Um daginn heyrði ég viðtal við nýjan rektor á Bifröst sem hét því að vinnuvélar og byggingarkranar væru ekkert á leiðinni frá Bifröst í bráð þar sem uppbyggingin væri mikil framundan. Neðangreint fann ég á netinu um hraunið fallega sem hverfur nú umyrðalaust undir menntasetur sem hefði sómt sér vel í Reykholti eða á tómum göngum Varmalandsskóla.

Á báðum stöðum er mikið og gott undirlendi og endalausir möguleikar og hvergi þrengir heldur að þjóðvegi nr. 1. Það kom mér á óvart að hraunið er á náttúruminjaskrá- hélt satt að segja að gígarnir væru það bara. Svo talaði ég við Gísla Einarsson fréttamann og benti honum á að kanna málið, skoða leyfisveitingar frá Umhverfisstofnun og hafa samband við þá sem færu fyrir Náttúruverndarsamtök Vesturlands. Honum leist vel á hugmyndina og sagði jafnvel tímabært að velta þessum fleti upp þar sem þeim virtist ekki sjást fyrir þarna á Bifröst. Þá benti hann mér á að flatirnar á bak við Grábrók eru komnar á skipulag undir íbúðarbyggð og allt er þetta inni á náttúruverndarsvæði og utanáhangandi náttúruvættum. Fyrir nú utan að það er ekkert hægt að færa þjóðveg númer eitt – hann bara sniglast þarna utan í eins og gangstígur og kemst ekki neðar og nær ánni þar sem það svæði er flóðasvæði og fer oft undir vatn.

Já, og ástæðan fyrir langlokunni hér á undan er að sjálfsögðu fréttin góða í Fréttablaðinu þ. 06. 02. 2007 með áskoruninni til ráðherra um friðlýstu svæðin. En sorgin í Norðurárdal er að ruglið hófst allt með frekju eins manns sem vildi reisa sér risavaxið háskólamusteri og valdi sér staðinn eftir eigin hégóma en ekki hagkvæmni. Menn virðast ekki vera að fara gætilega þarna í framkvæmdum og framundan eru stórtækar breytingar og skerðing á hrauninu. Jafnvel svo miklar að framsóknarmaður einn sem er prófessor þarna við skólann segir málið vera hneyksli.

Mér finnst þetta hafa farið ótrúlega lágt og menn verið sofandi rétt eins og þegar Rauðhólunum var rutt niður, það er vert að vekja á þessu athygli svo fólk verði meðvitað. Það má ekki taka teskeið úr Grábrókarhlíðinni og hefur ekki matt um árabil, en nokkrum metrum frá er verið að róta sundur hrauninu eins og hverju öðru byggingarlandi í miðri Reykjavík. Gísli benti á að menn hefðu verið viðlíka sofandi fyrir sunnan þegar hafist var handa við að rusla niður Rauðhólunum. Á netinu fann ég upplýsingar um að Grábrókarhraunið sjálft sé á náttúruminjaskrá.
-
Sjá netið Wikipedia: Grábrókarhraun er úfið apalhraun í Norðurárdal. Það er um nokkur þúsund ára gamalt og er vaxið mosa, lyngi og birkikjarri. Grábrók er stærst þriggja gígja á gossprungu. Þessir gígir eru Stóra-Grábók, Litla-Grábrók og Grábrókarfell sem stundum er nefnt Rauðabrók. Litla-Grábrók er að mestu horfin vegna jarðrasks. Gígirnir eru friðlýstir sem náttúruvætti. Grábrókarhraun er á náttúruminjaskrá.

Ásta Þorleifsdóttir og Kristín Helga Björnsdóttir

Birt:
9. febrúar 2007
Uppruni:
Bifröst
Tilvitnun:
Ásta Þorleifsdóttir „Gleymdist að virða Náttúruminjaskrá við framkvæmdirnar á Bifröst?“, Náttúran.is: 9. febrúar 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/gleymdist_virda_nattminjaskra_bifr/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 3. maí 2007

Skilaboð: