Vottunarstofan Tún hefur staðfest að fyrirtækið Sóley Organics í Hafnarfirði uppfylli kröfur um lífrænar aðferðir við framleiðslu á snyrti- og heilsuvörum og á tejurtum. Vottorð þessa efnis var formlega afhent 9. nóvember 2010.

Sjá; Vottað lífrænt - Tún.

Sóley Organics er í hópi fyrstu Hafnfirsku fyrirtækjanna sem hljóta vottun til lífrænnar framleiðslu. En slík starfsemi hefur nú skotið rótum í ríflega þriðja hverju sveitarfélagi landsins.

Með vottun Túns er staðfest að Sóley Organics noti einungis viðurkennd hráefni við framleiðslu á hinum vottuðu vörum, að aðferðir við úrvinnslu og blöndun samræmist reglum um lífræna framleiðslu, og að gæðastjórnun, skráningar og merkingar uppfylli settar kröfur.

Fyrirtækið Sóley Organics er kennt við eiganda þess og framkvæmdastjóra, Sóleyju Elíasdóttur. Sóley, sem áður vann að leiklist, venti sínu kvæði í kross og hefur um nokkurra ára skeið unnið að þróun á snyrti- og heilsuvörum af ýmsum toga.

Sóley Organics hagnýtir meðal annars villtar íslenskar jurtir til framleiðslu á jurtaþykknum og jurtaseyðum sem blandað er öðrum vottuðum lífrænum hráefnum til framleiðslu á andlitskremi, andlitsvatni, húðsmyrslum og húðhreinsimjólk. Vottun fyrirtækisins nær nú þegar til fimm vörutegunda.

Lífræn framleiðsla á Íslandi

Hér á landi stunda nú að jafnaði á milli 60 og 70 aðilar vottaða lífræna ræktun, vinnslu lífrænna hráefna og söfnun náttúruafurða. Þessir aðilar framleiða nokkur hundruð tegundir vottaðra afurða fyrir markað hérlendis og í vaxandi mæli einnig til útflutnings.

Framleiðsla á lífrænum snyrti- og heilsuvörum færist mjög í vöxt um allan heim og gætir þess einnig hér á landi. Notkun snyrtivara er þáttur í daglegu lífi flestra heimila, en neytendur eru í auknum mæli meðvitaðir um mikilvægi þess að innihald slíkra afurða sé heilsusamlegt og í sem ríkustum mæli af náttúrulegum toga.

Vottaðar lífrænar afurðir og náttúruafurðir hafa þá sérstöðu á markaði að allur ferill þeirra, frá ræktun eða söfnun hráefna, til pökkunar í neytendaumbúðir, er undir eftirliti óháðs aðila, þ.e. vottunarstofu sem fylgist með því að uppruni og meðferð afurðanna sé í samræmi við alþjóðlegar og íslenskar kröfur um lífræna framleiðslu.

Vottunarstofan Tún hóf vottun lífrænna afurða á Íslandi árið 1996 og í Færeyjun árið 2006. Síðan þá hafa yfir 80 bændur og fyrirtæki hlotið vottun. Auk þess vottar Tún nú framleiðslu átta fyrirtækja á náttúruvörum og aðföngum til lífrænnar framleiðslu.

Sjá yfirlit yfir aðila með lífræna vottun frá Túni hér á Grænum síðum.

Birt:
9. nóvember 2010
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Sóley Organics fær lífræna vottun“, Náttúran.is: 9. nóvember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/11/09/soley-organics-faer-lifraena-vottun/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: