Kristilegt jólahald
Það hefur sjálfsagt komið til sögunnar smám saman á 11. öld, en þó einkum í kirkjum, eftir að þær tóku að rísa. Í heimahúsum hefur breytingin í fyrstu helst orðið sú, að í stað þess að drekka “Njarðar full og Freys full til árs og friðar” hafa menn vanist á að “signa ölið nótt hina helgu til Krists þakka og sankti Maríu til árs og friðar,” svo að vitnað sé bæði til Heimskringlu og Gulaþingslaga.
Hér er hvorki rúm né ástæða til að lýsa kirkjusiðum á jólum. Aðeins skal þess getið, hvernig jólaguðsþjónustan hefur í stórum dráttum farið heim, eftir að lágmarksskipan komst á kristnihald:
- Á miðjum aftni, þ.e. kl. 6 á aðfangadag, hófst einskonar inngangur að sjálfri jólaguðsþjónustunni, svonefnd vigilia eða vaka. Var hún oftast fólgin í tíðasöng, en þó hefur stundum veirð messað, helst ef nokkur söfnuður hefur þegar verið saman kominn. Annars var tíðasöngurinn ævinlega fyrst og fremst ætlaður kirkjunnar þjónum sjálfum, þótt söfnuðinum væri guðvelkomið að hlýða á.
- Sjálf jólanáttmessan, in nocte, hófst kl. 12 á jólanótt. Að henni lokinni var sunginn tíðasöngur, þar til hófst
- morgunmessa, in aurora, kl. 6 á jóladagsmorgun. Að henni lokinni var enn tíðasöngur, uns síðasta messa sólarhringsins hófst, það er
- dagmessan, in die, á jóladagsmorgun.
Af þessu má sjá, að kirkjufólkið hefur flest hvert verið á staðnum alla nóttina. Og þá gæti sú spurning vaknað, hvað þeir hefðu gert af sér, sem ekki nenntu að hlýða á tíðasönginn. Er t.d. hugsanlegt, að það hafi slegið í dans, ef vel viðraði, og slíkt gæti verið kveikjan að hinum frægu þjóðsögum um dansinn í Hruna og á Bakkastað?
Við siðbreytinguna var guðsþjónustan öll gerð einfaldari, en margt gamalt fékk þó að fljóta með lengi vel á stórhátíðum, þar á meðal jólanáttmessan. Hún féll ekki niður, fyrr en hún var bönnuð með konunglegri tilskipun 29. Maí 1744. Hefur sú ráðstöfun vafalaust verið að undirlagi Lúðvíks Harboe, en gegn vilja og tregðu margra presta og sóknarbarna þeirra. Þannig segir í ritgerðarkorni frá 18. öld, sem nefnist “Lítil undirrétting um hátíðahöld, sem tíðkast hafa á Íslani og öðrum nálægum löndum eftir daga Lutheri”:
“Hvör mun þá hafa verið orsök svo lengi viðhaldandi jólanæturmessuhalds hjá oss, framar en öllum öðrum sömu religionis í Evrópa? Mun það ei hafa verið almúgans og nokkurra einfaldra eður sérsinnaðra presta fastheldni á gömlum siðum án þess að rannsaka á hvörjum grundvelli þeir voru byggðir, hvar út í biskupar vorir hafa séð í gegnum fingur og jafnvel staðfest með sínum eftirdæmum, þar til Kristján 6. Háloflegrar minningar fyrirbauð þá siðvenju með einni fororðning af dato 1744. Hvörnin eftir henni, hefur hingað til lifað verið af nokkrum prestum í Múlasýslu, er almenningi kunnugt. Má það undarlegt þykja, að nokkrir prestar vor á meðal skuli taka sér þau fríheit, sem meiri menn hvorki voga né vilja brúka.”
Þessi fastheldni nokkurra presta mun hafa viðgengist á stöðu stað fram til 1770, þegar næturmessan er endanlega afskipuð um leið og helgidögum var fækkað. Síðan hefur fyrirkomulagið haldist að mestu óbreytt, þar til kringum 1890, að aftansögnum er bætt við, en hann er einskonar endurnýjun hinnar gömlu vigiliu.
Jólanáttmessa var hinsvegar ekki tekin upp aftur á æðstu stöðum í lútersku kirkjunni, fyrr en sr. Sigurbjörn Einarsson biskup hóf þann sið árið 1964 í dómkirkjunni í Reykjavík og hélt um 10 ára skeið. Fáeinir prestar hafa síðar tekið siðinn upp í einstökum kirkjum í Reykjavik. Reyndar var sr. Sigurður Pálsson á Selfossi fyrstur til að taka jólanáttmessu upp þegar árið 1958.
Úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson.Grafík: Jata, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Kristilegt jólahald“, Náttúran.is: 12. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/12/kristilegt-jlahald/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013