Hóta loftslagsskussum refsingu
Brussel, AP Leiðtogar Evrópusambandsins gáfu sér á fundi sínum í Brussel í gær frest til næstu áramóta til að ljúka gerð frumvarps að nýjum bindandi reglum til að ná markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í aðildarríkjunum 27. Þeir vöruðu ríkin sem mest losa í heiminum Bandaríkin, Kína og fleiri við því sambandið kynni að beita þau viðskiptaþvingunum ef þau axla ekki sinn hluta ábyrgðarinnar á að draga úr losuninni til að hamla gegn loftslagsbreytingum.
"Bregðist alþjóðaviðræður kann að verða gripið til viðeigandi ráðstafana," sögðu leiðtogarnir i ályktun. Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti bætti um betur og sagði: "Meginverkefnið er að setja upp kerfi sem myndi gera okkur kleift að ráðast gegn innflutningi frá löndum sem ekki fara að leikreglum alþjóðlegrar umhverfisverndar."
Leiðtogarnir ályktuðu líka um stöðu efnahagsmála í því skyni að sannfæra fjárfesta og fyrirtækjarekendur um að ESB-ríkin væru vel í stakk búin til að standa af sér kreppuna á alþjóðlega fjármálamarkaðnum. Stöðug evra hjálpi til þess. Þeir lýstu fullri trú á að hægt væri að ná markmiðum um minni loftmengun án þess að það skaðaði efnahagslífið.
Janez Jansa, forsætisráðherra Slóveníu sem fer með ESB-formennskuna þetta misserið, tjáði fréttamönnum að samið hefði verið um frest til að ljúka bindandi aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til að tryggja að Evrópusambandið haldi forystuhlutverki í þeim alþjóðlegu samningaviðræðum um þau mál sem fram undan eru. ESB hefur sett sér að skera losun niður um fimmtung fyrir árið 2020, miðað við losun ársins 1990. ESB-leiðtogarnir segjast vonast til að önnur helstu losunarríki heims setji sér hliðstæð markmið þegar sest verður niður til að semja um arftaka Kyoto-bókunarinnar í Kaupmannahöfn á næsta ári.
Sarkozy Frakklandsforseti sagði ennfremur að hann hefði fengið "samhljóða" stuðning við áform um stofnun svonefnds Miðjarðarhafssambands til að styrkja tengsl ESB við grannríkin við sunnan- og austanvert Miðjarðarhaf.
Pólski forsætisráðherrann Donald Tusk boðaði þá tillögur um nánari tengsl ESB og Úkraínu, svo að það mikilvæga grannríki sambandsins í austri stæði ekki verr að vígi en grannríkin í suðri.
Birt:
Tilvitnun:
Auðunn „Hóta loftslagsskussum refsingu“, Náttúran.is: 15. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/15/hota-loftslagsskussum-refsingu/ [Skoðað:4. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. mars 2008