Umræða dagsins í dag og undanfarinna daga hefur snúist um gæði rannsókna vegna Hálslóns og stíflumannvirkja við Kárahnjúka. Hæst hefur borið viðtal sem Morgunblaðið birti og tekið var við Desiree D. Tullos, prófessor við Oregon State University . Fulltrúi Landsvirkjunar kom svo fram á NFS og reyndi gamla trixið með að reyna að gera hana tortryggilega. Þetta virkar kannski í stuttbuxnahreyfingunni en þjóðin á rétt á að fram fari opin fagleg umræða þar sem allt er tekið upp á borðið. Jarðfræðilegar forsendur, verkfræðilegar lausnir, fjárhagslegir möguleikar og pólítískar ástæður þessarar ákvörðunar.

 

Það mun ekki hljóma vel í minningarorðum um fallna Fljótdsælingar að helstu sérfræðingar hafi blessað báknið þegar stíflan er brostin og aurflóð eytt blómlegri byggð á þeim fagra stað. Kapp er best með forsjá. Vera má að þetta sé allt gott og blessað en ég vil fá niðurstöður óháðra aðila á málinu.

Sem starfandi stjórnandi á sviði sem flokkað er undir raunvísindi get ég fullyrt að víða leynast gildrur og ekkert er pottþétt. Og sem raunsæismaður verð ég að gera ráð fyrir að allt geti farið á versta veg. Þegar ég tók vinnuvélaréttindin á sínum tíma var mikið rætt um fimmfalt öryggi. Án þess að hafa grandskoðað hönnun mannvirkja við Kárahnjúka leyfi ég mér að efast um að öryggið sé fimmfalt.

Í fréttum frá Landsvirkjun er talað um að hún þoli jarðskjálfta uppá 6,2 á Richter. Hvað með 6,3? Hvað með gliðnun? Ég hef horft með eigin augum á jörðina opnast og hliðrast. Hraun vella ofaní sprungur sem virðast botnlausar. Jörðin býr yfir miklum mætti. Hvað þolir stíflan mikla hliðrun? Missig? Gliðnun? Þolir hún tvo skálfta uppá 6,1? Prófessor Tullos segist hafa miklar efasemdir um það efni sem notað er í uppbyggingu stíflunnar. Og staðsetningu hennar beint ofaná sprungunum. Hún segist hafa fulla ástæðu til að ætla að stíflan leki. Aðrar stíflur sömu gerðar og sumar úr betra efni hafa lekið og jafnvel brostið. Er þá ekki full ástæða til að skoða þetta mál faglega? Láta fara fram mat á áhættu. Er þá ekki full ástæða til að þjóðin viti sannleikann og ALLANN sannleikann í málinu. Og taki síðan ákvörðun byggða á faglegu mati þar sem kostir, fjárhagslegir og félagslegir, eru lagðir á vogarskálar á móti áhættu, efnahagslegri og lífshættulegri.

Er mögulegur gróði svo mikill að við getum leyft okkur að leggja líf Fljótsdælinga að veði. Svo bregðast krosstré sem önnur tré. Stíflur þessarar tegundar hafa brugðist, lekið og jafnvel gefið sig. Stórt spurningarmerki hefur alltaf verið sett við fjárhagslegan ávinning af þessari virkjun. Hún er nú þegar komin vel yfir áætlun og ef við á að bætast ærinn kostnaður við að ráða hollenska drengi til að stinga fingrum í lek göt má ætla að verulegt tap verði af rekstrinum. Það getum við eigendur þessa fyrirtækis ekki reiknað nema okkur séu veittar þær upplýsingar sem við eigum fullan rétt á. Það er verð á orku til Alcoa.

Þannig standa nú tvær spurningar sem enn er ósvarað frá því áður en lagt var af stað:

  1. Mun stíflan halda vatni?
  2. Mun virkjunin borga sig?

Ég kæri mig ekki um þau svör að ég sé gamall hippi sem hafa misst svo mikið hár að ég geti ekki safnað dreadlocks. Eða að ég sé kommavitleysingur.

Það er gott fólk sem býr fyrir austan og margt náskylt mér. Mig langar hvorki að vita af því í örbyrgð því stóri draumurinn breyttist í martröð. Né vita af því kviksettu í jökulleir vegna þess að ofurlaunaðir verkfræðingar unnu ekki samviskusamlega. Heldur létu ginnast af skjótfengnum gróða.

 

Birt:
16. ágúst 2006
Höfundur:
Einar Bergmundur
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Hollenskir piltar með puttann í lekanum“, Náttúran.is: 16. ágúst 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/hollensk_piltar/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 8. maí 2007

Skilaboð: