Menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna UNESCO stendur fyrir degi vatnsins um allan heim. Þema dagsins í ár er „Vatn og menning“. Nokkur umræða hefur verið um vatn í víðum skilningi undanfarið á Íslandi og hefur hún mest snúist um hver eigi að eiga góssið. Það er spurning hvort að sú umræða teljist menning en í öllu falli er hún nauðsynlegt skref og vekur upp djúpar tilfinningar hjá þingmönnum sem og öðrum mönnum. Á þessum tímamótum er því ekki úr vegi að við spyrjum okkur hvernig við umgöngust vatn og hvort að við sólundum því hugsunarlaust. Auðvitað höfum við miklar vatnsauðlindir hér á landi og vinnum nú ljóst og leitt að því að virkja hvern dropa sem fellur og þá sem við látum falla, oft án þess að blikna eða hugsa um hvað það gerir umhverfinu í fasta forminu og heildarjafnvægi landslags, lífríkis og atvinnulífs. Nokkuð virðist einnig vanta upp á að við gerum okkur fulla grein fyrir að vatnsbólin eru viðkvæm fyrir alls kyns mengun og utanaðkomandi áhrifum. Við gætum auðveldlega snúið þeirri gæfu sem fylgir þessu mikla og góða vatni, gegn okkur sjálfum, með græðgi og hugsunarleysi. Höfum því vakandi auga með fjársjóðinum!

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir

Birt:
22. mars 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Til hamingju vatn, Ísland og við sem búum hér - 22. mars er dagur vatnsins“, Náttúran.is: 22. mars 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/21/dagur_vatnsins/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. mars 2007
breytt: 4. maí 2007

Skilaboð: