Siv Friðleifsdóttir er fyrsti flutningsmaður að þingsályktunartillögu sem ber titilinn „... hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.” Ekki er ljóst hvað tillagan felur í sér en samkvæmt flutningsmönnum er það markmiðið að Ísland fái frekari undaný águr fyrir útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju í samningaviðræðum um framhald Kyoto-bókunarinnar sem fram fara í Kaupmannahöfn í desember.

Samtals nemur aukning í losunarheimildum Íslands nær 60% á tímabilinu 2008 - 2012 miðað við 1990. Næst þar á eftir kemur Ástralía með 8% aukningu. Nú skal sækja mengunarheimildir fyrir stóriðju langt umfram þær sem Ísland aflaði sér þegar endanlega var gengið frá Kyoto-bókuninni í Marakech haustið 2001.

Raunvísindadeild Háskóla Íslands hefur með umsögn sinni til umhverfisnefndar Alþingis lagst gegn því að tillagan verði samþykkt. Það hafa einnig Náttúruverndarsamtök Íslands gert sem og ungliðar Hjálparstarfs Kirkjunnar.

Þetta leiðindamál  er nú orðið eitt helsta keppikefli Sjálfstæðisflokksins og þingflokksformanns Framsóknarflokksins, Sivjar Friðleifsdóttur.

Sögufölsun:
Í greinargerð vísar Siv Friðleifsdóttir og aðrir flutningsmenn í Bali-vegvísinn og benda á að „samkvæmt honum er ætlunin að ljúka gerð ný s alþjóðlegs samkomulags um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum á þingi samningsaðila í Kaupmannahöfn í desember 2009.”

En umhverfisráðherrann fyrrverandi skautar yfir mikilvægasta atriði þeirra pólitísku skuldbindinga sem Bali-vegvísirinn felur í sér. Nefnilega, að á fundinum í Bali lýstu iðnríkin (Ísland þar á meðal) yfir vilja sínum til að ná samkomulagi í Kaupmannahöfn sem felur í sér samdrátt í útstreymi iðnríkjanna um 25 – 40% fyrir árið 2020 en viðmiðunarárið er áfram 1990. Jafnframt, að samningar í Kaupmannahöfn skuli miða að því að tryggja að meðalhitnun andrúmslofts Jarðar haldist innan við 2 gráður á Celsíus miðað við upphaf iðnbyltingar.

Enn síður minnast flutningsmenn tillögunar á að útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi hefur aukist um 24% frá 1990, eða 14% umfram heimildir, og við blasir við að Ísland mun ekki geta staðið við skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni þrátt fyrir rúmar heimildir og undaný águr.
 
Raunar heldur Sjálfstæðisflokkurinn því fram í landsfundarályktun að Ísland sé „eitt fárra ríkja sem stendur við skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto-samkomulaginu …”

Ætli umheimurinn sé ekki orðin eylítið þreyttur á þessum sjálfumglöðu íslensku ráðamönnum. Pólitíkusum sem geta ekki einu sinni farið rétt með grundvallaratriði Bali-vegvíssins. Kröfugerð sem byggir á fölskum málflutningi er Íslandi ekki til framdráttar.
Birt:
8. apríl 2009
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Sivjar-spjöll eða „sögufölsun“ “, Náttúran.is: 8. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/08/sivja-spjoll-eoa-sogufolsun/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: