Í gær lauk í Bonn öðrum samningafundi Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna á þessu ári í aðdraganda 15. loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember þar sem reynt verður að ná samningum um arftaka Kyoto-bókunarinnar. Á fundinum í Bonn lögðu aðildarríkin (eða ríkjahópar á borð við ESB) fram fyrstu tillögur sínar um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda á næsta skuldbindingartímabili sem hefst 2013.

Enn er langt í land því þau losunarmörk sem iðnríkin kynntu á Bonn-fundinum duga hvergi nærri til að takmarka hlýnun Jarðar við 2 gráður á Celsíus að meðaltali, sem talin eru marka efri þolmörk lífríkisins. Til að þessi þolmörk verði ekki yfirstigin er talið nauðsynlegt að ná 25 - 40% samdrætti í útstreymi gróðurhúsalofttegunda miðað við 1990 fyrir árið 2020 en þau markmið sem kynnt voru í Bonn námu einungis -14 - 18% miðað við 1990.

Markmið Íslands 15% samdráttur

Um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda
Hér heima var í gær kynnt skýrsla um Möguleikar til að draga úr nettóústreymi gróðurhúsalofttegunda. Nettóútstreymi* er skilgreint sem „útstreymi að frádreginni bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu.” Skýrslan fjallar því að miklum hluta um bindingu kolefnis. Hugtakið binding er nefnt 243 sinnum en hugtakið samdráttur kemur fyrir 86 sinnum.

Verulegur og tafarlaus samdráttur í útstreymi gróðurhúsalofttegunda er skilvirkasta og öruggasta leiðin til að tryggja að hækkun hitastigs Jarðar haldist innan við 2°C að meðaltali. Annað brýnt verkefni er að stöðva eyðingu regnskóga sem nemur um það bil 1/5 af árlegri losun koltísýrings út í andrúmsloftið. Á hinn bóginn er binding kolefnis ekki jafngild samdrætti í losun og segir í skýrslunni að „Ákvæðið [í Kyoto-bókuninni] veitir því möguleika á að nota bindingu sem fæst með skógrækt til að auka við útstreymisheimildir.”** Því miður er ástæða til að óttast að það sé stefna ríkisstjórnarinnar til að mæta stóraukinni losun frá áliðnaði.

Svíþjóð og fleiri ríki féllu frá að nýta sér heimildir sem Kyoto-bókunin veitti til nýta sér bindingu kolefnis til frádráttar skuldbindingum sínum um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

WWF, Greenpeace, og fleiri umhverfisverndarsamtok birtu eigin drög að sáttmála fyrir Kaupmannahöfn. Í fréttatilkynningunni segir:

Climate change experts from leading non-governmental organisations today unveiled their blueprint for a legally binding Copenhagen agreement. This will serve as the benchmark for governments negotiating a new climate deal this year and shows how major differences between rich and poor nations can be overcome.

*Bls. 15.
**Bls. 21.
Birt:
13. júní 2009
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Um niðurstöður samningafundar í Bonn um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum “, Náttúran.is: 13. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/06/13/um-niourstoour-samningafundar-i-bonn-um-aogeroir-g/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: