Orkudrykkir
Drykkir sem neytt er með það að markmiði að ná fram örvandi áhrifum eru almennt kallaðir orkudrykkir. Þetta samheiti er þó villandi þar sem það gefur til kynna að um orkugefandi drykki sé að ræða. Svokallaðir orkudrykkir innihalda samt ekki meiri orku, þ.e. hitaeiningar, en margir aðrir drykkir og í dag eru jafnvel til “light” orkudrykkir sem eru í raun hitaeiningasnauðir. Svokallaðir orkudrykkir innihalda allir koffín og flestir innihalda þar að auki önnur virk efni, svo sem ginseng eða extrökt úr öðrum plöntum. Auk þess geta þessir drykkir innihaldið vatnsleysanleg vítamín auk tauríns, inositols og glucuronolactons.
Skilgreiningar og reglur
Engin almenn skilgreining er til fyrir svokallaða orkudrykki og innan Evrópu eru hvorki samræmdar reglur um hvaða efni þessir drykkir mega innihalda né í hvaða magni. Flestir svokallaðir orkudrykkir á markaði á Íslandi innihalda hreint koffín og/eða gúaranaþykkni. Gúarana er afar koffínrík suður-amerísk planta. Auk þess er ginseng töluvert notað í svokölluðum orkudrykkjum, en það er talið hafa hressandi og létt örvandi áhrif.
Austurríki er eina landið í Evrópu sem hefur skilgreint innihaldsefni og hámark þeirra í orkudrykkjum í sérstakri reglugerð.
Orkudrykkir – almenn matvæli
Svokallaðir orkudrykkir eru ekki svaladrykkir í venjulegum skilningi. Þeir eru í raun hannaðir og framleiddir fyrir sérstakan markhóp með ákveðin áhrif í huga. Þrátt fyrir þetta eru þeir flokkaðir sem almenn matvæli. Þetta þýðir að svokallaðir orkudrykkir eiga að fara eftir reglugerðum sem gilda um almenn matvæli. Má þar til dæmis benda á reglugerð nr. 413/2005 um bragðefni sem m.a. fjallar um hámark koffíns í matvælum og séu orkudrykkir vítamínbættir skulu þeir uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 855/2007 um íblöndun bætiefna í matvæli.
Hvaða reglur gilda um koffínmagn?
Samkvæmt reglugerð nr. 413/2005 um bragðefni er leyfilegt hámark koffíns í drykkjarvörum 150 mg á lítra. Þetta hámark gildir fyrir allar drykkjavörur, þ.e. venjulega gosdrykki og svokallaða orkudrykki.
Leyfilegt hámark koffíns í drykkjarvörum á Íslandi:
150 mg/l eða 15 mg/100 ml
Í síðustu neyslukönnun Manneldisráðs (nú Lþðheilsustöðvar) árið 2002 kom fram að neysla svokallaðra orkudrykkja er nokkuð vinsæl meðal ungs fólks, sérstaklega á aldrinum 15 – 19 ára. Þó að langmesta koffínneysla ungmenna sé vegna neyslu venjulegra gosdrykkja er nauðsynlegt að fylgjast áfram vel með koffínmagni í svokölluðum orkudrykkjum.
Koffín í orkudrykkjum
Innihaldsefni í svokölluðum orkudrykkjum geta verið nokkuð mismunandi eftir drykkjartegund og magn einstakra innihaldsefna er afar breytilegt. Þannig getur magn koffíns í orkudrykkjum verið hærra en leyfilegt er á Íslandi, þ.e. 150 mg/l. Erlendis eru t.d. víða á markaði drykkir sem innihalda 320 mg/l af koffíni.
Koffín getur haft ýmis óþægileg áhrif á líðan fólks, svo sem hjartsláttartruflanir, svefnleysi og jafnvel kvíðatilfinningu ef koffíns er neytt í stórum stíl. Börn eru almennt viðkvæmari fyrir koffíni en fullorðið fólk og því þykir neysla koffíns óæskileg fyrir börn.
Orkudrykkir og áfengi
Ýmsar matvælastofnanir í Evrópu hafa gefið út tilmæli um að takmarka neyslu svokallaðra orkudrykkja, sérstaklega þeirra drykkja sem innihalda taurín og glucuronlacton ásamt koffíni. Þessi viðvörun var gefin út í ljósi niðurstaðna sænskrar rannsóknar þar sem sýnt var fram á að ef áfengi er blandað með orkudrykkjum eða þeirra neytt samhliða mikilli hreyfingu getur það valdið alvarlegum hjartsláttartruflunum sem í versta falli geta leitt til skyndilegs dauðsfalls. Þrátt fyrir að þörf sé á enn ítarlegri rannsóknum er engu að síður ráðlagt að slökkva ekki þorsta með orkudrykkjum né blanda þeim út í áfengi.
Markaðssetningu svokallaðra orkudrykkja er yfirleitt beint að ungu athafna- og/eða íþróttafólki. Þess vegna er ungt fólk aðaláhættuhópurinn þegar kemur að ofneyslu svokallaðra orkudrykkja.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Orkudrykkir“, Náttúran.is: 22. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/22/orkudrykkir/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.