Atli Gíslason skrifar um mannréttindi og Þjórsá.

Nú er ljóst að samningaumleitanir Landsvirkjunar við ýmsa landeigendur við Þjórsá vegna fyrirhugaðra virkjana hafa siglt í strand. Eigendur Skálmholtshrauns hafa til að mynda alfarið hafnað samningum og af Urriðafossvirkjun og Urriðafosslóni verður ekki nema Landsvirkjun kný ji fram eignarnám á jörðinni allri. Við blasir að jörðin verði verðlaus komi til þess að áform Landsvirkjunar nái fram að ganga. Í raun skapa fyrirhuguð virkjanalón stórfellda hættu vegna flóða í kjölfar jarðskjálfta, Suðurlandsskjálfta, sem eiga sér upptök á þessu landsvæði, svonefndum Hreppafleka. Eru þá ónefndar mjög verulegar breytingar á grunnvatnsstöðu og lífríki Þjórsár. Í ljósi framanritaðs og þeirrar stórfelldu umhverfisspjalla sem fyrirhugaðar virkjanir munu hafa í för með sér vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort stjórnarskráin heimili eignarnám.

Samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar er eignarrétturinn friðhelgur og engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, lagafyrirmæli komi til og fullt verð. Hér skiptir mestu máli að meta hvort almenningsþörf sé fyrir hendi. Við mat á því verður að gæta meðalhófs og jafnræðis og deginum ljósara að persónulegir hagsmunir einstakra manna og fyrirtækja eða fjárþörf ríkis og sveitarfélaga er ekki næg ástæða til eignarnáms.

Og vel að merkja heimildir til að skerða mannréttindi, þ.m.t. friðhelgi eignarréttar, ber að túlka þröngt því mannréttindaákvæði eru sett til verndar einstaklingum en ekki stjórnvöldum eða einokunarfyrirtækjum.

Er almenningsþörf á því:

  • að eyðileggja með óafturkræfum hætti náttúruperlur Þjórsár og næsta nágrennis og stefna lífríki og búsetu þar í verulega hættu?
  • að sniðganga alþjóðasaminga og íslensk lög um sjálfbæra þróun, mengunarbætur og varúðarregluna?
  • að láta náttúruna ekki njóta vafans um verulega flóðahættu, hækkun grunnvatnsstöðu og eyðileggingu laxastofnsins í Þjórsá og lífríkis almennt?
  • að virkja í þágu útlendra einokunarálbræðslna og selja raforkuna á útsöluprís meðan almenningur, bændur og innlendir atvinnurekendur greiða margfalt hærra raforkuverð?
  • að selja raforkuna til mengandi þungaiðnaðar og til verðmætasköpunar erlendis.
  • að nýta alla mengunarkvóta okkar í einsleitar og mengandi álbræðslur og hafa eggin öll í sömu körfu?
  • að eyðileggja Hellisheiðina með sjónmengandi raflínum?
  • að sjá til þess að Ísland verði það land sem eykur mest útblástur gróðurhúsalofttegunda í Evrópu?
  • að koma í veg fyrir að raforka okkar verði nýtt til umhverfisvænnar starfsemi?
  • að spilla rómuðum ferðamannastöðum og verðmætum byggingar- og landbúnaðarsvæðum?
  • að koma í veg fyrir að tækifæri til nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi?

Nei, það er engin almenningsþörf fyrir því að eyðileggja náttúruperluna Þjórsár í þágu erlendra einokunarálbræðslna á kostnað almennings og innlends atvinnureksturs, sem í dag borgar allt að tífalt hærra raforkuverð en einokunarálbræðslurnar. Ég vænti þess að mannréttindasinnar í öllum stjórnmálaflokkum snúi bökum saman og leggist af fullum þunga gegn öllum áformum Landsvirkunar um skerðingu á einstaklingsfrelsi og grundvallarmannréttindum.

Höfundur er alþingismaður.

Atli Gíslason o.fl. á fundi við Þjórsá þ. 27. júlí 2007. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
20. október 2007
Höfundur:
Atli Gíslason
Tilvitnun:
Atli Gíslason „Eignarnám við Þjórsá er andstætt stjórnarskránni“, Náttúran.is: 20. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/18/eignarnm-vi-jrs-er-dsttt-stjrnarskrnni/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 18. október 2007
breytt: 12. september 2009

Skilaboð: