Í framhaldi af ákalli um þjóðarsátt hefur sú útfærsla verið lögð til, að stíflan verði boðin föl, þ.e. að öllum jarðarbúum standi til boða að eignast hlut í stíflunni og fái að launum nafn sitt meitlað á stífluvegginn. Það þyrfti aðeins 1% íbúa OECD-ríkjanna, eða að um 8 milljónir manna borgi af sínum hlut 1.200 kr. á ári (með kaupsamningi til 10 ára). Hver hlutur kostaði s.s. 12.000 kr. Það væri einn möguleiki til að fá fjármagn til að útvega álverinu á Reyðarfirði orku með öðrum hætti en að fórna Jöklu og gríðarlegum nátttúruverðmætum undir Hálslón auk allra áhættuþáttanna sem því myndi fylgja (neikvæð arðsemi, hættu á stíflurofi, sandfok o.s.fr.). Þó yrði álverinu í Reyðarfirði ekki fórnað enda ekki von til að samstaða yrði um það.

Á þennan hátt er möguleiki á að hagnast „örugglega“ á stíflunni, þar sem um „minnismerki um samvisku og hugrekki þjóðar sem sér að sér og er ekki hrædd við að viðurkenna mistök sín“, og læra af þeim. Enda almennt og viðurkennt viðhorf til þess að viðurkenna mistök sín að maður sé „maður meiri af“?. Það er í raun viðskiptahugmyndin á bak við að gera stífluna að fjölsóttum ferðamannastað, auk sérstöðunnar sem er óumdeilanleg á heimsvísu. Kárahnjúkastífla yrði eitt af undrum veraldar, byggð á viðhorfsbreytingu og skynsemi heillar þjóðar, þrungin tilgangi sem er æðri en skammvinn og ótrygg hagnaðarsjónarmið til örfárra ára. Þessi hugmynd er eins og smyrsl á opin sár og gæti auðveldlega verið raungerð. Stolt nokkurra stjórnmálamanna og sérfræðinga á sviði stífluhönnunar eru ekki nokkur ástæða til að heil kynslóð þjóðarinnar bþði afhroð og skömm um allar aldir. -

Jökulsárgangan verður gengin í Reykjavík, frá Hlemmi kl. 20:00, á Akureyri, frá Samkomuhúsinu kl. 20:00 og á Vestfjörðum, frá Silfurtorgi á Ísafirði kl. 20:00. Á Egilsstöðum verður gengið frá Söluskála KHB (Esso) kl 20:00 og gengið sem leið liggur að Lagarfljótsbrú.
Þeir sem komast ekki á ofangreinda staði vegna bílleysis eða annara vandkvæða geta „lagt orð í belg“ hér á síðunni og þannig gætu vel hugsanlega orðið til samflotsmöguleikar á göngustaði. Er t.d. einhver á leið frá Selfossi á gönguna í Reykjavík í kvöld?

Myndin er af Kárahnjúkastíflu þ. 22. 08. 2006. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

 

Birt:
26. september 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Kauphugmyndin - Kárahnjúkastífla, píramídi Íslands!“, Náttúran.is: 26. september 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/karahnj_piramidi/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 3. maí 2007

Skilaboð: