Fyrirhuguð er reglugerðarbreyting sem hefur í för með sér að notkun díklórmetans (metþlendíklóríðs) í málningaruppleysum verður bönnuð í tveimur áföngum. Þetta kemur til af ákvörðun Evrópusambandsins frá 5. maí 2009 nr. 455/2009/EB sem senn verður tekin upp sem hluti af REACH löggjöfinni og mun því gilda í óbreyttri mynd hér á landi.

Frá og með 6. desember 2010 verður óheimilt að markaðssetja nýja málningaruppleysa sem innihalda díklórmetan og ári síðar eða frá og með 6. desember 2011 skal öll vara farin af markaði. Sala til almennra neytenda jafnt sem iðnaðarmanna verður bönnuð en þó er hægt að opna fyrir heimild fyrir sölu til iðnaðarmanna að uppfylltum skilyrðum um þjálfun í öruggri notkun málningaruppleysa með díklórmetani. Eftir 6. júní 2012 verður notkun að öðru leyti bönnuð ef undan er skilin iðnaðarnotkun þar sem fullkomin aðstaða er fyrir hendi. Fram að þessum tímamörkum mun reglugerð nr. 137/1987 gilda sem kveður á um hámarksmagn díklórmetans í vöru og að nota skuli efni sem hamla gegn uppgufun díklórmetans.

Í Evrópu hafa nokkur alvarleg slys og dauðsföll verið rakin til notkunar á málningaruppleysum með díklórmetani, flest vegna vankunnáttu og gáleysis. Díklórmetan gufar auðveldlega upp við stofuhita og getur valdið truflunum á miðtaugakerfi og sljóvgað meðvitundina. Hér á landi hafa verið skráð slys af völdum notkunar á díklórmetani. Engin önnur leið en bann er talin geta veitt hinum almenna neytanda nægilega vernd gagnvart þeirri hættu sem fylgir eðlilegri notkun. Vinna með málningaruppleysa fer oftast fram utan eiginlegra vinnustaða þar sem erfiðara getur reynst að uppfylla vinnuverndarreglur og oftast nær ómögulegt að uppfylla skilyrði um mengunarmörk. Þá er kostnaður við kaup á réttum hlífðarfatnaði og öryggisbúnaði er of hár til að ætlast megi til að ráðist verði í slíkt, sérstaklega af sjálfstætt starfandi iðnaðarmönnum.

Það voru mjög skiptar skoðanir á meðal aðildarríkja ESB um réttmæti svo afdráttarlausra aðgerða gegn áhrifaríku efni og ljóst er að áhrifin á málningarvöruiðnaðinn verði talsverð. Það er þó ekki ráðist í slíkar aðgerðir nema að sambærileg efni séu til staðar án allt of mikils aukakostnaðar. Þó má gera ráð fyrir að afleiðingin verði sú að breyta þurfi vinnutilhögun og að verk krefjist meiri tíma.

Ítarefni:

Mynd af radiantjourney.ca
Birt:
16. ágúst 2009
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Málningaruppleysar með díklórmetani verða bannaðir“, Náttúran.is: 16. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/16/malningaruppleysar-meo-diklormetani-veroa-bannaoir/ [Skoðað:30. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: