Séð til Öskju

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur Ph.D. hélt í kvöld fyrirlestur um jarðhræringar við Upptyppinga austan við Kötlu. Að sögn Páls hófst hrinan þar með fyllingu Hálslóns við Kárahnjúkavirkjun og hefur fylgt þeim framgangi. Þessir skjálftar eru ekki eins og þeir skjálftar sem fylgja hefðbundnum plötuhreyfingum og því sennilegast bein afleiðing þass aukna þunga sem Hálslón leggur á þunna jarðskorpu þessa svæðis. Páll segir að vænta megi goss þar að ári og það verði að líkindum dyngjgos sem gæti varað árum eða jafnvel áratugum saman.

Guðmundur E. Sigvaldason jarðfræðingur hafði sagt að ekki væri nóg vitað um ástand á þessu svæði né áhrif slíks mannvirkis á kviku undir jarðskorpunni. Á heimasíðu Landsvirkjunar má sjá þessi orð eftir honum höfð:

Lítið sem ekkert er fjallað um eldvirkni og jarðskjálfta í matsskýrslunni. Lítið sem ekkert er vitað um Snæfell en það telst vera virkt eldfjall samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu og jafnvel má tala líka um Kárahnjúka sem eldfjall. Ófullnægjandi umfjöllun um „manngerða hættuþætti“: leka úr lóni, „manngerða jarðskjálfta“ og stíflurof.1

Þeir fræðimenn á sviði jarðvísinda sem vildu hvetja til varfærni og frekari rannsókna áður en ráðist væri í framkvæmdir við Kárahnjúka voru virtir að vettugi og nánst gert grín af þeim af verkfræðielítu Landsvirkjunar. En verk þessarar elítu hafa nú ekki staðist áberandi vel hvað varðar kostnað né tíma. Okkur ber samt að treysta öðrum útreikningum þeirra hvað varðar hættu á stíflurofi og endingu virkjunarinnar.

Enn er í fersku minni hvernig Grímur Björnsson var múlbundinn um tíma og öll sú umræða sem fylgdi þvi máli. Einnig lagði Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og prófessor við Rhode Island háskóla til að óháð nefnd ynni áhættumat.

Allt þetta var hundsað og reynt að gera lítið úr þessum vísindamönnum. Þjóðin verður að biðjast undan þessum stalínsku vinnubrögðum Landsvikjunar og krefjast faglegra vinnubragða þar sem sjónarmið njóta sannmælis og tillit tekið til álits virtra vísindamanna sem ekki þiggja laun sín frá hagsmunaaðila.

Komi til þessa goss, nánast af mannavöldum, verða Íslendingar að endurskoða örlæti sitt á losunarheimildir og jafnvel draga til ábyrgðar þá sem reyndu að þagga niður í réttmætum gagnrýnisröddum og æddu áfram í blindni með verkefni sem líkast til er nú þegar farið að skila verulegu tapi.

Ljósmynd: Séð til Öskju - Guðrún Tryggvadóttir

1. http://www.karahnjukar.is/article.asp?ArtId=391&catID=270

Birt:
22. október 2007
Höfundur:
Einar Bergmundur
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Uppi er á þeim typpið“, Náttúran.is: 22. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/22/uppi-er-eim-typpi/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 2. mars 2008

Skilaboð: