Við heimsóttum Guðfinn Jakobsson í Skaftholti á dögunum og spurðum hann nokkurra spurninga um lífræna ræktun. Ræktun og starfsemin öll í Skaftholti er stunduð eftir mannspekikenningum (Anthroposophie) Rudolph Steiner. Ræktunin er vottuð lífræn og grænir fingur Guðfinns eru margrómaðir. Því fannst Grasaguddu við hæfi að reyna að fá hann til að leggja visku sína á borð fyrir okkur hin ófróðari.

Eitt af því sem að maður rekur augun í við heimsókn í Skaftholt er hve moldin er falleg, eins og að nostrað væri við hana daginn út og daginn inn. Guðfinnur sagði að hann notaði eingöngu húsdýraáburð og moltu af búinu i moldina, ekkert kæmi annars staðar frá í hans gróðurreyti.

Við spurningunni hvernig hann skipti ræktun niður á reiti og hvort ekki þyrfti að hvíla moldina svaraði hann því svo til að hæglega megi rækta rótargrænmeti í sama reit í fjögur ár en að fjórum árum liðnum þyrfti að skipta yfir í blaðgrænmeti því jurtirnar eru misfrekar á jarðveginn.

Kál og púrra nýta t.a.m. áburðinn ekki vel og skilja heilmikið eftir. Á milli áranna fjögurra er gott að hvíla jarðveginn með því að rækta í honum kryddjurtir því þær eru þurftaminnstar. Alger hvíld jarðvegsins sé hér ekki nauðsynleg enda ekki um þaulpínda verksmiðjuframleiðsu að ræða. Alltaf sé tekið tillit til þarfa jarðvegsins og að ofnýta ekki, þá helst jafnvægi án notkunar tilbúins áburðar. Tilbúinn áburður er að sjálfsögðu algert tabú í Skaftholti eins og á öllum lífrænum búum.

Um virkni grænmetis á mismunandi andleg og líkamleg kerfi okkar sagði Guðfinnur m.a. að rótargrænmeti virki sérstaklega á höfuð og lungu, blaðgrænmeti sé gott fyrir öndunarkerfið og blóðrásina en ávextir jurta, s.s. ber, fræ og ávextir virka á meltingarveginn, útlimi og á viljann. Það sé því nauðsynlegt að holl máltíð samanstandi af öllum þessum plöntuhlutum.

Myndirnar eru teknar þ. 06.06.2007.
Efsta myndin: Guðfinnur Jakobsson í gróðurhúsinu í Skatholti, í baksýn er vínviðurinn sem hinar myndirnar eru af.
Myndin hér að ofan t.v.:Vala Smáradóttir skoðar vínberjaklasa á vínviðnum.
Neðri myndin t.h.: Nærmynd af einum vínberjaklasanna.
Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
7. júní 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lífræn ræktun í Skaftholti“, Náttúran.is: 7. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/07/lfrn-rktun-skaftholti/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 10. júlí 2008

Skilaboð: