreglur Svansins um prentverk gilda um offsetprentun, tölvuprentun, djúpþrykk (djuptryck) og flexoþrykk.
Hér á eftir má sjá helstu atriði úr viðmiðunarreglum fyrir offsetprentun, sem er algengasta prentaðferðin.

Pappír
Pappír, sem stenst kröfur norræna umhverfismerkisins, skal vera minnst 90% af heildarþyngd prentgripsins. Ef um bækur, stíla/reikningsbækur eða lausblaðabækur er að ræða, er miðað við 80% af heildarþyngd. Ekki má nota kalkipappír sem torveldar endurvinnslu.

Plötugerð
Á þessu stigi framleiðslunnar eru efnin, sem notuð eru við filmuvinnslu og plötugerð sett undir smásjána, og þá sérstaklega förgun þeirra og endurvinnsla. Skolvatnið má ekki fara óáreitt í frárennslið, heldur verður að sía silfurleifar af notuðum filmum úr því og endurnýta þær. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að silfrið berist í vatnakerfi eða á haf út, þar sem það getur haft skaðleg áhrif á lífríkið.

Prentun
Í prentuninni sjálfri er einnig mikið notað af kemískum efnum. Viðmiðunarreglur Svansins miða að því að draga úr notkun þeirra almennt og að þau efni sem notuð eru séu eins skaðlaus umhverfinu og kostur er. Losun mengandi efna frá prentsmiðjunni verður einnig að vera í lágmarki. Sem dæmi um skilyrði á þessu stigi framleiðslunnar má nefna að litirnir mega ekki vera skaðlegir umhverfinu. Því er bannað að nota prentliti sem innihalda þalöt (ftalates), en þau valda þörungadauða og grunur leikur á um að þau hafi neikvæð áhrif á frjósemi dýra. Þungmálmar eða ál, sem stundum er notað til að ná fram silfurlit, mega ekki vera uppistaðan í litarefnunum. Þess í stað skal nota liti, hvers litarefni er sótt í jurtaríkið.
Hreinsiefni fyrir plötur, valsa og prentvélar mega ekki vera arómatísk eða rokgjörn, þar sem slík efni eiga þátt í myndun ósons á jörðu niðri og geta jafnframt verið krabbameinsvaldandi. Þá mega hreinsiefnin hvorki innihalda króm né klórhvörfuð kolvetni, sem geta haft skaðleg áhrif á gróður og dýr.
Gerð er krafa um að notkun leysi- og hreinsiefna yfirleitt sé í algjöru lágmarki. Starfsmenn norræna umhverfismerkisins hafa eftirlit með því að frárennsliskerfið standist kröfur og frárennsli sé hreinsað til að draga úr losun spilliefna.

Eftirvinnsla
Þegar búið er að prenta tekur eftirvinnslan við. Það er æði misjafnt hvað hún felur í sér, og fer það allt eftir eðli hinna mismunandi prentgripa. Bókband og plöstun kápu eru dæmi um þetta. Svanurinn gerir þá kröfu að ekki sé notað lím, lakk eða plast sem telst skaðlegt umhverfinu, innihaldi þalöt (ftalates) eða torveldar endurvinnslu prentgripsins.
Þannig er til dæmis sett það skilyrði, að eingöngu vatnsleysanlegt lím sé notað í Svansmerkta prentgripi.

Sorp
Flokka skal allt sorp sem til fellur í prentsmiðjunni. Pappírsafskurður, prentplötur, rafmagnstæki, leifar af prentdufti eða bleki (toner) og notuð blekhylki úr ljósritunarvélum og tölvuprenturum skulu sett í endurvinnslu, sem og allt annað sem hægt er að endurvinna. Um annað sorp gildir að því skal fargað á þann hátt að tryggt sé að spilliefni eða annar hættulegur eða mengandi úrgangur komist ekki út í náttúruna. Krafan um flokkun sorps nær einnig til undirverktaka prentsmiðjunnar.

Aðrar kröfur
Svanurinn gerir þá kröfu til prentsmiðja, líkt og annarra, sem vilja fá Svaninn á framleiðslu sína, að þær sýni fram á að þær uppfylli sett skilyrði. Þær verða að starfa í samræmi við gildandi umhverfis- og vinnulöggjöf í hvívetna, og færa dagbók. Þá verða gæði prentverksins að standast samanburð við það sem best gerist annars staðar.

Sjá Svansmerkt fyrirtæki á Íslandi, fyrirtæki sem selja Svansmerktar vörur og lesefni um Svaninn hér á Grænum siðum.

Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að fá Svansvottun veitir umboðsaðili Svansins hér á landi Umhverfisstofnun.

Birt:
7. janúar 2008
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Prentverk - Svanurinn“, Náttúran.is: 7. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/06// [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. janúar 2008
breytt: 8. janúar 2009

Skilaboð: