Bylgjupappi frá fyrirtækjum - Sorpa
Hvað á að flokka?
Allan bylgjupappa, t.d. pappakassa og aðrar umbúðir úr bylgjupappa. Bylgjupappa er hægt að þekkja af bylgjum sem sjást ef brúnir hans eru skoðaðar. Bylgjupappinn má vera áprentaður, plasthúðaður og litsterkur. Límbönd og hefti eru í lagi.
Hvað fer ekki í bylgjupappagám?
Aðskotahlutir s.s. allur annar pappi, plast eða matarleifar. Það er mikilvægt að taka frauðplast, plastfilmu eða poka úr kössum. Farmur sem inniheldur slík efni er felldur þar sem hann er eingöngu hæfur til urðunar og þurfa fyrirtæki að greiða fyrir losun á öllum blönduðum úrgangi. Frauðplast og önnur aðskotaefni valda erfiðleikum við endurvinnslu og gera efnið óhæft til nýtingar.
Hvert á að skila?
Fyrirtæki skila í móttöku- og flokkunarstöð SORPU í Gufunesi. Þar er viðskiptavini greitt fyrir bylgjupappa ef komið er með meira en 250 kg í almanaksmánuði. Fyrirkomulagið er með þeim hætti að fjárhæðin er lögð inn á viðskiptareikning fyrirtækisins hjá SORPU fyrir uppsafnað magn sem skilað hefur verið í mánuðinum. Sjá reglur þar um og kr/kg í gjaldskrá móttökustöðvar, flokkur 398.
Endurvinnsla – hvað er gert við hráefnið?
Bylgjupappi er baggaður og vírbundinn í móttöku- og flokkunarstöð SORPU. Hann er pressaður saman undir miklum þrýstingi í böggunarvélum í um það bil 900 kg. bagga. Þannig tekur hann margfalt minna pláss og hagkvæmara er að flytja hann til Svíþjóðar þar sem hann er endurunninn. Fyrirtækið IL recycling tekur við pappanum og sendir hann til nokkurra fyrirtækja í Svíþjóð til endurvinnslu. Þar ber helst að nefna Kappa Kraftliner Piteå en þeir framleiða nýja pappakassa/umbúðir úr endurunnum bylgjupappa. Það má endurvinna pappakassa allt að 7 sinnum. Einnig tekur fyrirtækið Inland við bylgjupappa til endurvinnslu og framleiðir úr honum pappa sem er notaður sem ysta lag á gifs einangrunarplötum. Hér má skoða myndband um endurvinnslu á bylgjupappa.
Til fróðleiks
Árlega eru um 10.000 til 15.000 tonn af bylgjupappa urðuð í Álfsnesi sem er um 10% alls þess magns sem þar er árlega fargað. Rúmmál urðaðs bylgjupappa á ársgrundvelli myndi fylla um fjóra Hallgrímskirkjuturna. Með flokkun og skilum á bylgjupappa er því dregið verulega úr því magni úrgangs sem fer til urðunar og fyrirtæki geta þannig lagt sitt af mörkum í þágu umhverfisins.
Magntölur
Á árinu 2007 fóru um 2.400 tonn af bylgjupappa til endurvinnslu í Svíþjóð.
Birt:
Tilvitnun:
SORPA bs „Bylgjupappi frá fyrirtækjum - Sorpa“, Náttúran.is: 11. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/11/bylgjupappi-fra-fyrirtaekjum-sorpa/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.