Opið hús í Skaftholti - lífræn landbúnaðarframleiðsla á Suðurlandi
Laugardaginn 26. ágúst, kl. 14:00 - 17:00 mun lífræna búið Skaftholt í Gnúpverjahreppi opna dyr sínar eins og gert hefur verið undanfarin fimmtán ár. Að Skaftholti er starfrækt heimili fyrir 8 þroskahefta einstaklinga þar sem lifað er og starfað í sátt við náttúruna. Að Skaftholti hefur verið stundaður lífrænn búskapur allt frá árinu 1980 og er heimilið sjálfum sér nægt með búsafurðir allar. Þar búa nú um 16 manns en 20 manns koma að starfseminni á einn eða annan hátt. Ræktað er lífrænt grænmeti bæði úti og í gróðurhúsum auk þess sem á búinu er ræktað lífrænt korn og dýrahald er eins og á bestu bæjum, kþr, kindur og hestar. Á laugardaginn gefst gestum tækifæri á að kynna sér starfsemina og versla grænmeti beint frá býlinu. Grænmeti eins og grænkál, steinselju, rauðrófur, tómata, rauðkál og hvítkál. Veitingasala verður einnig starfrækt á opna deginum þar sem í boði er kaffi eða jurtate með heimabakkelsi. Fyrir utan að rækta grænmeti vinnur búið allar mjólkurvörur til heimilisins sjálft s.s. osta, jógúrt, rjóma og smjör. Rekstraraðilar búsins eru þau Aaltje Bakker og Guðfinnur Jakobsson.
Skaftholt er um 3 km frá Árnesi. Sjá leiðbeiningar.
Myndin er tekin af púrruakri í Skaftholti þ. 26. 08. 2006. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Opið hús í Skaftholti - lífræn landbúnaðarframleiðsla á Suðurlandi“, Náttúran.is: 24. ágúst 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/20/op_hus_skafholt/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. mars 2007
breytt: 2. júní 2011