Kortlagning landgerða á Íslandi
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og starfsfólk Landmælinga kynntu í dag niðurstöður CORINE-verkefnisins. Meðal þess sem fram kemur í niðurstöðunum er að byggingarsvæði stækkuðu um 1055% árin 2000 til 2006 og jöklar minnkuðu um 1,63%. Niðurstöðurnar eru birtar í heild sinní skýrslu sem gefin hefur verið út (http://atlas.lmi.is/corine/) og á vefsjá Landmælinga (http://atlas.lmi.is/corine/) sem opnuð var í dag.
Í CORINE-verkefninu er landið flokkað í fimm grunnflokka sem skiptast í 44 mismunandi landgerðir. Ísland einkennist umfram allt af náttúrulegum landgerðum en um 88% landsins falla í þá flokka og eru stærstu landgerðirnar mólendi, mosi og kjarr (35%), ógróin hraun og urðir (23%), hálfgróið land (13%), jöklar (10,5%) og mýrar (6,3%). Í verkefninu var Ísland flokkað fyrir árið 2000 annars vegar fyrir árið 2006 en alls skipti um 0,62% af yfirborði Íslands um landgerð á þessu tímabili. Langmest breyting varð á byggingarsvæðum, eða 22,57 km2 sem er aukning um 1055%. Þá stækkuðu iðnaðar- og verslunarsvæði um 20% sem skýrist aðallega af virkjunarframkvæmdum og aukning sumarbústaðasvæða stækkuðu þann flokk um 15%. Einnig kemur fram að jöklar landsins minnkuðu um rúmlega 180 km2 (eða 1,63%) milli áranna 2000 og 2006.
Gögnin verða nýtt til þess að fylgjast með breytingum á landnotkun auk þess sem þau nýtast sem grundvöllur að umhverfisstjórnun og í margvíslegri vinnslu í landupplýsingakerfum.
Verkefnið sem nefnist CORINE (Coordination of Land Information on the Environment) var unnið í samvinnu við sveitarfélög landsins og fjölda íslenskra stofnana. Sérfræðingar Umhverfisstofnunar Evrópu sáu um ráðgjöf og gæðaeftirlit.
Mynd: Corine Vefsjá Landmælinga.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Kortlagning landgerða á Íslandi“, Náttúran.is: 26. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/26/kortlagning-landgeroa-islandi/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.