Tillaga að sátt um virkjanamál og náttúruvernd - Árni Finnsson form. NSÍ
Það er einungis á færi stjórnvalda, ríkisstjórnar og/eða Alþingis að skapa grundvöll til að ná meiri sátt um þessi mál en hefur verið en standi vilji stjórnvalda til þess gætu eftirfarandi atriði legið til grundvallar:
Í fyrsta lagi að lánsfé til nýrra virkjana verði ekki með ríkisábyrgð heldur verkefnafjármagnað – líkt áformað var með virkjanir fyrir austan en slegið var út af borðinu þegar lök arðsemi virkjana þar kom í ljós.
Í öðru lagði að álfyrirtæki sem hyggjast reisa álver á landsbyggðinni fái ekki ríkisstyrki líkt og þann sem veittur var Alcoa Fjarðaáli eða sem nemur um 2,6 milljarðar króna.
Í þriðja lagi að skuldbindingar Íslands gagnvart Kyoto-bókuninni verði að fullu virtar þannig að ný stóriðja greiði fyrir mengunarkvóta og að gerð verði áætlun um að leggja slíkt gjald á eldri stóriðju einnig
Í fjórða lagi að verðmæti lands sem orkufyrirtæki vilja leggja undir starfsemi sína verði metið í samræmi við bestu aðferðir sem tiltækar eru og að komið verði á fót alþjóðlegri rannsóknarstofnun sem vinni að slíku mati á Íslandi Orkufyritæki greiði fullt verð fyrir það land sem fer undir virkjanir.
Í fimmta lagi að samninganefnd Íslands í raforkusamningum verði styrkt og til leiksins fengnir færustu sérfræðingar í heimi á sviði raforkusamninga (árangur Brasilíumanna í samningum við Alcoa verði hafður að leiðarljósi). Ennfremur, að amningar um raforkuverð verði aðgengilegir almenningi þannig að hægt sé að bera saman virkjunarkost við þann landnýtingarkost sem felst í náttúruvernd.
Í sjötta lagi að gerð verði krafa um að beitt verði umhverfisvænni tækni við framkvæmdir. Það þýðir meðal annars að háspennulínur verði lagðar í jörðu (Hellisheiði), að orkuver verði sem mest neðanjarðar og að jörð verði sem mest komið í upprunalegt horf að framkvæmdum loknum (í Noregi er ysta lag af veðruðum landmyndunum geymt sérstaklega og því komið fyrir á sínum stað aftur að framkvæmd lokinni, þannig að fordæmin eru fyrir hendi).
Þessi listi er ekki tæmandi og fortekur á engan hátt kröfur náttúruverndarhreyfingarinnar um verndun Þjórsárvera, Langasjávar, Kerlingafjalla, Torfajökulssvæðisins eða Héraðsvatna. Ég hygg þó að verði þessi atriði lögð til grundvallar frekari atvinnuuppbyggingu muni hægja verulega á stóriðjuframkvæmdum og minni hætta verði á slysum á borð við Kárahnjúkavirkjun. Þetta eru allt atriði sem samtök atvinnulífsins ættu að geta skrifað upp á og stutt. Mikilvægast er þó að iðnaðarráðherra sjái og skilji nauðsyn þess að sérréttindi orkufreks iðnaðar verði afnumin og að hann leggi þessi atriði til grundvallar við framtíðarstefnumótun.
10. 10. 2006.
Árni Finnsson.
Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Tillaga að sátt um virkjanamál og náttúruvernd - Árni Finnsson form. NSÍ“, Náttúran.is: 18. október 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/till_satt_virkjmal/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 15. maí 2007