Vekja þarf athygli á fjölbreytninni
Aðdráttarafl íslenskrar náttúru er bundið við alltof fáa staði, og hægt væri að bæta markaðssetningu til muna á langtum fleiri stöðum á landinu samhliða því að efla innviði og móttökuskilyrði þeirra staða fyrir ferðafólk. Til dæmis er hægt að leggja áherslu á hið afskekkta og auðlegð þess.

Í víðernunum er ótal fleiri möguleika hægt að nýta en nú er gert, t.d er ótrúlegt að ekki sé gert meira úr Hvalfirðinum og möguleikum sem þar leynast; norðurljósaskoðun, fuglaskoðun (twithers), göngur, sveppir, ber, kræklingur, silungur, matarnámskeið, veitingaparadís og fjörðurinn sem aðdráttarafl. Ofar í landinu er hægt að velta fyrir sér möguleikum í ísvetrarferðum, óveðursferðum, veiði gegnum ís, að skapa umbætur á mögulegum skíða- og skautastöðum.

Almennt þarf að huga að því að breyta óhagstæðum aðstæðum í hagstæðar. Til dæmis væri hægt að bjóða upp á óveðursferðir og óvissuferðir, án þess þó að stofna ferðamönnum í hættu. Einnig mætti leggja áherslu á útkjálka landsins með upplifun á einangrun og sögu þjóðarinnar fjarri miðju siðmenningar.

Virkja þarf ferðamálayfirvöld og eyrnamerkja átak í markaðssetningu með ofantöldum áherslum (hluti af 600 milljóna kr. fjárveitingu sem átti að fara í eina kaupsýningu í Kína gæti ný st betur í þessa þágu). Muna að við getum búið til eftirspurn og aðdráttarafl.

Tenging ferðaþjónustu við aðra atvinnuvegi
Tengja þarf náttúru- og menningarauð betur við afþreyingu sem í boði er, til dæmis í gegnum heilsutengda ferðamennsku og menntatengda ferðamennsku. Það þarf til dæmis að endurvekja sögurnar í landslaginu gegnum skapandi leiðsögn og auka veg og virðingu fyrir gildi faglegrar leiðsagnar á öllum sviðum; listsköpun, skynjun og sjónræn miðlun býður upp á ótal ónýtta möguleika af þessu tagi. Tengja þarf ferðaþjónustu og aðra atvinnuvegi betur saman. Að bjóða innlendum sem erlendum ferðamálafræði-, jarðfræði-, landfræði-, fornleifafræði- og vistfræðinemendum og fleirum að sameina nám og ferðalög með því að dvelja við nám sitt út um land og kynnast því af eigin raun. Að bjóða upp á heilsutengt nám í heilsustofnunum víða um land og tengja það upplifun af landinu. Að bjóða upp á dvöl í heilsulindum út um land og ferðalögum á milli þeirra með tilheyrandi annarri þjónustu.

Lengja þarf ferðamannatímabilið
Vandi ferðaþjónustu er stutt tímabil og mikil ásókn í fáa staði. Þetta ójafnvægi í dreifingu ferðafólks í tíma og rúmi þarf að laga og uppræta hugarfar um að mikilvægast sé að dæla ferðamönnum inn í landið án fyrirhyggju. Þannig þurfa móttökuskilyrði að vera í lagi, ekki bara með tilliti til innviða heldur og efla fagmennsku í þjónustu sem boðið er upp á og tryggja góð starfsskilyrði. Þannig væri hægt að leggja áherslu á að verðlauna góða vinnustaði með ánægðu starfsfólki. Sníða þarf opnunartíma ferðaþjónustu, safna, veitingahúsa að raunverulegum ferðamannastraum á svæðinu en ekki að fyrirframgefnum dagsetningum til dæmis 31. ágúst. Viðurkenna menntun á mismunandi menntastigum í ferðamálum og efla rannsóknir á sviði ferðaþjónustu. Endurskoða þarf markaðssetningu á ferðamannaparadísinni Íslandi. Tengja markaðssetningu á ferðamennsku við markaðssetningu á menntun og heilsubót.

Sjálfbærni í náttúrutengdri ferðamennsku
Efla þarf greinar sem veita möguleika á sjálfbærni í náttúrutengdri ferðamennsku með alþjóðlegum verkefnum sem verkefnastjórnað er héðan. Til dæmis Wild North, Heimur norðursins og Eco-túrismi fyrir austan.

Virkja þarf ferðamannaaðstöðu á landsbyggðinni á dauðum tímum. Efla má greinar sem bjóða upp á afleidda möguleika t.d sjóstangaveiði (sem gæti verið blanda veiðiferðamennsku og nautnaferðar með matreiðslu á afla). Opna hugarfylgsni aðila í ferðaþjónustu á möguleikum í umhverfisvottunum. Koma þarf í veg fyrir sóun á verðmætum.

Eins konar sjálfboðaliða (voluntarism) ferðamennsku mætti efla á ólíkum sviðum, eins og Umhverfisstofnun hefur verið að feta sig áfram með um viðhald á stígum. Til dæmis gætu bændur, sem tök hafa á, nýtt uppbyggða ferðaþjónustuaðstöðu á bænum og boðið ferðamönnum upp á að hjálpa til við sveitastörfin, t.d. í sauðburði og slætti eða þar sem því verður komið við.

Eins mætti koma upp ættleiðingarmöguleikum á fleiri tegundum húsdýra og aðstoða þannig bændur (svipað og hefur verið gert á Snæfellsnesi fyrir sauðfé með góðum árangri). Eins mætti virkja annars atvinnulausa til mannvirkjagerðar og umbótaverkefna á helstu núverandi áfangastöðum ferðamanna.

Hlúa þarf að grasrótinni í ferðamálum til dæmis með stofnun samkomuhúss ferðaþjónustunnar þar sem sjálfbærni ætti að vera samheiti markmiðs.

Í hnotskurn:
Það þarf að viðurkenna ferðamál sem fjölþættan atvinnuveg í íslensku samfélagi. Það þarf að efla bæði hagnýtar og fræðilegar rannsóknir, grunn gagnaöflun og fagmennsku og samhliða að virkja hugarfarsbreytingar í átt til aukinnar samvinnu innan ferðamála þvert á hreppamörk og fagleg landamæri. Það þarf að styðja vel við allt ferli nýsköpunar til að stuðla að ríkulegri uppskeru og einfalda regluverk leyfisveitinga sem nú endurspeglar vaný ekkingu á margþættu eðli greinarinnar. Markmiðunum verður aðeins náð með góðri samvinnu við stjórnvöld og samstöðu um hag heildarinnar af atvinnuátaki í ferðamálum. Kynna þarf nýtt uppgjör sem sýnir mikilvægi ferðamennskunnar fyrir tekjur og þjóðarbú ítarlega fyrir aðilum ferðaþjónustu (e. Tourism satellite account, sjá hagstofan.is) en jafnframt efla rannsóknir á grunni þess uppgjörs, sem frekar gæti skilgreint hagrænan ávinning greinarinnar á landsvísu.

Ólafur Sveinn Jóhannesson, framkvæmdastjóri Framtíðarlandsins, Svanlaug Jóhannsdóttir, Klaki, og Anna Karlsdóttir, lektor í mannvistarlandafræði og ferðamálafræði í H.Í., höfðu umsjón með samræðu og vinnslu útgangspunkta á vinnuborði um ferðamál.

Björk Guðmundsdóttir boðaði til vinnufunda 12. og 19. október sl. í samvinnu við HR, Klak og nattura.info. Um hundrað sérfræðingar á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar réðu ráðum sínum og gerðu drög að átta tillögum um úrbætur í jafnmörgum málaflokkum.

Mynd af Laufási í Eyjafirði. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
19. nóvember 2008
Höfundur:
Neisti
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Neisti „6. Neisti - Ferðamál á Íslandi“, Náttúran.is: 19. nóvember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/11/23/6-neisti-feroamal-islandi/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 23. nóvember 2008

Skilaboð: