Frumvarp um aukna umhverfisábyrgð
Vernd náttúru og umhverfis er aukin til mikilla muna með nýju frumvarpi umhverfisráðherra um ábyrgð þess sem veldur umhverfisstjóni frá ákveðinni starfsemi. Frumvarpið er byggt á mengunarbótareglunni og felur í sér að þeim sem veldur tjóni á umhverfinu ber að bæta það, án tillits til þess hvort rekja megi tjónið til ásetnings eða gáleysis og þess hvort mengunin valdi einkaaðilum tjóni.
Öllum er gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við frumvarpsdrögin og er unnt að senda þær inn til og með 17. desember næstkomandi á netfangið postur@umhverfisraduneyti.is.
Lögunum er ætlað að auka ábyrgð þess sem veldur tjóni á umhverfinu og að koma í veg fyrir mengunarslys. Með tjóni á umhverfi er átt við tjón á vatni, landi og á vernduðum tegundum, búsvæðum og vistgerðum. Starfsemi sem fellur undir frumvarpið er aðallega mengandi starfsemi, svo sem rekstur verksmiðja, meðhöndlun úrgangs, losun efna í vatn, framleiðsla, flutningur hættulegra og skaðlegra efna og flutningur úrgangs milli landa. Þá fellur framleiðsla, meðferð og notkun á erfðabreyttum lífverum einnig undir frumvarpið, auk vatnstöku og vatnsmiðlunar.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um frumvarpið á heimasíðu umhverfisráðuneytisins: http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/1525.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Frumvarp um aukna umhverfisábyrgð“, Náttúran.is: 25. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/25/frumvarp-um-aukna-umhverfisabyrgo/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.