Reykjavíkurborg veitti í sumar styrki til nýsköpunar í ferðaþjónustu í fyrsta sinn. Efnt var til hugmyndasamkeppni af þessu tilefni og bárust á sjöunda tug hugmynda til Höfuðborgarstofu. Skipaður var starfshópur til að fara yfir hugmyndirnar en í honum sátu fulltrúar frá menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur, Höfuðborgarstofu, Nýsköpunarmiðstöð, Útflutningsráði og Samtökum ferðaþjónustunnar.

Sjö verkefni hlutu styrki, samanlagt 7 m.kr.

  • Vatnavinir hlutu styrk til að þróa áfram hugmyndir um fjölbreyttari baðmenningu í Reykjavík. Vatnavinir vilja leggja áherslu á náttúruupplifun innan borgarmarkanna og þannig auka fjölbreytnina og styrkja ímynd Reykjavíkur ennfrekar sem ´Heilsuborg´.
  • Þórdís Ágústsdóttir hlaut styrk til að vinna að Ljósmyndasýningu í Reykjavík sem haldin verður í fyrsta sinn árið 2011.
  • Fyrirtækið Náttúran.is hlaut styrk til að hanna og þróa grænt Reykjavíkurvefkort sem dregur grænu kostina í borginni sérstaklega fram.
  • Inga Jessen hlaut styrk til að hanna og viðhalda vefsíðunni Freecitytravel.com – heimasíða þar sem ferðamenn geta nálgast fjölbreyttar upplýsingar um ókeypis afþreyingu í Reykjavík á einum stað.
  • Sigurður Hall hlaut styrk til að koma upp og viðhalda íslenskri gourmet matarsíðu byggðri á og tengdri Food and Fun hátíðinni. Markmiðið er að kynna Reykjavík sem heimsklassa matarborg – borg sem vert er að heimsækja vegna veitingastaðanna og matarins.
  • Valgeir Guðjónsson hlaut styrk til að setja á svið sýninguna Iceland in reverse: A musical journey from present Iceland to the past. Þetta er sýning með leik og söng um sögu Íslands ætluð ferðamönnum. Sjá einnig Reykjavikihospitality.com.

Hönnunarmiðstöð Íslands hlaut styrk til að efna til samkeppni um Reykjavíkurminjagrip. Keppnin er öllum opin og felst í því að hanna nýjan og einkennandi minjagrip fyrir Reykjavík. Verðlaunatillagan skal endurspegla vörumerki Reykjavíkur sem ferðamannaborgar, Reykjavík - Pure Energy. Vörumerkið vísar til þeirrar hreinu orku sem sem Reykjavík býr yfir í fleiri en einni merkingu: í náttúrunni, vatninu, menningunni og sköpunarkraftinum. Takist vel til má ætla að gripurinn gæti orðið einkennandi fyrir Reykjavík og seldur víða í borginni. Besta hönnunarhugmyndin hlýtur 600.000 kr. verðlaun.
Sjá nánar um verðalaunin hér.

Mynd: Áslaug Friðriksdóttir formaður menningar og ferðamálaráðs ásamt þremur aðstandendum vatnavina þeirri Aðalheiði Lilju Guðmundsdóttur, Maríu  Sjöfn Dupuis Davíðsdóttur og Olgu Guðrúnu Sigfúsdóttur við afheningarathöfnina í Ráðhúsinu.

Birt:
15. október 2009
Höfundur:
Reykjavik.is
Tilvitnun:
Reykjavik.is „Nýsköpun í ferðaþjónustu í Reykjavík“, Náttúran.is: 15. október 2009 URL: http://nature.is/d/2009/10/15/nyskopun-i-feroathjonustu-i-reykjavik/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: