Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) hefur samþykkt samantekt á 4. yfirlitsskýrslu sinni um loftslagsbreytingar. Viku löngum fundi nefndarinnar lauk í Valencia á Spáni í dag. Samantektin er ætluð stefnumótendum og í henni eru dregnar saman helstu upplýsingar um stöðu vísindalegrar þekkingar á loftslagsbreytingum – orsökum þeirra, umfangi og afleiðingum, en einnig varðandi aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum og aðlagast þeim. Skýrslan hefur komið út í þremur áföngum á þessu ári og er byggð á vinnu 2.500 vísindamanna. Hún er því viðamesta vísindalega samantekt sem gerð hefur verið um loftslagsbreytingar.

Meginniðurstöður nefndarinnar eru þessar:

  • Hlýnun jarðar er staðreynd.
  • Vísindaleg vissa um loftslagsbreytingar af mannavöldum hefur aukist.
  • Spáð er 1,8-4°C hlýnun á þessari öld.
  • Sjávarborð mun hækka um aldir; Norður-Íshafið verður nálega íslaust á sumrin fyrir aldarlok.
  • Golfstraumurinn mun veikjast, en litlar líkur eru á stórfelldum breytingum á straumakerfi hafsins.
  • Losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast.
  • Miklir möguleikar eru á að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á hagkvæman hátt.
  • Aðgerðir næstu 2-3 áratugi til að draga úr nettólosun skipta miklu um árangur.

Fulltrúar Íslands á fundinum voru þau Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, Halldór Björnsson, formaður vísindanefndar umhverfisráðuneytisins um loftslagsbreytingar og Brynhildur Davíðsdóttir, formaður sérfræðinganefndar umhverfisráðuneytisins um möguleika á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Hægt er að ná í Huga Ólafsson í síma 8962130 og Halldór Björnsson í síma 8940712.

Þriðja yfirlitsskýrsla IPCC kom út 2001 og hefur haft mikil áhrif á alþjóðlega umræðu um loftslagsmál. Fjórða skýrslan mun verða kynnt á komandi aðildarríkjaþingi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Balí í desember næstkomandi og mun liggja til grundvallar í komandi samningaviðræðum um framhald alþjóðlegrar samvinnu í loftslagsmálum eftir að gildistíma Kýótó-bókunarinnar lýkur árið 2012.

Nokkrar helstu niðurstöður 4. yfirlitsskýrslu IPCC:

  • Hlýnun lofthjúpsins er óumdeilanleg staðreynd, sem kemur m.a. fram í hækkun á meðalhitastigi andrúmsloftsins og hafsins, víðtækri bráðnun á snjó og ís og hækkandi sjávarborði. Hlýnun við yfirborð jarðar var um 0,74°C sl. 100 ár.
  • Vísindaleg vissa um að loftslagsbreytingar af mannavöldum eigi sér stað hefur aukist frá því að IPCC gaf út 3. skýrslu sína árið 2001. Mælanleg hlýnun jarðar verður ekki skýrð eingöngu út frá náttúrulegum þáttum, s.s. sólgeislun og eldgosum, heldur eingöngu ef einnig er tekið tillit til áhrifa mannsins og losun gróðurhúsalofttegunda (GHL).
  • Styrkur koldíoxíðs (CO2), metans og köfnunarefnisoxíðs í andrúmsloftinu hefur aukist verulega af mannavöldum síðan um 1750. Styrkur CO2 í andrúmslofti er nú 33% meiri en fyrir upphaf iðnbyltingar og meiri en nokkru sinni í a.m.k. 650.000 ár, eða eins langt aftur í tímann og hægt er að sjá út frá upplýsingum úr ískjörnum. Aukning á styrk CO2 er einkum vegna bruna jarðefnaeldsneytis, en einnig vegna breytinga á landnotkun.
  • Áframhaldandi losun GHL í svipuðu eða meira magni en nú er myndi valda aukinni hlýnun og margvíslegum breytingum á loftslagskerfi jarðar á 21. öldinni, sem myndu mjög líklega verða meiri en þær sem hafa orðið á 20. öldinni. Dæmi um afleiðingar hlýnunar sem virðast vera óhjákvæmilegar eru: Dauði kóralrifja, tilfærsla á búsvæðum tegunda, vatnsskortur og þurrkahætta einkum á svæðum á lægri breiddargráðum, aukin hætta á skógareldum og aukin hætta á flóðum á strandsvæðum í takt við hækkun sjávarborðs.
  • Líklegasta hlýnun af mannavöldum á þessari öld er talin á bilinu 1,8-4,0°C ef aðeins er tekið tillit til óvissu um losun gróðurhúsalofttegunda. Minni óvissa ríkir nú um viðbrögð lofthjúpsins við aukningu GHL; ef styrkur GHL tvöfaldast er líkleg hlýnun á bilinu 2.0-4.5°C (líklegast 3°C). Mörg loftslagslíkön framreikna hlýnun um 0,2°C á áratug næstu 20 árin.
  • Meðalsjávarborð hefur hækkað frá 1961 um 1,8 mm á ári að meðaltali og frá 1993 um 3,1 mm á ári, vegna bráðnunar jökla og þenslu sjávar vegna hlýnunar. Sjávarborð mun hækka um aldir, eins þótt jafnvægi náist í styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Líkön benda til hækkunar sjávarborðs um 18-59 sm til aldarloka, ef ekki er gert ráð fyrir skyndilegri aukningu á flæði jökulíss á heimskautasvæðunum.
  • Hafís á norðurheimskautssvæðinu hefur dregist saman um 2,7% á áratug frá upphafi gervihnattamælinga og enn meira á sumrin, eða um 7,4% á áratug. Hafís á NorðurÍshafi hverfur nær algerlega á sumrin fyrir aldarlok.
  • Talið er mjög líklegt að hægi á hringrás hafstrauma í Atlantshafi á 21. öld, en það er mjög ólíklegt að stórfelldar og snöggar breytingar verði, s.s. að Golfstraumurinn stöðvist. Breytingar á straumakerfi geta haft áhrif á framleiðni vistkerfa í hafinu,fiskveiðar og upptöku kolefnis úr andrúmslofti.
  • Síðan 1750 hafa heimshöfin súrnað um 0,1 sýrustig, vegna aukinnar upptöku koldíoxíðs úr andrúmsloftinu. Áhrif þessa á lífríki hafsins eru enn lítt þekkt, en súrnun er talin munu hafa neikvæð áhrif á ýmis dýr sem byggja sér skeljar eða stoðkerfi, s.s. kóralla.
  • Árleg losun GHL hefur aukist um 70% frá 1970 til 2004. Aukning á losun GHL verður um 25-90% milli 2000 til 2030 að óbreyttu. Allt bendir til að jarðefnaeldsneyti verði áfram meginorkugjafi jarðarbúa til 2030 og lengur.
  • Miklir möguleikar eru á að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á hagkvæman hátt. Ríkisstjórnir hafa ýmis tæki til að hvetja til minnkunar á losun GHL, m.a.: reglusetningu og staðlagerð; skatta og gjöld; framseljanlegar losunarheimildir; hagræna hvatar; frjálsa samninga; innleiðingu loftslagsstefnu í þróunaraðstoð; upplýsingagjöf; og rannsóknir, þróun og tilraunaverkefni. Auk aðgerða til að draga úr
    losun er aðlögun samfélaga að loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra einnig nauðsynleg.
  • Aðgerðir næstu 2-3 áratugi til að draga úr nettólosun eru brýnar. Búist er við að fjárfesting í orkugeiranum muni nema yfir 20 þúsund milljörðum dollara á tímabilinu 2005-2030, en eðli þeirra fjárfestinga mun hafa mikil áhrif á möguleika til að takmarka losun GHL, vegna langs líftíma orkuvera og annarra innviða. Ef takast á að halda losun árið 2030 svipaðri og árið 2005 þyrfti að koma til veruleg breyting á eðli fjárfestinga í orkugeiranum, þannig að þær færu í auknum mæli til loftslagsvænna lausna.
  • Ýmsar aðgerðir til að minnka nettólosun hafa aðra jákvæða kosti (aukaáhrif) í för með sér, sem getur þýtt að heildarkostnaður við framkvæmd þeirra getur verið lítill eða jafnvel neikvæður.
  • Meðalkostnaður árið 2050 við að ná stöðugleika GHL í andrúmslofti á bilinu 710 til 445 ham CO2-ígilda er sem svarar á bilinu 1% aukningu heimsframleiðslu til 5,5% minnkunar. Þetta samsvarar því að meðalvöxtur heimsframleiðslu minnki um 0,12 prósentustig árlega.

Sjá nánar í útdrætti á samantekt úr 4. yfirlitsskýrslu IPPC.
Sjá vef IPCC.

Myndin er af Ban Ki-Koon, aðalritara Semeinuðu þjóðanna Hann sagði frá niðurstöðum skýrslunnar á fundi á Spáni í dag. Hann hvatti þjóðir heims til að grípa til aðgerða á loftslagsráðstefnu S.þ. í Balí í desember. Myndin er tekin í ferð Ban Ki-Moon til Suðurskautslandsins fyrr í þessum mánuði þar sem hann skoðaði áhrif loftslagshlýnunar.

Birt:
17. nóvember 2007
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Vísindanefnd S.þ. um loftslagsbreytingar samþykkir tímamótaskýrslu “, Náttúran.is: 17. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/17/visindanefnd-sth-um-loftslagsbreytingar-samthykkir/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 18. febrúar 2008

Skilaboð: