Náttúruverndarsamtök Suðurlands gera hér með athugasemdir við auglýstar breytingar á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss, dags. 20. ágúst 2009.

Auglýst breytingartillaga gerir m.a. ráð fyrir því að 285 ha. svæði á Bitru verði breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun.
Náttúruverndarsamtök Suðurlands  leggjast alfarið gegn þessari  breytingu á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss og telja að áform um virkjun á Bitru og aðliggjandi svæði rþri verulega lífsgæði íbúa í Hveragerði og í næsta nágrenni.

Í  umhverfisskýrslu Landmótunar sem fylgir sem rökstuðningur með aðalskipulagsbreytingu Sveitarfélagsins Ölfuss eru áhrif á samfélag talin verða jákvæð.
Náttúruverndarsamtök Suðurlands eru mjög ósammála þessu. Í skýrslunni er fyrst og fremst litið til ávinnings af væntanlegri atvinnuuppbyggingu í Þorlákshöfn og í Ölfusi. Ekki er neitt minnst  á hugsanleg alvarleg áhrif losunar brennisteinsvetnis frá Bitruvirkjun á  íbúa Hveragerðis.
Einnig er vakin  sérstök athygli á því að íbúar í Hveragerði og forystumenn þess sveitarfélags hafa gert ítrekaðar athugasemdir við áform um virkjun á Bitrusvæðinu og leggjast eindregið gegn henni.

Náttúruverndarsamtök Suðurlands telja að ekki hafi verið sýnt fram á að mengun af völdum brennisteinsvetnis af fyrirhugaðri virkjun verði með þeim hætti  að ásættanlegt sé að stunda slíka starfsemi nálægt þéttri byggð.
Ekki er nægilegt að tala einungis um ”að  framkvæmdaaðili ný ti ávalt bestu fáanlegu tækni til að hreinsa brennisteinsvetni úr útblæstri virkjana á Hengilsvæðinu og á Hellisheiði “, á meðan ekki er hægt að sýna fram á með vísindalegum rökum og gögnum  að slík tækni sé til staðar og virki til frambúðar .
Einnig benda Náttúruverndarsamtök Suðurlands á að ekki er hægt að hreinsa útblástur frá blásandi borholum. Slíkar borholur valda nú þegar talsverðum óþægindum hjá þeim sem aka eftir þjóðveginum yfir Hellisheiði. Ennfremur hafa íbúar á höfuðborgarsvæðinu fundið fyrir óþægindum og lyktarmengun frá Hellisheiðarvirkjun.

Náttúruverndarsamtök Suðurlands vísa  til þess að Hengilssvæðið, Ölkelduháls, dalirnir ofan Hveragerðis og afréttur Ölfuss er dýrmætt útivistarsvæði í nágrenni við helsta þéttbýli
landsins, auk þess er svæðið að hluta til á náttúruminjaskrá. Svæðið er því ekki einungis dýrmætt fyrir Ölfusinga og Hvergerðinga heldur alla landsmenn. Jafnframt hafa nytjar vegna margvíslegrar ferðaþjónustu á þessu svæði aukist talsvert. Iðnaðarsvæði skerðir útivistargæði verulega og ekki verður kostur á að njóta óspilltrar náttúru og fegurðar lands í stuttri fjarlægð frá búsetusvæðum umræddra þéttbýlissvæða. Varast ber að spilla þessu umhverfi frekar en orðið er með umræddum framkvæmdum; Gildi svæðisins er ekki aðeins falið í orkunýtingu til framtíðar heldur náttúruskoðun, en ferðaþjónustan er ein styrkasta stoð íslensks atvinnulífs og á aðeins eftir að verða  mikilvægari þegar fram líða stundir. Flutningslína  Landsvirkjunar, Búrfellslína 3, stuðlaði að verulegri eyðileggingu á umhverfi  Ölkelduháls, Bitru og Orustuhólshrauns þegar sú lína var lögð og er mikið lýti í fögru landslagi í dag. Fyrirhuguð virkjunarmannvirki  á umræddu svæði  eru algjörlega  óásættanleg þar sem frekari mannvirkjagerð á svæðinu myndi óhjákvæmilega gjörspilla þeirri náttúruperlu sem hér er um að ræða.

Sjá nánar um Náttúruverndarsamtök Suðurlands hér nss.is.

Mynd: Innst í Reykjadal. Ljósmynd: Árni Tryggvason.

Birt:
5. október 2009
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Suðurlands „Mótmæli og athugasemdir NSS við breytingum á aðalskipulagi Ölfuss“, Náttúran.is: 5. október 2009 URL: http://nature.is/d/2009/10/05/motmaeli-og-athugasemdir-nss-vio-breytingum-aoalsk/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: