Stjórnmálaskýrendur tóku eftir því að þegar vatni var hleypt formlega á vélar Kárahnjúkavirkjunar var ekki ein einasta silkihúfa nærstödd. Það var látið duga að yfirverkfræðingur framkvæmdarinnar ýtti á takkann. Skömmu síðar upplýsti yfirverkfræðingurinn í viðtali við Stöð 2 að kostnaður vegna virkjunarinnar væri kominn nokkrum milljörðum króna fram úr áætlun.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur lagt fram á Alþingi beiðni um um skýrslu um kostnað við Kárahnjúkavirkjun. Nýr tónn hjá Landsvirkjun en talsmenn fyrirtækisins hafa lengi haldið því fram að liðurinn "ófyrirséður kostnaður" greiddi allan ófyrirséðan kostnað vegna tafa við framkvæmdir.

Ástæða er til að vekja athygli á grein eftir Árna Pál Árnason, þingmann Samfylkingarinnar í tímaritinu Herðubreið. Þar segir hann:

,,Fulltrúar verkalþðshreyfingarinnar þurftu að leggja nótt við dag til að þvinga verktakafyrirtækin til að virða lágmarkskjarasamninga. Heilbrigðiseftirlit þurfti að ganga eftir því að virt væru ákvæði laga um hollustueftirlit og Vinnueftirlitið þurfti að ganga eftir því að farið væri að vinnuverndarreglum. Þá þurfi að reyna að tryggja að verktakar héldu eftir staðgreiðslusköttum og stæðu þannig ríki og sveitarfélögum skil á opinberum gjöldum. Þrátt fyrir takmarkaðan árangur tókst aldrei að fá verktaka Landsvirkjunar til að virða þá meginreglu íslensks vinnumarkaðar að greidd væru innlend markaðslaun."

Greinilegt að Samfylkingin hyggst ekki láta Vinstri græn ein um að gagnrýna Kárahnjúkavirkjun þó með öðrum hætti sé.

Í Herðubreið er einnig grein eftir Árna Finnsson þar sem lagt er út frá nýrri bók eftir danska tölfræðingsinn Björn Lomborg, "Cool it". Þar segir meðal annars:

,,Frestunarsinnar viðurkenna gróðurhúsaáhrifin og loftslagsbreytingar en telja ekki brýnt - eða jafnvel skaðlegt - að gera neitt að sinni og leggja höfuðáherslu á að lausnin felist í tækniþróun. Bush, Lomborg og Illugi Gunnarsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, gætu talist til þessa hóps."

Góðar fréttir frá Ástralíu.
Nýafstaðnar kosningar í Ástralíu leiddu til að einn ákafasti stuðningsmaður George W. Bush í andstöðu við Kyoto-bókunina, John Howard, hraktist frá völdum. Nýr forsætisráðherra er Kevin Rudd, Verkamannaflokknum, sem lofað hefur að fullgilda Kyoto-bókunina og draga úr lostun gróðurhúsalofttegunda um 60% fyrir 2050.

Myndin er af Kárahnjúkastíflu eins og hún var  í ágúst 2006. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. 

Birt:
26. nóvember 2007
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Íslands „Smánarsagan af Kárahnjúkum“, Náttúran.is: 26. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/26/smanarsagan-af-karahnjukum/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: