Draga verður úr losun sóts og metans til að sporna gegn loftslagsbreytingum á Norðurskautssvæðinu. Þetta segja norrænu umhverfisráðherrarnir í sameiginlegri yfirlýsingu sem gefin var út í lok fundar þeirra á Svalbarða í gær.

Sót og metan hafa mikil áhrif á loftslag þrátt fyrir stuttan líftíma í andrúmsloftinu. Með því að draga úr losun slíkra efna er hægt að hafa mikil áhrif á bæði loftslag og heilsu. Þannig má draga úr hlýnun sem er hröð á Norðurskautinu og hefur leitt til þess að ísinn þar hefur bráðnað umtalsvert síðustu 30 árin, bæði á hafi og í landi.

„Það er þörf fyrir að sett verði ákvæði um aðgerðir vegna þessarar losunar í mismunandi alþjóðlega umhverfissáttmála, en það mun taka tíma áður en slíkir samningar hafa nægileg áhrif. Þess vegna er mikil þörf á annars konar framtaki sem getur dregið hratt úr losun sóts og metans. Ákvarðanir þar að lútandi þurfa að beinast bæði að þróuðum löndum og þróunarríkjunum,“ segja umhverfisráðherrarnir.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra undirstrikar að langstærsti hluti losunar sóts og metans komi frá löndum utan Norðurlandanna. „Þess vegna verðum við að taka á vandanum bæði heima við og á alþjóðavísu,“ segir hún. Á Íslandi er notkun viðar og kola til eldsneytis nær engin og losun sóts því minni en í löndum þar sem svo háttar til. Þá bendir hún á hið mikilvæga samspil aðgerða til að draga úr losun koldíoxíðs og sóts í því skyni að ná markmiðum í loftslagsmálum, auk þeirra jákvæðu afleiðinga sem minni losun mengandi efna og gróðurhúsalofttegunda hefur á lýðheilsu og matvælaöryggi í heiminum.

Norrænu umhverfisráðherrarnir vilja í sameiningu styrkja aðgerðir í því skyni að draga úr losun sóts og metans bæði á landsvísu og alþjóðlega. Hægt er að taka ákvarðanir um slíkar aðgerðir á alþjóðlegum vettvangi. Norrænu umhverfisráðherrarnir leggja þó áherslu á að umfangsmikill samdráttur í losun koldíoxíðs sé enn mikilvægastur þegar kemur að því að draga úr hlýnun jarðar og bráðnun jökla.

Löndin munu meta þörfina fyrir sérstakar landsáætlanir um að draga úr losun. Að auki gæti komið til greina að útfæra norræna aðgerðaáætlun sem myndi byggja á aðstæðum í hverju landi fyrir sig.

Ákveðið hefur verið að skipuleggja norræna fagráðstefnu þann 7. – 8. Júní í því skyni að styðja við þessa vinnu. Þar mun fagfólk deila reynslu sinni af losunarbókhaldi landanna og hagkvæmum aðgerðum til að draga úr losun auk þess sem þörfin fyrir að útfæra sérstakar landsáætlanir verður í forgrunni.

Meðan á dvöl norrænu ráðherranna á á Svalbarða stóð heimsóttu þeir m.a. umhverfisrannsóknarstöðina í Nýja-Álasundi. Þá ræddu þeir umhverfismál í tengslum við umhverfisráðstefnu leiðtoga ríkja heims sem stendur fyrir dyrum í Ríó í júní nk. í tilefni af því að 20 ár eru liðin frá heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, um áframhaldandi þróun umhverfismerkisins Svansins og nýja norræna umhverfisaðgerðaáætlun sem nú er í smíðum.

Ljósmynd: Frá Jökulsárlóni, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
28. mars 2012
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Draga verður úr losun sóts og metans til að sporna við bráðnun jökla“, Náttúran.is: 28. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/28/draga-verdur-ur-losun-sots-og-metans-til-ad-sporna/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: