Orkuveitan hvetur til rannsókna á gróðurskemmdum
Í framhaldi af fréttum um gróðurskemmdir vestan Reykjafells á Hengilssvæðinu hvetur Orkuveita Reykjavíkur til þess að málið verði rannsakað ofan í kjölinn, sérstaklega með það fyrir augum að kanna hvort starfsemi Hellisheiðarvirkjunar hafi haft áhrif þarna á. Ekki hefur orðið vart svipaðra gróðurskemmda við Nesjavallavirkjun, sem starfrækt hefur verið í tæpa tvo áratugi á sama jarðhitasvæði.
"Orkuveita Reykjavíkur tekur umræðu um umhverfismál mjög alvarlega," segir Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, og hvetur til þess að tilgátur um orsakirnar verði rannsakaðar sem fyrst. „Á Hellisheiðinni og þar í grennd erum við í samstarfi við fjölda aðila um uppgræðslu– þ.á.m. Landgræðsluna, Náttúrufræðistofnun og almannasamtökin Gróður fyrir fólk - og erum að vinna að því að endurheimta gróður. Það er því slæmt að horfa upp á þessir skemmdir á svæðinu,“ segir Hjörleifur.
Hann ítrekar að það sé áríðandi að komast að því hvað valdi. Á síðasta ári auglýsti Umhverfis- og orkurannsóknasjóður Orkuveitunnar eftir vísindafólki til að rannsaka áhrif gufu og heits vatns á gróður, en enginn gaf sig fram. „Þó nýting háhitasvæða sé ekki alveg ný af nálinni, verðum við að hafa augun opin fyrir því að við kunnum að eiga margt ólært,“ segir Hjörleifur. Hann vekur athygli á því að virkjunin á Nesjavöllum hafi verið starfrækt í hartnær tvo áratugi án þess að svipaðra gróðurskemmda hafi orðið vart. Hellisheiðarvirkjun framleiðir nú svipað mikla orku og Nesjavallavirkjun.
Starfsfólk Orkuveitunnar hefur þegar verið í sambandi við starfsfólk Náttúrufræðistofnunar í því skyni að afla sér frekari upplýsinga og bollaleggja um hvernig best sé að rannsaka tilgátur vísindamanna á sem skemmstum tíma.
Brennisteinsvetni, eða hveralykt, finnst sumum hvimleiður fylgifiskur jarðhitanýtingar. Brennisteinsvetnið er um 0,01% af útblæstri virkjananna á Hengilssvæðinu. Nú er unnið að því að skilja lofttegundina frá gufunni og verður henni skilað aftur ofan í jarðhitageyminn um niðurrennslisholur við virkjunina. Sömu aðferð verður beitt á þær virkjanir Orkuveitu Reykjavíkur sem fyrirhugaðar eru. Þá á Orkuveitan einnig í samstarfi við líftækifyrirtækið Prókatín um nýtingu brennisteinsvetnis til framleiðslu á prótíni, sem nýta má t.d. í skepnufóður.
Borholustrókur á Hellisheiði. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Eiríkur Hjálmarsson „Orkuveitan hvetur til rannsókna á gróðurskemmdum“, Náttúran.is: 8. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/08/orkuveitan-hvetur-til-rannsokna-groourskemmdum/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.